Fjölskylda Það geta verið mikil viðbrigði að fara úr pari í fjölskyldu.
Fjölskylda Það geta verið mikil viðbrigði að fara úr pari í fjölskyldu. — AP
Verðandi og nýorðnum foreldrum býðst gjaldfrjálst námskeið sem hefst á morgun, 26. október. Námskeiðið er hannað af hjónunum og sálfræðingunum John og Julie Gottman, sem eru eitt þekktasta meðferðarpar okkar tíma.
Verðandi og nýorðnum foreldrum býðst gjaldfrjálst námskeið sem hefst á morgun, 26. október. Námskeiðið er hannað af hjónunum og sálfræðingunum John og Julie Gottman, sem eru eitt þekktasta meðferðarpar okkar tíma. Þau eru í forystusveit á heimsvísu í vísindarannsóknum á hjónabandinu, parasamböndum og fjölskyldunni. Gottmanhjónin telja að mestu jákvæðu sé hægt að koma til leiðar í fjölskyldum í upphafi foreldrahlutverksins og með það að leiðarljósi er námskeiðið hannað. Námskeiðið, sem er samstarf ÓB-ráðgjafar og Miðgarðs, er gjaldfrjálst og er fyrir verðandi og nýorðna foreldra, segir í fréttatilkynningu um námskeiðið.

Fjallað verður um hvernig það reynir með öðrum hætti á sambandið þegar tveir verða þrír. Við erum öll ólíkir einstaklingar, með ólíkar þarfir og því eðlilegasti hlutur í heimi að geta lent í ágreiningi við maka sinn. Hvernig við tökum á því og vinnum úr ágreiningi er það sem skiptir máli. Markmiðið með námskeiðinu er að gera breytinguna úr pari í foreldra og fjölskyldu ánægjulega fyrir alla hlutaðeigandi. Þetta er gert með því að leggja samhliða áherslu á styrkingu parsambandsins og samskipti foreldra og barna. Hvernig? Á námskeiðinu er fjallað um breytingaferlið við að verða foreldrar, hvernig hægt er að styrkja parsambandið, aðferðir við að leysa úr ágreiningi, uppbyggilega tengslamyndun og samskipti ungbarns og foreldris, að ógleymdu mikilvægu hlutverki feðra í umönnun barna sinna.

Jafnréttisráð er þeirrar skoðunar að með námskeiðinu sé unnið að auknu jafnrétti. Úttekt velferðarsviðs Reykjavíkurborgar bendir til þess að þátttakendur á námskeiðinu séu almennt ánægðir með námskeiðið. Sama niðurstaða kemur fram í lokaverkefni Dagbjartar Rúnar Guðmundsdóttur og Daggar Guðnadóttur í BA-námi í félagsráðgjöf nú í vor.

Námskeiðið er forvarnarmiðað, byggt á sálfræði- og kennslufræðilegum rannsóknum og prófunum. Rannsóknir á þessu námskeiði hafa sýnt að hjá þátttakendum dregur úr ágreiningi og streitu í parsambandinu, sem m.a. gerir þátttakendur hæfari til að takast á við kröfur um samþættingu fjölskyldulífs og vinnumarkaðar. Rannsóknir á námskeiðinu hafa einnig sýnt fram á að þegar foreldrar eru hönd í hönd í sambandi sínu og uppeldi barna sinna kemur það fram í betri líkamlegri og andlegri heilsu fjölskyldunnar og minni fjarveru foreldra frá vinnu.

Námskeiðið verður haldið í Miðgarði, Þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar, Langarima 21. Skráning og nánari upplýsingar hjá ogg@obradgjof.is og í síma 897-1122 .

Sjá nánar á vefsíðunni: www.barnidkomidheim.net