Guðrún Helgadóttir: „Maður er ekki bara það sem maður borðar, heldur líka það sem maður les.“
Guðrún Helgadóttir: „Maður er ekki bara það sem maður borðar, heldur líka það sem maður les.“ — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Helgadóttir rithöfundur er nýbúin að senda frá sér barnabók. Hún segir að sér þyki svo gaman að vera til að hún nenni ekki að hætta því og viðurkennir að hún sakni þingsins þar sem hún starfaði í tvo áratugi. Hún ræðir einnig um ritstörf, börn og barnauppeldi.

Nýjasta barnabók Guðrúnar Helgadóttur er Lítil saga um latan unga , sem fjallar um vanþakklátan og latan unga sem sér loks að sér. „Þessi bók er ekki predikun en í lokin uppgötvar unginn að það er gaman að gera eitthvað fyrir annað fólk, ekki bara fyrir sjálfan sig. Ætli það sé ekki inntak bókarinnar,“ segir Guðrún. „En annars er þetta líka spennusaga fyrir litla fólkið.“

Finnst þér kannski að við nútímamenn og þá nútímabörn séum dálítið dekruð og heimtufrek?

„Alveg skelfilega. Börn fá ekki frið til að hafa ofan af fyrir sér, það verður að skipuleggja hverja mínútu í daglegu lífi þeirra. Ég held að þetta sé afskaplega óhollt. Börn eiga sama rétt á að láta sér leiðast og annað fólk, það er bara hluti af lífinu. Nú er eins og reynt sé að taka allt frumkvæði af þeim og ég er ekki viss um að það séu bestu foreldrarnir sem standa á tánum fyrir blessuð börnin og ætlast ekki til neins af þeim.“

Ungamamman í bókinni þinni er þannig foreldri.

„Já, hún er fórnarlamb móðurástarinnar og þar með eiginlega stórhættuleg móðir.“

Ekki í sérstökum stellingum

Þú átt fjögur börn, hvað hafðir þú að leiðarljósi við uppeldið á þeim?

„Ég hef eina kenningu um hvað maður geri best fyrir börnin sín og það er að vera góður við þau. Eitt hef ég þó kennt börnunum mínum sem ég er mjög stolt af. Það er að setja reikningana sína í möppu en ekki í skúffur út um alla íbúð. Mér finnst þetta stórmerkilegur lærdómur, en annað held ég að ég hafi ekki kennt þeim. En ég held að ég hafi verið sæmilega góð við þau. Allavega eru þau mesta sómafólk.“

Svo áttu mörg barnabörn. Hvernig amma ertu?

„Já, ég er ótrúlega rík. Ég á tólf barnabörn og eitt langömmubarn og auk þess fékk ég tvær frábærar stúlkur sem nú eru uppkomnar með í farteskið og ekki spilla þær nú fyrir. Ég held að Rúna amma sé ekkert óvinsæl.“

Er alltaf jafn gaman að skrifa fyrir börn?

„Já, mér finnst mjög gaman að skrifa fyrir börn. Þau eru svo skemmtilegt fólk, börn eru svo vitur, spyrja svo gáfulega og hugsa svo margt. Fyrir utan hvað þau eru þakklátir og duglegir lesendur. Ég held að fáir landsmenn lesi meira en grunnskólabörnin. Hvað sem það endist svo lengi. Það þarf þó nokkuð að hafa fyrir því að halda bókum að þeim og það gera kennarar í leikskólum og í grunnskólanum með mesta sóma.“

Hefur þú alltaf lesið mikið og hvað hefur lestur gefið þér?

„Já, það er víst óhætt að segja að ég hafi lesið talsvert, enda man ég ekki eftir mér ólæsri. Mér var alltaf sagt að amma mín hefði kennt mér að þekkja stafina á Mogganum með bandprjón að vopni. Lestur hefur gefið mér allt sem ég er og stend fyrir. Maður er ekki bara það sem maður borðar, heldur líka það sem maður les.“

Þú hefur alltaf verið mjög vinsæll barnabókahöfundur, það hlýtur að hafa fært þér mikla gleði.

„Já, svo sannarlega. Enginn hefur undrast meira en ég hvað bækur mínar virðast lifa. Þær eru endalaust í lestri. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það er sem fær krakkana til að hafa gaman af bókum mínum. Ein skýringin er kannski að ég skrifa ekki barnamál fyrir börn og ég hef líka reynt að sjá um að fullorðna fólkið, sem les bækurnar fyrir börnin, deyi ekki úr leiðindum. Einhvern veginn hefur mér lánast að gera bækurnar að fjölskyldubókmenntum. Ég hef þá kenningu að fátt sé börnum betra gert en að leyfa þeim að njóta einhvers með hinum fullorðnu. Annars hef ég í ritstörfunum bara leyft mér að vera ég sjálf og ekki verið í neinum sérstökum stellingum. Mér er illa við tilgerð, einkum í rituðu máli!“

Sakna þingsins mikið

Þú varst þingmaður í næstum tuttugu ár. Nú er virðing almennings fyrir þinginu í lágmarki. Hvað finnst þér um það?

„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því, en ég er náttúrlega manneskja sem hefur alltaf haft áhyggjur af öllu. Þjóðþing er hornsteinn lýðræðisins í hverju landi. Fyrir það er fólk í ófrjálsum ríkjum reiðubúið að deyja. Sé svo að þingið hafi sett niður er ekki við aðra að sakast en þingmennina. Mér kemur á óvart hvað þinghaldið er að verða laust í reipunum. Ég sé til dæmis ekki að það hefði getað gerst í minni tíð að þingmaður tæki sér frí til að berja olíutunnur fyrir framan þinghúsið með fólki sem lítur á skemmdir og ofbeldi sem aðferð í pólitískri umræðu. Það er ekkert andstyggilegra en að afla sér vinsælda með því að snobba niður á við. Vilji maður snobba fyrir einhverju er lágmark að maður snobbi upp á við.

Það er líka svo mikið rugl sem oft er haldið fram að það sé brýnt og til góðs að skipta út þingheimi með reglulegu millibili. Ætli það séu nema tvær til þrjár manneskjur sem voru samtímis mér enn á þingi, meðal þeirra er Jóhanna Sigurðardóttir. Þingið græðir ekkert á eilífum nýgræðingum við stjórn landsins. Þar þarf að vera sæmilega skynugt fólk sem hefur einhverja reynslu af því að fást við stjórnun. Þetta er ekkert flóknara en það. Þingmannsstarfið er bara eins og störf sem þarf að læra og það tekur tíma.“

Saknar þú stjórnmálanna?

„Já, ég sakna þingsins mikið. Samt er ég nú heldur að skána með þetta. Ég get viðurkennt að ég var ekki tilbúin til að hætta í stjórnmálum og mig langaði ekki til þess. En það fór nú bara þannig að flokkurinn minn, Alþýðubandalagið, lagði upp laupana og ég var heldur á móti þessari samsuðu sem upp úr því kom, sem var Samfylkingin, og varð ekkert vinsæl fyrir það. Því fór sem fór. Það var skemmtilegt starf að vera alþingismaður og ég sakna margra sem ég vann með. En Guði sé lof fyrir það að ég gat snúið mér að öðru.

Heimur stjórnmálanna er skrýtinn. Ég átti langt samtal við danska þingmanninn Sven Auken í afmæli systur hans, Margrete, sem er líka þingmaður. Hann sagði að við skyldum átta okkur á því að maður eignaðist ekki vini í pólitík. Það er svo sannarlega satt. Maður er alltaf fyrir einhverjum. Ég heyri lítið frá mínum gömlu félögum í pólitík. Þeir voru ægilega lukkulegir að vera lausir við mig, þá gátu þeir sest í langþráða stóla. Þannig er þetta bara. Þetta er sárt og maður verður dálítið leiður. Mér var farið að þykja vænt um þetta fólk, en ég held að það hafi ekkert verið endurgoldið. Það á svo sannarlega við um innra starf stjórnmálaflokka að í góðsemi vegur þar hver annan.“

Fátækt er skemmandi

Nú er efnahagskreppa, hvernig horfir hún við þér?

„Það er nú ekki eins og þetta sé fyrsta kreppan sem maður lifir. Ég er ekki búin að gleyma árinu 1983 þegar ég var nýbúin að kaupa íbúð. Það liðu sex mánuðir, þá voru launin fryst og vextir gefnir frjálsir. Það kostaði mig tuttugu ára baráttu að hanga á þessari íbúð því lánin mín margfölduðust. Fjöldi manns missti íbúðirnar sínar og menn fluttu til útlanda þá eins og nú. Þá áttu margir erfitt.

En ef þú ert að spyrja mig hvort ég hafi rómantískar hugmyndir um fátækt þá fer því víðs fjarri. Ég veit ekkert skelfilegra en fátækt því hún lamar fólk og eyðileggur. Ég hef eytt allt of miklum tíma í lífinu í að hafa áhyggjur af peningum. Það er mikil tímaeyðsla og skemmandi fyrir mann sjálfan og alla aðra.

Einhverju sinni, þegar ég var í pólitík, hitti ég hífaðan mann í flugvél. Hann sagði: Ég veit ekki hvort þú vilt tala við mig því ég á Volvó. Ég sagði: Veistu, mig dreymir um að hver einasti Íslendingur geti eignast Volvó. Hann varð óskaplega hissa og hunskaðist í burtu og botnaði ekkert í því að kommúnisti vildi að pöpullinn ætti Volvó.

Það hefur ekki verið mín reynsla í lífinu að það sé „sælt að vera fátækur“, þótt það hafi stundum borið á þeim misskilningi að fátækt sé á einhvern hátt göfgandi en efnafólk heldur illa innrætt. Fátækt er þvert á móti skemmandi. Ég amast svo sannarlega ekki við því ef einhver efnast heldur gleðst í hvert sinn sem ég frétti af einhverjum sem þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum.“

Ekki búin að leysa lífsgátuna

Ertu alltaf jafn vinstrisinnuð?

„Já, auðvitað er ég það. Ég kvelst og pínist að vita af því að hér á landi sé fólk sem á ekki fyrir nauðþurftum.“

Finnst þér að vinstristefna í pólitík sé betri en hægristefna og skili meiru?

„Já. Ég segi alltaf að Norðurlöndin séu einu siðmenntuðu þjóðfélögin í veröldinni og það er að þakka norrænum sósíalistum sem bjuggu til velferðarríki úr bókstaflega engu. Það var svíðandi fátækt í öllum þessum löndum, en hvergi nokkurs staðar hefur tekist jafn vel að búa til sómasamleg þjóðfélög, þar er allavega hirt um að fólki líði ekki alltof illa. Það er hiklaust vinstrimönnum að þakka.“

Þ ú ert orðin 75 ára, hvernig er að eldast?

„Ég hef gert margt skemmtilegra. Mér finnst svo gaman að vera til að ég nenni ekki að hætta því. Sigurður Nordal sagði einu sinni við mig að hann gæti ekki hugsað sér að deyja, hann væri svo forvitinn. Ég held að því sé svipað farið um mig. En lífið er að styttast ansi mikið.“

Trúirðu ekki á líf eftir dauðann?

„Ég er ekki búin að leysa lífsgátuna þannig að ég get hvorki svarað því með já-i né nei-i. Ætli ég verði samt ekki að játa að þarna er ég efasemdakona. Ég yrði allavega afskaplega hissa ef ég risi upp frá dauðum. Auk þess vil ég helst fá að ráða því sjálf hverja ég umgengst, jafnt á himni sem á jörðu, og hryllir við því að neyðast til að híma á himnum með alls konar fólki sem mig langar ekki vitund að hitta.“