Jónína Leósdóttir (t.v.) og Margrét Baldursdóttir skipuleggja bókahátíðina Kellíngabækur.
Jónína Leósdóttir (t.v.) og Margrét Baldursdóttir skipuleggja bókahátíðina Kellíngabækur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kellíngabækur kallast bókahátíð kvenna sem haldin verður nú um helgina. Þó fær einn syngjandi hani að slást í hópinn. María Ólafsdóttir maria@mbl.is

Kellíngabækur kallast hátíð þar sem kynntar eru nýjar bækur eftir íslenska kvenhöfunda svo og þýddar bækur. Hátíðin er samstarf Gerðubergs og

Góu- og Fjöruverðlaunahópsins og er nú haldin í þriðja sinn. Margrét Baldursdóttir, verkefnisstjóri hjá Gerðubergi, segir skráningu í ár hafa gengið vel og að búist sé við fjölda gesta.

„Það var mjög vel mætt í fyrra en þá komu rúmlega 1.000 manns til okkar. Hátíðin stendur yfir frá kukkan 13 til 17 nú á laugardaginn og er lesið í fleiri en einum sal. Dagskráin verður birt á heimasíðunni okkar þannig að fólk geti kynnt sér fyrirfram það sem það vill hlusta á. Ef vill má svo kíkja á bókasafnið eða kaffihúsið inn á milli og skoða þær sýningar sem hér eru,“ segir Margrét.

Kastljósinu beint að konum

„Við köllum okkur oft bara Góuhópinn eða Góu- og Fjöruverðlaunahópinn. Þetta er grasrótarhópur kvenna sem eru annars vegar í Rithöfundasambandi Íslands og hins vegar í Hagþenki, félagi fræðibókahöfunda. Þannig að þetta eru skrifandi konur eins og maður segir og við byrjuðum að hittast óformlega fyrir um sex árum. Um leið hófum við að veita kvennabókmenntaverðlaun sem við köllum Fjöruverðlaunin og hafa nú verið veitt fjórum sinnum í mars ár hvert. Konurnar í Gerðubergi höfðu síðan samband við okkur og spurðu hvort við værum til í einhvers konar samstarf. Þannig spratt upp hugmyndin að Kellíngabókum en með þessu viljum við beina kastljósinu að því sem konur eru að skrifa. Við erum ekki að hampa þessum bókum af því að okkur finnist konurnar betri en karlarnir heldur frekar að reyna að jafna ójafnt kynjahlutfall meðal rithöfunda. Kynjahlutföllin eru ójöfn á mörgum stöðum en sem dæmi þá hafa 34 karlar og níu konur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin,“ segir Jónína Leósdóttir rithöfundur og félagi í Góuhópnum.

Einn hani í hænsnahópnum

Jónína segir að hópurinn hafi orðið glaður og undrandi yfir mætingu á hátíðina sem hafi verið mjög góð síðastliðin ár. Í ár munu rúmlega 40 höfundar kynna bækur sínar en konunum er frjálst að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn við kynningarnar. „Einu sinni kom kona með dóttur sína sem spilaði á flygil og söng, önnur bakaði upp úr matreiðslubók sinni og gaf að smakka. Í ár verður í það minnsta eitt tónlistaratriði með karlkyns söngvara svo þar er einn hani sem fær að bætast í hópinn. Einnig hefur verið vinsælt hjá konunum að halda myndasýningu með frásögninni. Svo er lesið upp sérstaklega fyrir krakkana (í útibúi Borgarbókasafns í húsinu),“ segir Jónína.

Húmor í nafninu

Jónína segir mjög gleðilegt að ekkert virðist draga úr bókaútgáfunni þrátt fyrir hina margumræddu kreppu. Íslendingar beri því nafn með rentu sem bókaþjóð. Spurð um nafnið Kellíngabækur segir hún að þær í Góuhópnum hafi viljað verða fyrri til. „Það er ljóst að um leið og fólk heyrir af slíkri hátíð fara margir að hvá og spyrja hvort þetta séu ekki bara einhverjar svona kellingabækur! Það var síðan Linda Vilhjálms ljóðskáld sem stakk upp á því að nota þetta nafn og við gripum það á lofti eins og skot og notum það með í-i. Þetta eru jú bækur eftir konur og það er svolítill húmor í nafninu. Með þessu gerum við grín að sjálfum okkur og tökum okkur ekki of alvarlega þó að auðvitað verði kynntar þarna bækur af ýmsum toga,“ segir Jónína.