Zumba dansfitness Anna Claessen kennari t.h. í mikilli mjaðmasveiflu og aðrir reyna að fylgja henni eftir.
Zumba dansfitness Anna Claessen kennari t.h. í mikilli mjaðmasveiflu og aðrir reyna að fylgja henni eftir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hvað er þetta zumba?“ hafa örugglega margir spurt sig að undanförnu enda virðist sannkallað zumba-æði vera hér í uppsiglingu. Zumba heyrist oft nefnt í saumaklúbbum og sést ritað í fésbókarstöðufærslur.

„Hvað er þetta zumba?“ hafa örugglega margir spurt sig að undanförnu enda virðist sannkallað zumba-æði vera hér í uppsiglingu. Zumba heyrist oft nefnt í saumaklúbbum og sést ritað í fésbókarstöðufærslur. Ég ákvað að forvitnast um þetta fyrirbæri og komst að því að zumba er blanda af dansi, líkamsrækt og stuði.

Prufutíminn

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Það hefði ekki sakað að hafa verið send í nokkra samkvæmisdanstíma sem barn, að því komst ég í mínum fyrsta zumba-tíma. Í staðinn settu foreldrar mínir mig í íslenska glímu og þótt það þurfi að stíga falleg spor í henni og bera sig glæsilega á hún lítið skylt við sjóðheita suðurameríska dansa. Heitt blóð virðist þó renna í okkur Íslendingum því aðsóknin er mikil í zumba-dansfitness-tímana sem boðið er upp á hér á landi. Þessi líkamsrækt er nýkomin til landsins og á örugglega eftir að hjálpa fólki að fara brosandi í gegnum svartasta skammdegið í vetur. Það er nefnilega fátt sem kætir og bætir eins mikið og að dansa.

Ég mætti bísperrt í Nordica Spa við Suðurlandsbraut á fimmtudagskvöldið í minn fyrsta zumba-tíma. Hjartað sló ört og ég velti fyrir mér hvað ég væri eiginlega búin að koma mér í, dans sem krefst mjúkra mjaðma- og handahreyfinga er nefnilega ekki mín sterkasta hlið, hvað þá eitthvað sem krefst þess að ég haldi takti.

Gordjöss upphitun

Zumbakennarinn Anna Claessen tók brosandi á móti mér og sagði að ég ætti bara að skemmta mér, ekki hugsa um að reyna að ná hverju spori í fyrsta tíma. Tíminn byrjaði á upphitun við lagið „Það geta ekki allir verið gordjöss“ sem Páll Óskar syngur og það keyrði stuðið upp, ég stóð mig vel í upphituninni en síðan tók dans-líkamsræktin við. Anna fór vel í sporin áður en í rútínuna var farið svo það náðist hin sæmilegasta keyrsla í þetta hjá mér. Zumba eru suðuramerískir dansar með líkamsræktarívafi. Sporin eru frekar hröð og náði ég þeim engan veginn en ég gerði bara eitthvað sem leit svipað út og það virtist ekki saka. Ég dillaði mjöðmunum nóg og þá leit svolítið út fyrir að ég væri að gera eitthvað rétt, eða það taldi ég mér trú um.

Ég held að ég hafi staðið mig ágætlega miðað við að þetta var fyrsti tíminn. Ég var samt best í að hoppa þegar það kom fyrir.

Ég hefði reyndar viljað vera í öðruvísi skóbúnaði, hlaupaskór með dempurum eru ekki nægilega liprir fyrir svona líkamsrækt.

Eflir sjálfstraustið

Anna fór í mismunandi líkamsræktardansa og tíminn var heilmikið púl en líka fjörugur og fjölbreyttur og fljótur að líða. Stundum myndaðist gríðarleg stemning í hópnum og það var klappað, hlegið og hrópað. Tíminn endaði svo á teygjum og var meira að segja fjöri troðið inn í þær líka.

Tónlistarval Önnu kennara var mjög gott, nútímalegt og viðeigandi, sem er sjaldgæft í líkamsræktartímum.

Ég myndi segja zumba tilvalda líkamsrækt fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir hefðbundna líkamsræktartíma með lóðum, pöllum og slíku.

Það fór ekki á milli mála eftir þennan fyrsta tíma minn að zumba er afskaplega skemmtilegt. Þetta er líkamsrækt fyrir alla aldurshópa, konur og karla, og ég sé fyrir mér að unglingar gætu haft sérstaklega gaman af þessu. Þeir sem sækja zumba-tíma verða örugglega sjálfsöruggari, fólk uppgötvar dansgyðjuna/guðinn í sér og verður óhræddara við að stíga út á dansgólfið og hreyfa mjaðmirnar næst þegar farið er á ball. Ég gekk að minnsta kosti dansandi út í kvöldið.

ZUMBA-FITNESS

Uppselt á hvert námskeið

„Ég kynntist zumba-fitness fyrst í Danmörku um jólin í fyrra, þá var zumba-æði þar og er enn,“ segir Anna Claessen, zumba-kennari hjá Nordica Spa. Anna náði sér í kennsluréttindin í Noregi og byrjað var að kenna zumba í Nordica Spa í ágúst síðastliðnum.

„Viðbrögðin hafa verið rosalega góð, það er uppselt á hvert einasta námskeið. En við bjóðum bæði upp á lokuð námskeið og opna tíma,“ segir Anna og spáir því að zumba-æði sé hér í uppsiglingu.

„Sem dæmi var ég fengin til að vera með einn zumba-tíma í heilsu- og forvarnarviku í Reykjanesbæ nýverið og þangað komu um 70 manns á kynninguna. Svo athuguðum við hvort það væri áhugi fyrir að hafa námskeið á staðnum og þar er Marta Ómarsdóttir nú að kenna rétt yfir hundrað manns á zumba-námskeiði,“ segir Anna.

„Þetta er rosalega gaman, bæði dans og púl, blanda af líkamsrækt, cha cha cha, salsa, mambó, merengue og fleiru. Það er mikil brennsla í hverjum tíma auk þess sem zumba liðkar líkamann og það er verið að hreyfa svæði sem eru vanalega ekki hreyfð mikið eins og t.d mjaðmasvæðið. Það eru margir sem vilja frekar dansa en fara í líkamsrækt og þetta sameinar það,“ segir Anna. Hún segir fleiri konur en karla sækja námskeiðin hjá þeim en að þeir karlar sem koma verði mjög heillaðir.

Anna segir þau vera að setja á laggirnar vefsíðuna zumbafitness.is. Þar verða allar upplýsingar um þau zumba-fitness- og zumba-námskeið sem boðið verður upp á. „Ég mun fljótlega fara af stað með námskeið fyrir fleiri aldurshópa s.s. börn og unglinga og jafnvel eldra fólk. Zumba er til í nokkrum útfærslum og má þar nefna zumba toning, zumba gold (fyrir eldra fólk), aqua zumba (vatns-zumba), zumba atomic og auðvitað zumba-fitness sem er þekktasta aðferðin og fyrir alla. Einnig er boðið upp á sérsniðna zumbatíma fyrir vinnuhópa, saumaklúbba, aðra klúbba eða hvataferðir og sérstaklega vinsælt er zumba fyrir gæsun eða steggjun.“