Á Sturlungaslóð Sigurður Hansen skýrir liðsskipan Brands Kolbeinssonar.
Á Sturlungaslóð Sigurður Hansen skýrir liðsskipan Brands Kolbeinssonar. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
Björn Björnsson bgbb@simnet.is Sigurður bóndi Hansen á Kringlumýri í Blönduhlíð í Skagafirði er einn þeirra manna sem snemma heilluðust af Sturlungasögu og þá sérstaklega þeim hluta sögunnar sem gerist í Skagafirði.

Björn Björnsson

bgbb@simnet.is

Sigurður bóndi Hansen á Kringlumýri í Blönduhlíð í Skagafirði er einn þeirra manna sem snemma heilluðust af Sturlungasögu og þá sérstaklega þeim hluta sögunnar sem gerist í Skagafirði. Í Sturlungu á Sigurður sér uppáhaldspersónu, sem er Þórður Kakali Sighvatsson, og telur Sigurður hann afbragð annarra manna sem við sögu koma á þeim viðsjárverðu tímum sem nefndir hafa verið Sturlungaöld.

Í fyrrasumar stóð áhugamannahópur sem nefnist á Sturlungaslóð, og í þeim hópi er einmitt Sigurður Hansen, fyrir því að reisa stóran róðukross á grundinni neðan Haugsness, en á þeim stað stóð róðukross sem reistur var skömmu eftir Haugsnesbardaga til minningar um Brand Kolbeinsson sem fór fyrir liði Ásbirninga en var höggvinn eftir bardagann á grundinni, sem eftir það var kölluð Róðugrund, en við siðaskipti var krossinn tekinn niður og brotinn, svo sem flestar minjar um hinn gamla sið.

Skömmu áður en krossinn var vígður í fyrrasumar hófst Sigurður Hansen handa við að safna saman stórum steinum af áreyrunum og lét hvern stein tákna einn mann úr hvoru liði þegar hann skipaði í fylkingar liði Brands Kolbeinssonar annarsvegar en hinsvegar liði Þórðar Kakala, eins og hann hefur hugsað sér að liðsskipan hafi verið rétt áður en fylkingum laust saman.

Samkvæmt Sturlungu eru þeir nefndir sem féllu í bardaganum en þetta mun vera ein mannskæðasta orrusta sem háð hefur verið hérlendis og hefur Sigurður merkt þeirra steina með krossi, og á korti sem þeir fá sem skoða vilja er sagt frá allri liðsskipan og tilgreind nöfn þeirra sem féllu og sýnt hvar þeir voru í fylkingu.

Blásið til fundar á Sturlungaslóð

Síðastliðinn laugardag sem var viðburðadagur hópsins á Sturlungaslóð var blásið til fundar, fyrst á Reynistað þar sem Sigríður Sigurðardóttir safnvörður fjallaði um merka Ásbirninga sem þar hefðu búið, meðal annarra Brand Kolbeinsson, þá söng Helga Rós Indriðadóttir ljóð sem samin voru eftir fall Brands við Haugsnes.

Síðan var farið á Haugsnesið þar sem „grjóther“ Sigurðar var afhjúpaður og kynntur fjölda gesta sem komu til þess að skoða þennan „stórkostlega gjörning“ eins og Eyþór Árnason, leikari og kynnir, kallaði þetta listaverk í landslaginu. Þá var sögumaður á Örlygsstöðum og um kvöldið var Ásbirningablót í Varmahlíð.

Sigurður Hansen sagði að það væru náttúrlega ekki nema stórbilaðir menn sem tækju upp á svona hlutum og líklega hefði hann ekki lagt í að byrja á verkinu ef hann hefði gert sér nokkra grein fyrir umfangi þess, en nú væri þetta búið og ætti vonandi eftir að vera sagnaþyrstum gestum til ánægju um ókomin ár. Hinsvegar sagði hann vonandi að á næsta viðburðadegi, að ári, gæti hann boðið gestum til Kakalaskála heima á Kringlumýri, en hugmyndavinnu við þá framkvæmd væri nánast lokið og hann farinn að draga að sér efni í skálann sem verður veglegt hús sem tekið getur tugi gesta í sæti.

Lýstu gestir sérstakri hrifningu á þessu glæsilega verki Sigurðar og ljóst að sá athafnamaður hefur ekki í huga að setjast með hendur í skaut þótt einu stórvirki sé lokið en er þegar farinn að viða sér efni í það næsta.