HUGLEIÐINGAR UM "HEILSDAGSSKÓLA" Matthildi Guðmundsdóttur "Formaður Skólamálaráðs Reykjavíkur, Árni Sigfússon, hófst handa sumarið 1992, kallaði skólastjóra á sinn fund, ræddi stöðuna, og hann gerði meira en það, því tilraun með svo kallaðan...

HUGLEIÐINGAR UM "HEILSDAGSSKÓLA" Matthildi Guðmundsdóttur "Formaður Skólamálaráðs Reykjavíkur, Árni Sigfússon, hófst handa sumarið 1992, kallaði skólastjóra á sinn fund, ræddi stöðuna, og hann gerði meira en það, því tilraun með svo kallaðan "heilsdagsskóla" hófst í 5 skólum borgarinnar strax haustið 1992."

Orðið "heilsdagsskóli" hefur talsvert borið á góma í blöðum og í máli manna. Í Reykjavík er þetta orð notað yfir þjónustu sem veitt er foreldrum og börnum á grunnskólaaldri.

Ég læt liggja milli hluta hvort heitið á þjónustunni er gott eða ekki, aðalatriðið er að stigið hefur verið stórt skref hvað varðar umhyggju fyrir börnum.

Aðstæður 6 og 8 ára barna haustið 1991

Kennaranemarnir Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Rútsdóttir könnuðu aðstæður 6 og 8 ára barna í Reykjavík veturinn 1991­92 sem lokaverkefni til kennaraprófs. Könnunin náði til 557 barna í 7 skólum. Þar af voru 38 börn á skóladagheimilum og 34 börn hjá dagmæðrum. 23% barna voru ein heima einhvern tíma vikunnar frá 1­30 klst. 22% barna voru heima með systkinum sínum, sem í örfáum tilfellum voru yngri en oftast eldri og þá á grunnskólaladri í flestum tilfellum. 52 börn voru ein heima 11­30 klst. á viku.

Daglegt líf 9 ára barna í Reykjavík 1991

Sálfræðingar Brynjólfur G. Brynjólfsson, Maia Sigurðardóttir, Sigríður Torfadóttir og Víðir Kristinsson, öll á Sálfræðideild skóla á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis, könnuðu daglegt líf 9 ára barna í Reykjavík veturinn 1991­92. Könnunin náði til 396 barna í 10 skólum. Fram kom að 70,1% af 9 ára börnum voru ein heima einhvern hluta dagsins, þar af voru 15,9% alein heima 4 klst. eða meira.

Niðurstöður þessara kannana sýna að all mörg 6­9 ára börn þurftu að bjarga sér án leiðsagnar og umsjár fullorðinna, einnig kom fram að stór hópur var á fleiri en einum stað utan heimilis og skóla á hverjum degi.

Staðan var óviðunandi og þörf á úrbótum strax.

Tilraun

Formaður Skólamálaráðs Reykjavíkur, Árni Sigfússon, hófst handa sumarið 1992, kallaði skólastjóra á sinn fund, ræddi stöðuna, og hann gerði meira en það, því tilraun með svo kallaðan "heilsdagsskóla" hófst í 5 skólum borgarinnar strax haustið 1992. Tilraunaskólarnir voru mjög mismunandi og kostir þeirra til umsjár nemenda utan stundaskrár skóla voru ólíkir, eins og vera ber ef leita á nýrra leiða. Í elstu bekkjum grunnskólans var helst boðin aðstoð við heimanám en yngstu börnunum bauðst um að njóta umsjár og handleiðslu frá kl. 7.45­17.15.

Sveigjanlegur vistunartími

Fólk gat valið frá einni klst. einu sinni í viku og yfir í allt tímabilið frá kl. 7.45­17.15 þar sem stundaskrá skólans kom að sjálfsögðu inn í þennan tíma annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Getur nokkur bent á fjölbreyttari vistunartíma en þennan? Fólk greiðir kr. 110 fyrir klukkustundina, en þó aldrei meira en kr. 6.500 á mánuði. Ef systkini þurfa á þessari þjónustu að halda þá er afsláttur af gjaldinu fyrir annað og/eða þriðja barn. Veit nokkur um ódýrari kost?

Aðhlynning fyrir öll grunnskólabörn í Reykjavík

Það þarf kjark og áræði til að hrinda í framkvæmd svo stóru átaki sem því að bjóða öllum 6­9 ára börnum borgarinnar aðhlynningu gegn vægu gjaldi á tímanum kl. 7.45­17.15 milli þess sem þau eru í skólanum.

Að barn geti fengið að vera eina klukkustund á mánudegi, fjórar á þriðjudegi, tvær á miðvikudegi o.s.frv. og bara greitt fyrir þann tíma sem það er hlýtur að koma til móts við þarfir barna og foreldra eins og best verður á kosið. Satt að segja hélt ég að allir yrðu mjög þakklátir fyrir svo fjölbreytt val! Eflaust eru margir þakklátir en þeir virðast líka vera hljóðlátir því það heyrist lítið til þeirra og meira hefur borið á þeim sem tíunda einhverja annmarka í þessu stóra átaki.

Það eru vissulega ljón á veginum hvað varðar launamál starfsmanna, en vonandi eru það byrjunarerfiðleikar sem leysast fyrr en síðar.

Margir skólastjórar og starfsfólk leggur mikinn metnað í að í "Heilsdagsskólanum" sé sem best komið til móts við þarfir barnanna námslega, félagslega og líkamlega. Það eru 25 skólar í borginni (fyrir utan einkaskóla) með börn á aldrinum 6­12 ára og því ekki óeðlilegt að mismunur sé á framkvæmd dagvistunar sem þarf að skipuleggja frá grunni í hverjum skóla því aðsókn er mismunandi og ef til vill meiri en búist var við þegar húsnæði var ákveðið og starfsfólk ráðið. Í sumum skólum starfa eingöngu kennarar með börnunum í "heilsdagsskólanum" nema hvað þeir fá aðstoð við matargerð, en það er eitt af þeim málum sem verið er að þróa í samvinnu við foreldra og börn því óskir um mat eru mjög misjafnar.

Heimsókn í "heilsdagsskóla

Staðurinn heitir "Laugasel" og er í Laugarnesskóla. Þegar börnin koma um kl. 8 að morgni finna þau sér notanlegan stað til að hlusta á sögu eða spila. Kl. 9.30 er nestistími, en síðan gefst tími til ýmissa verka og þennan dag voru börnin að sauma sér svuntur, 3 saumavélar voru á stóru borði í eldhúsinu og starfsgleðin skein úr andlitum barnanna.

Þau hjálpa til við verkin og því nauðsynlegt að hafa svuntur til að hlífa skólafötunum.

Einhverjir voru í dúkkuleik eða Ludo og ungur maður var að aka litlum bíl á dúk með áteiknuðum götum, umferðarmerkjum og húsum. Önnur voru úti í frjálsum leik. Þegar nær dregur hádegi fer konan í eldhúsinu að þurfa aðstoð við að leggja á borðið sem saumavélarnar eru á núna. Í matinn verður þennan dag einhver fiskréttur. Eftir hádegi verða önnur börn og þegar þau hafa borðað annað hvort nestið sitt eða þann mat sem er framreiddur á staðnum, fara þau að læra fyrir morgundaginn rétt eins og þau myndu gera ef þau væru heima hjá mömmu og pabba. Hver þekkir ekki frá sjálfum sér að fyrst að læra og svo að leika sér? Um kl. 14 er ýmislegt í boði svo sem að fara út í íþróttasal, í sund, á bókasafnið, í vettvangsferð eða vera inni t.d. að sauma sér svuntu eða bara að hvíla sig. Rætt hefur verið um að skapa þurfi aðstæður til að komast á skauta, en til þess þarf skólinn að eignast skauta. Í dag er gott veður og það á að fara í náttúruskoðun. Kl. 15.30 er nestistími en eftir það koma börn sem voru í skólanum eftir hádegi og önnur fara að tínast heim.

Mikil áhersla er lögð á snyrtilega umgengni og góð samskipti.

Samanburður við sænska tilhögun

Í nágrenni Gautaborgar, nánar tiltekið í Kungsbacha, mega börn koma í húsnæði skólans kl. 6 og vera í vistun fram að skólabyrjun og síðan aftur eftir að stundaskrá skólans lýkur til kl. 18. Til eru börn sem nýta allan tímann en flest börn eru skemur. Foreldrarnir greiða fyrir þann tíma sem börnin eru og húsnæðið sem notað er eru skólastofur barnanna ásamt smá herbergi eða eldhúsi. Sumir kennarar starfa bæði við skólann og dagvistina og þykir það jákvætt að börnin njóti sem mest samvista við sama fólkið sem þekkir þau best og það sé gott að þurfa ekki að dvelja nema á einum stað utan heimilis sama daginn.

Lokaorð

Það er von mín að hægt verði að þróa gott starf í "heilsdagsskólanum" undir handleiðslu kennara og annarra sem menntaðir eru til umsjár barna á grunnskólaaldri.

Höfundur er kennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis.

1.

Matthildur Guðmundsdóttir

2.

Mynd úr "heilsdagsskóla", "Laugarseli í Laugarnesskóla