1. október 2010 | Aðsent efni | 660 orð | 1 mynd

Hvernig stendur á vandræðunum við Landeyjahöfn?

Eftir Pál Imsland

Páll Imsland
Páll Imsland
Eftir Pál Imsland: "Höfnin verður alltaf til vandræða vegna þess að sandurinn er ekki á leiðinni fram hjá höfninni heldur að henni sjálfri fyrir tilverknað öldusveigju."
Draumur Vestmannaeyinga hefur ræst. Þeir hafa fengið höfn í Landeyjasandi. En gleðin hefur breyst í örvæntingu og ásakanir. Kjaftur Landeyjahafnar fyllist sífellt af sandi og er nær ófær vegna grynnsla.

Og hvers vegna er svona komið? Þrjár ástæður hafa að undanförnu einkum verið nefndar í opinberri umræðu, eldgos í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess, óeðlilegar aðstæður í náttúrunni og vitlaus Herjólfur. Ekkert af þessu er í raun rétt ástæða ástandsins.

Það segir sig sjálft að það að halda því fram að vandræðin stafi af því að Herjólfur sé ekki eins og hann þarf að vera til að henta höfninni, er ófaglegur áróður og þarf ekki að ræða. Það dreifir aðeins athyglinni og ruglar skilning á málinu.

Hins vegar er afstaða siglingamálastjóra til náttúrunnar merkileg og umræðu virði. Í sjónvarpsviðtali hinn 8. sept. síðastliðinn sagði hann: „Það var í öllum áætlunum gert ráð fyrir því að það væri mikill sandburður.“ Og varðandi lausn á vandanum sagði hann: „En varanlega lausnin er eins og ég segi áður væntanlega sú að náttúran fari í eðlilegt horf og sjái um að hreinsa sandinn þarna frá. Það er erfitt að segja nákvæmlega hvaða tíma það tekur. Þar er það náttúran sem ræður, hvenær náttúran kemst í eðlilegt horf eða venjulegt horf, en ég hef fulla trú á að þetta gangi allt upp.“ Í sama viðtali er haft eftir honum að: „Ekki hafi verið reiknað með svo miklum austanáttum né eldgosi.“

Af þessum ummælum má ráða að það sé viðtekin skoðun á Siglingamálastofnun að náttúrunni beri að haga sér á ákveðinn hátt, helst í samræmi við þarfir manna. Við sem fáumst við náttúrufræði vitum að ekkert er óeðlilegt í hegðun og gerðum náttúrunnar og að hún lýtur ekki stjórn manna. Hún kann hins vegar að viðhafa ólíka tímaskala og jafnvel óvenjulega í athöfnum sínum og er því í grundvallatriðum óútreiknanleg. Tíðar austlægar áttir við suðurströndina geta því ekki verið óeðlilegar, né heldur mikill sandburður með ströndinni. Hafi stofnunin ekki haft þetta sjónarmið um virkni og eðli breytinga í náttúrunni að leiðarljósi í forvinnu sinni við hönnun hafnarinnar, hefur henni einfaldlega brugðist aðferðin.

Varðandi eldgosið má benda á að aðdragandi þess hefur verið undir vökulum augum íslenskra jarðvísindamanna síðan 1994 eða mun lengur en undirbúningur hafnarinnar. Þetta gos kom því engum sem til þekkir á óvart, né heldur afleiðingar þess. Þessu líkt hefur gerst við suðurströndina áður og skilningur á því og afleiðingum þess hefur ekki vafist fyrir mönnum. Þessu til viðbótar má rifja upp orð skipstjórans á lóðsinum í Landeyjahöfn, sem segir að þarna sé grófur sandur á ferð en ekki bara sú fínkorna leðja sem einkennir gjóskuna úr gosinu. Slíku fínkorna efni er eiginlegt að fljóta lengi í öldu- og straumróti og setjast fyrst og fremst til úti á meira dýpi eða kyrrari sjó en er uppi við ströndina. Þar eru einkum á ferðinni stærri og þyngri korn sem hrekjast til undan öldu og straumi sem botnskrið en ekki grugg.

Hvers vegna eru þá þessi vandræði við Landeyjahöfn? Ástæðan er einföld, öldusveigjan umhverfis Vestmannaeyjar. Þegar suðlægar áttir, sem eru aðaláhrifaáttir á svæðinu og algengastar, valda öldu sem berst upp undir landið verða Vestmannaeyjar fyrst fyrir og hafa mikil áhrif. Þær hægja á öldunni og sveigja hana umhverfis eyjarnar þannig að þegar öldurnar berast loks að landi falla þær skáhallt að ströndinni, úr suðvestlægri átt vestan Landeyjatanga og úr suðaustlægri átt austan hans. Þær bera þannig sandinn með sér úr austri og vestri og safna honum fyrir í skjólinu af eyjunum. Þannig myndar öldusveigja smám saman svokallaða granda (tombolo) og tengir eyjar og sker stærri löndum þar sem setstrendur eru til staðar. Landeyjatangi er ekki þarna af tilviljun eða af sérstökum framburði Markarfljóts. Engir svipaðir tangar eru fram af öðrum stórfljótum sem renna til sjávar á suðurströndinni. Landeyjatangi er þarna vegna öldusveigjunnar umhverfis Vestmannaeyjar og í honum var Landeyjahöfn sett niður. Hún getur því aldrei virkað. Sandurinn er ekki á leiðinn framhjá hafnarkjaftinum heldur er hann á leiðinni þangað. Þar er hans náttúrulega heima!

Höfundur er jarðfræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.