[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fúllyndir listamenn eru engin nýlunda en að sjá blóðið renna í fréttamönnunum í þessum aðstæðum er hins vegar sjaldgæfara.

Af bókmenntum

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Uppákoman þegar rithöfundinum Sofi Oksanen og Lindu Blöndal lenti saman í Norræna húsinu á dögunum veitti okkur öllum velkomna hugarfró og hvíld frá hundleiðinlegu rausi og kvabbi um endurreisn þessa guðsvolaða lands. Það er búið að vera bæði skemmtilegt og fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum samfélagsins, sem maður getur numið á örskotsstund fyrir tilstuðlan skyndimiðla á netinu.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá bað Oksanen, sem þá hafði veitt norrænu bókmenntaverðlaununum viðtöku í Norræna húsinu, Lindu, sem var þangað komin á vegum Ríkisútvarpsins, að spyrja sig gáfulegri spurninga. Linda svaraði fyrir sig og spurði á móti hvort maður þyrfti að vera með gráðu í bókmenntafræði til að tala við hana.

Ástæðan fyrir því að þetta vakti umtal í samfélaginu er að báðar konurnar sveigðu frá því sem hefðbundið er, en 97% svona viðtala eru öll eins. Blaðamaðurinn kemur með almenna, opna spurningu og viðfangið svarar kurteislega með stöðluðu svari. Venjulega er skilningur á milli fólks, það dansar í takt og veit nokkurn veginn út á hvað leikurinn gengur. Hvorki Oksanen né Linda nenntu hins vegar að taka þátt í þessu, og brutu þar með upp slétt og fellt rennsli svona viðhafnar. Oksanen storkaði blaðamanni og í stað þess að koðna niður, svaraði Linda fullum hálsi. Tveir þumlar upp til þeirra beggja. Fúllyndir listamenn eru engin nýlunda en að sjá blóðið renna í fréttamönnunum í þessum aðstæðum er hins vegar sjaldgæfara.

Sitt sýnist svo hverjum. Listunnendur hafa sumir býsnast yfir grunnri þekkingu blaðamanna á meðan aðrir hrópa eftir almennri kurteisi. Það er hægt að sjá margar hliðar á þessu. Kannski var Oksanen bara þreytt, búin að svara sömu spurningunum trekk í trekk en það afsakar auðvitað ekkert. Hún á að vita hvað hún er að fara út í. Sjálfur þekkir maður svo það, verandi með „deadline“ upp á hvern dag að það er einfaldlega ekki í boði að fara djúpt í hlutina. Síðan spila 97% með þegar maður mætir á svæðið, eins vel undirbúinn og kostur er og sumir listamenn fagna því meira að segja að fá að tala við „leikmann“ fremur en djúpfræðing.

Alltént var hreinsandi að sjá tvær manneskjur fella niður varnir og opna sig. Og svona viljum við líka hafa listamennina okkar. Sérlundaða, dularfulla, ólundarlega og ólíkindatól. Í því liggur aðdráttaraflið. Spyrjið bara Bob Dylan.