Erling Ólafsson söngvari fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1910. Hann lést á Vífilsstöðum 23. desember 1934. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Jónatansson, f. 8. maí 1880, d. 2. desember 1963, og Þuríður Jónsdóttir, f. 7. janúar 1873, d. 20. janúar 1941. Albræður hans voru Jónatan, lagahöfundur og hljómlistarmaður, f. 1914, d. 1997, og Sigurður, söngvari og hestamaður, f. 1916, d. 1993. Auk þeirra átti Erling fjögur hálfsystkini, sammæðra.

Unnusta Erlings og barnsmóðir var Hulda Gestsdóttir, f. 16. apríl 1909, d. í Bandaríkjunum 27. september 1985, systir Svavars Gests tónlistarmanns. Dóttir þeirra var Gyða, f. 25. nóvember 1929, d. 16. nóvember 2005. Fósturforeldrar Gyðu voru Hjörtur Elíasson, f. 1890, d. 1967, og Guðrún Kristjánsdóttir, f. 1886, d. 1962. Eiginmaður Gyðu var Aðalsteinn Dalmann Októsson verkstjóri, f. 26. febrúar 1930, og börn þeirra eru Hjörtur Ottó, Eygló, Guðrún, Erling Ólafur og Gylfi Dalmann.

Erling var 15-16 ára þegar hann hóf að sækja söngtíma hjá Sigurði Birkis, síðar söngmálastjóra, og auk þess naut hann leiðsagnar Einars Markan. Hann gekk ungur til liðs við Karlakór Reykjavíkur og söng sem einsöngvari með kórnum á ýmsum söngskemmtunum. Þá var hann með þeim fyrstu sem sungu við jarðarfarir hér á landi. Þegar Erling var 21 árs söng hann inn á tvær hljómplötur á vegum Columbia fyrirtækisins, m.a. „Í fjarlægð“ eftir Karl O. Runólfsson við texta Valdimars Hólm Hallstað. Erling veiktist af berklum og lést á Þorláksmessu 1934, aðeins 24 ára að aldri.

Í dag, 21. ágúst, er öld liðin frá fæðingu Erlings Ólafssonar söngvara, en berklar lögðu hann að velli aðeins 24 ára. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann komist í fremstu röð söngvara hér á landi og hefur af mörgum verið talinn eitt mesta söngvaraefni íslenskt fyrr og síðar. Hljómfögur baritónrödd hans var landsþekkt og dáð. Hann kom fyrst fram opinberlega á söngskemmtun í Gúttó og hélt sjálfur eina slíka í Nýja bíói 1930. Þá gekk hann ungur til liðs við Karlakór Reykjavíkur. Dagblaðið Vísir var óspart á lofið þegar Erling þreytti frumraun sína sem einsöngvari með Karlakórnum og kvað hann hafa „náð hrifningartökum á áheyrendum“. Gagnrýnandi blaðsins lýsti rödd hans sem aðdáunarverðri.

Ekki var liðið ár frá stofnun Ríkisútvarpsins þegar hann 21 árs söng inn á hljómplötu við undirleik tríós Þórarins Guðmundssonar lögin Mamma, Svörtu augun, Sigling og hið þekkta lag Í fjarlægð eftir Karl O. Runólfsson, en Erling hljóðritaði það fyrstur manna. Með Karlakórnum hljóðritaði hann lagið Stenka Rasin. Þessar hljóðritanir urðu fádæma vinsælar. Á þeim tíma voru íslenskar hljómplötur mikið nýnæmi og nýstofnað Ríkisútvarpið gerði Erling að poppstjörnu þess tíma. Ekki spillti útlitið – hann var hár og fríður, með dökkt, næstum suðrænt yfirbragð, enda þótti hann heillandi þegar hann kom fram í hlutverki von Schwind málara í Meyjarskemmunni 1934, þá reyndar dauðsjúkur.

Bræður Erlings voru þeir Sigurður, söngvari og hestamaður og Jónatan, lagahöfundur og tónlistarmaður, Ólafssynir. Í æviminningabók Sigurðar, Í söngvarans jóreyk, rifja þeir bræður upp feril hans og lýsa persónuleikanum. Kemur fram að þeir Jónatan hafi farið í hljómleikaferðir til Ísafjarðar og Siglufjarðar 1933 og gert góða ferð. Erlingi lýsa þeir sem viðkvæmum og tilfinningaríkum og að hjarta hans hafi slegið með þeim sem minna máttu sín.

Vinskapur var með Erlingi og Stefáni Íslandi, sem heyrði hljóðritanir Erlings þá kominn til Ítalíu. Hreifst hann af og lagði hart að vini sínum að koma þangað til frekara náms. Áður en af því varð hafði hinn mikli vágestur, berklarnir, gert sig heimakominn.

Dóttir Erlings og unnustu hans Huldu Gestsdóttur, systur Svavars Gests, var móðir mín heitin, Gyða. Erfði hún sönghæfileika föður síns, en lagði sönginn ekki fyrir sig. Gyða hélt minningu föður síns mjög á lofti og lagði að okkur systkinum að hlusta vel þegar söngur Erlings ómaði í Ríkisútvarpinu, en það gerðist reglulega fram á síðustu ár.

Við útför Erlings frá Dómkirkjunni sætti það tíðindum að hans eigin hljóðritun með laginu Mamma var leikin. Var sem Stefán frá Hvítadal hefði þar ort fyrir munn Erlings sjálfs. Þar er hendingin:

„Ó mamma, ég er sjúkur og sár og sál mín þreytt.„

Æskuvinur Erlings, Vilhjálmur frá Skáholti, orti minningarljóð um hann. Eitt erindanna hljóðar svo:

Hið tæra ljóð, það óx þér innst við hjarta,

sem ástin hrein það barst í sál mér inn.

Og nú þótt dauðinn signi svip þinn bjarta,

þú syngur ennþá gleði í huga minn.

Blessuð sé minning Erlings afa míns.

Hjörtur O. Aðalsteinsson.