Kofi sem hróflað hefur verið upp fyrir yngstu kynslóðina og þarf að standa af sér veðrin. Á Ströndum verða krakkar að vera sjálfstæðir.
Kofi sem hróflað hefur verið upp fyrir yngstu kynslóðina og þarf að standa af sér veðrin. Á Ströndum verða krakkar að vera sjálfstæðir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er langt að fara fyrir litla telpu úr borginni að ferðast alla leið að ysta hafi. Nú er hún orðin stór og lýsir upplifun sinni af Seljanesi á Ströndum. Texti: Unnur Hrefna Jóhannsdóttir Ljósmyndir: Ragnar Axelsson

Hún drap tittlinga út um bílrúðuna. Það var lágskýjað og örlítil rigning. Telpan hafði aldrei séð jafnmörg auð hús. Þetta var eins og draugaþorp en hún þorði ekki að spyrja. Strandakonan sagði henni í óspurðum að þetta væri Djúpavík en eitt sinn hefði hún verið blómlegur síldarbær og nú væri ekki langt þangað til þau kæmu í Ingólfsfjörð. Þau ættu eftir að keyra fram hjá Gjögri í gegnum Trékyllisvík og yfir í Ingólfsfjörð Stelpan varð fegin að heyra þessar fréttir því maginn á henni var nefnilega fullur af fiðrildum sem voru að hræra saman gulu gumsi. Telpan taldi kindur út um gluggann til þess að drepa tímann og dreifa huganum frá fiðrildunum. Í sveit hafði borgarstelpan aldrei komið og þessi sveit var víst ekkert venjuleg. Fyrst ætluðu þau að fara á Seljanes og vera þar í nokkra daga áður en þau færu yfir að Dröngum. Svo norðarlega við Íslandsstrendur færi aðeins yfir fuglinn fljúgandi því þar voru engir vegir, aðeins stöku vegtroðningar. Það voru hins vegar litlir vélbátar sem ferjuðu fólk á milli staða. Og samt var þetta árið 1978, fjórum árum eftir að lokið var við hringveginn.

Í Ingólfsfirði tók á móti þeim maður, með miðlungssítt skegg, ljós yfirlitum, skítugur eins og eftir erfiðisvinnu og sagði þeim að koma upp í bílinn sinn – gulan jeppa sem annars var ólýsanlegur, það var alveg eins og hann væri heimatilbúinn – ekkert líkur nútímajeppum. Síðar fékk hún þá vitneskju að þetta væri jeppi forföðurins og héti reyndar Gulbrandur. Hún átti líka eftir að komast að því Strandamaður er með stóru S-i og þeir kölluðu ekki á allt ömmu sína þegar kom að því að bjarga sér, hvort sem það var að smíða bát eins og Örkina, búa til ljósavélar til að framleiða rafmagn eða koma upp sögunarverksmiðju. Á Ströndum bjó fólk ekki aðeins yfir bókviti, en forfaðirinn öllu rituðu máli, heldur réð þar líka verksvit og handverk.

Sá skeggjaði í gula, ólýsanlega jeppanum sagðist myndu skutla þeim út eftir, þ.e. á Seljanes. En áður en að því kom fékk stelpan að anda að sér langþráðu fersku lofti og skoða sig aðeins um. Maginn í tátunni varð hvíldinni ósköp feginn. Hún andaði að sér fersku sjávarloftinu og hóf svo að skoða fjöruna. Strandakonan sýndi henni og sagði frá alls kyns skeljungum og kuðungum. Telpan spurði hvort hún mætti tína nokkrar og Strandakonan sagði að hafið ætti svo mikið af þessum gersemum að hún mætti taka eins og margar og hana lysti. Stelpan stóðst ekki mátið og fyllti báða úlpuvasana af þessu fágæti sem hún hafði aldrei séð áður. Þá kom hún auga á skrítið, glært, kvikindi, sem virtist hreyfa sig í fjöruborðinu. Þegar hún ætlaði að snerta það greip Strandakonan í hönd hennar og sagði að það mætti hún ekki því þó að kvikindið virtist sárasaklaust þá brenndi það hörundið svo undan sviði eins og eldsloga. Þetta væri marglytta. Það voru sem sagt líka hættur í sveitinni, ekki bara borginni.

Ferðin út á Seljanes byrjaði ágætlega og í himnaskærri fegurð náttúrunnar sem stelpan horfði hugfangin á út um bílgluggann, gleymdist næstum því verksmiðjuframleiðsla fiðrildanna á gula gumsinu. Það var vætusamt en sólríkt á milli og eitt sinn sá hún regnbogann. Eða svo finnst henni í minningunni. En fiðrildin létu illa. Hún sat aftur í ólýsanlega jeppanum en var of feimin til þess að minnast á það við bílstjórann, óviss hvernig hann myndi taka í svona grun um gular gusur. Það virtist ekki auðvelt að losa sig við þær í bílnum. Hún reyndi að róa magann með því að sitja í keng en bíllinn lét illa og þegar hún leit út um bílrúðuna skildi hún hvers vegna. Það var enginn vegur. Það var bara brún leðja með hjólförum í. Gulbrandur seiglaðist áfram í leðjunni og virtist heldur ekkert slá af þegar þau voru skyndilega farin að keyra í fjöru. Svona var þetta sko ekki í henni Reykjavík! Sá guli ólýsanlegi skrölti áfram en nú svimaði tátuna og var viss um að lífs kæmist hún ekki af úr þessari ferð. Á örmjóum vegarslóða, nálægt, að því er tátunni virtist, þverhníptum hömrum, sniglaðist bíllinn áfram. Hún lokaði augunum, hélt niðri í sér andanum og bað guð blessaðan um að koma þeim heilum heim á Seljanes.

Tálgað á nýrri plánetu

Það var ekkert stórhýsi á Seljanesi en kotið rúmaði samt ótrúlega marga. Það ríkti einnig sérstakur andi í húsinu þar, andi sem fyrirfinnst áreiðanlega ekki í stórhýsum, einstaklega afslappaður þótt þar hnyti fólk nánast hvað um annað þvert. Þegar húsbóndinn, forfaðirinn, skeggjaður að hætti Strandamanna, sinnti ekki útiverkum eða dyttaði að húsum, lá hann upp í rúmi í risinu, lét sér fátt finnast um hamaganginn í húsinu og las Morgan Kane af mikilli áfergju. Reyndar var hann víðlesinn, kunni Íslendingasögurnar frá a-ö, öll trúarrit og hafði komist að þeirri niðurstöðu að best væri að vera trúlaus. Hann las raunverulega allt sem hann náði í á prenti, þótt honum þætti það misgott. Á kvöldin steikti húsmóðirin, sem fæddi fjórtán börn á ævi sinni, sjálf fædd seint á 19. öld og telpuna minnir að hafi verið með tvær, gráar síðar fléttur teknar upp í hnakkann, flatbökur sem borðaðar voru með ríkulegu smjöri og jafnvel drukkið heitt kakó með. Á meðan kenndu eiginmaðurinn og synir, afkomendunum og öðrum ómögum sem rekið hafði á fjörur Seljaness, listina að tálga.

Forfaðirinn hafði engar áhyggjur af sjö ára barni með hníf í hendi, meiri hafði hann af uppalendum sem væru sálfræðingar og kennarar. Hann átti það samt til að andskotast svo yfir krakkaskaranum að tátan varð stundum hrædd en þegar hún hafði verið þarna dálítið lengur áttaði hún sig á því að það var allt í nösunum á honum. Þau voru hans meistaraverk, ættin eins og hún lagði sig. Hann naut samvistanna jafnt sem gleðinnar og erfiðisins sem fylgdi barnauppeldinu, sínum fjórtán börnum, þar af fimm sem hann gekk í föðurstað, barnabörnum sínum og stundum aukaómögum úr borginni eins og tátunni. Og tátan tálgaði manneskjur, dýr og skip. Hún skar sig bara einu sinni en til blóðs og henni brá. Það batnaði ekki þegar tálgarinn mikli sussaði á hana og spurði hvaða væl þetta væri um leið og hann lét plástur á sárið og strauk henni um vangann. Þá langaði hana samt heim til mömmu.

Hver dagur bar með sér ný ævintýri, þessi eyðisveit var eins og önnur pláneta. Tátan var ekki eins plánetuvön og flest hinna krakkanna sem eytt höfðu þar mörgum sumrum en var fljót að læra nýja siði, reglur og leiki – eins og rekstur búa. Fullorðnir kunna að halda að það sé leikur einn að reka bú en það er nú öðru nær. Það þarf að skipa í hlutverk, hver er pabbinn og hver er mamman, börnin og svo auðvitað hundurinn. Önnur húsdýr gátu verið steinar og stokkar en hundurinn varð að vera lifandi. Hann var besti vinur mannsins. Það tók einnig tímana tvo að afla til búsins, þrífa það og dytta að því og reka eins og hvert annað stórbýli svo ekki væri minnst á uppeldi barnanna sem áttu það til að vera óknyttasöm. Það þurfti að fara margar ferðir til fléttukonunnar til þess að fá umbúðir utan af hinu og þessu, áhöld til matargerðar þurfti að útvega eða tálga, ná í vatn í lækinn og mold í grautinn og fleira til matargerðar. Tátunni þótti þetta oftast mjög skemmtilegur leikur, nema stundum, þegar kastaðist í kekki, einhver gerðist of stjórnsamur eða fór í fýlu. Þá reyndi tátan bara að hafa hægt um sig – hún hafði enga mömmu að hlaupa til og kvarta undan krökkunum. En ef til vill var þetta bara sumarið sem hún varð sjálfstæð stelpa.

Sjálfstæð ferðalög og símhleranir

Í sveitinni voru flestir framsóknarmenn, þótt stelpan vissi ekki alveg hvað það þýddi en tálgarinn var hins vegar eitilharður alþýðubandalagsmaður. Hann fór aldrei troðnar slóðir. En krakkarnir voru ekki að velta fyrir sér stjórnmálaskoðunum þó að stundum spynnust um þær umræður, þau höfðu hvort sem er nóg af því sem enginn flokkur hafði ofarlega á stefnuskránni á þessum tíma: Frelsi. Úti var það endalaust, inni við var dálítið mikið þrengra. Þar þótti stelpunni mest spennandi, eins og krökkunum öllum, að reyna að komast að leyndarmálum sveitunganna með því að stelast í sveitasímann – og hlera. Þá var snúningssíminn gamli, þessi brúni – ein stutt, tvær langar – enn við lýði í eyðisveitunum á Ströndum. Ekki það að hún skildi nokkuð í mannamáli hinna fullorðnu en það var eitthvað heillandi við áhættuna af að vera hugsanlega staðin að verki við það sem væri bannað – eða sleppa með það.

Útivera var samt oftast dagskipunin, hvernig sem viðraði og þar áttu krakkarnir náttúruna, gátu ferðast um hana að vild og skapað úr henni og með henni það sem þau lysti. Stundum fóru þau í langferðir, gengu inn að Ingólfsfirði eða í áttina að Ófeigsfirði. Það var dagsferð til Ingólfsfjarðar. Á leiðinni höfðu þau gert sér áningarstað, byggt lítið byrgi, sem kom sér oft vel þegar veður var vætusamt. Áðu þau þá þar og borðuðu nestið sem þau höfðu haft með að heiman. Í hverri ferð þurfti að dytta að byrginu, þétta það með spýtum, staga í göt með mosa og skreyta í kring með steinum. Stundum héldu þau áfram alla leið til Ingólfsfjarðar og léku sér þar í fjörunni, stungu í marglytturnar með prikum og veiddu, tíndu skeljar og kuðunga fyrir búið. Stelpurnar stungu líka á sig fallegum steinum og býttuðu jafnvel þegar heim var komið.

Ófeigsfjörður var öðruvísi – þar var eins og fremur þyrfti að óttast óvætti eins og tröll og álfa – að ógleymdum tófunum. Vegslóði var varla nafn á fyrirbærinu þangað en umhverfið allt í kringum þennan Ófeiga fjörð var hrauni grýtt og ómannvænlegt. Um leið og það stafaði ógn af firðinum með dauðanafnið var samt eitthvað heillandi við björgin og græna grasbalana sem þar voru inni á milli. Þau vopnbjuggust til vonar og vara, tréstafir urðu að bareflum og spjótum, byssur voru tálgaðar og sprengjuvörpur útbúnar. Þegar líða tók á sumarið tíndu krakkaormarnir berin beint af lynginu og upp í munninn svo hann virtist blár og marinn. Þá var engu líkara en þau hefðu í alvöru lent í slagsmálum við drauga og tröll eins og þau ímynduðu sér oft og stundum léku þau sér að því að sprengja ber á fótum og höndum til þess að gera áverkana gasalegri. Og það þarf ekki að spyrja að endalokunum í þessum orrustum. Krakkarnir sáu alltaf við óvættunum.

Það var svo margt sem kom stelpunni spánskt fyrir sjónir í sveitinni. Eins og þessi tófa sem einhverjir synir tálgarans voru að reyna að temja í því sem eitt sinn var hlaða og þar áður íbúðarhús en hýsti nú ljósavélina sem sá húsunum fyrir rafmagni. Það var oft brýnt fyrir krökkunum að hún væri stórhættuleg en stelpunni sýndist hún aldrei gera neitt annað en að hlaupa fram og til baka í gryfjunni sem hún var geymd í. Hún skildi samt ekki hvers vegna fullorðið fólk væri að hafa svona hættulegt dýr nálægt heimili sínu. Stelpunni hefði liðið betur ef bræðurnir hefðu bara tekið eina af byssunum sem hún hafði séð í húsinu og skotið tófuna. Nú þegar hún er orðin stór langar hana hins vegar að vita hvernig tófutamningin hafi gengið! En sú hugmynd...En Strandamenn eru nú víst svolítið galnir.

Annað sem stelpan skildi ekki var hversu ofsareitt fullorðna fólkið varð þegar krakkarnir höfðu farið í lækinn, verið að vaða, ef til vill farið í vatnsstríð og kannski blotnað svolítið mikið. Mamma hennar varð aldrei svona reið þótt föt stelpunnar yrðu rennandi blaut. Seinna skildi hún að í eyðisveitinni var allt þvegið í höndunum – og jafnvel köldum læknum – og þá voru fatahrúgur af krakkaskara ekki til vinsælda fallnar.

Stímt á Svaninum að Dröngum

Í einu af útihúsunum á Seljanesi voru Strandabræður komnir í enn eitt stórverkefnið. Þrátt fyrir ýmis verkefni, bæði á Seljanesi og á höfuðbólinu Dröngum, eins og að fylgjast með æðarvarpi, skjóta svartfugl, tína æðaregg, ná í rekavið í fjörunum og saga niður í girðingarstaura að ógleymdri tamningu tófunnar þá víluðu þeir sér ekki fyrir sér að smíða heilt skip. Nafnið varð að vera stórfenglegt því þetta var sko enginn vélbátur, þetta var heilt skip, með húsi fyrir skipstjórann, lúkar fyrir farþegana og öllu saman. Það var ævintýralegt að fylgjast með smíði þessa báts, sem var sá fallegasti sem stelpan hafði séð. Það voru sko heldur ekki allir krakkar sem höfðu stigið um borð í Örkina eða Örkina hans Nóa eins og stelpan kallaði skipið alltaf.

Í höfuðból þessarar Strandafjölskyldu, Dranga, var ekki farið á bílum. Þangað komst bara fuglinn fljúgandi eða þeir sem gátu frá náttúrunnar hendi komist sjóleiðis. Mannfólkið fór á bátum. Tálgarinn átti bát sem hét Svanurinn, opinn vélbát sem rúmaði um sex til átta manneskjur. Það gat orðið heldur margt um manninn á Seljanesi, enda oftast aðeins viðkomustaður á leið að Dröngum. En veðurguðirnir voru ekkert að spá í það og dögum saman gat viðrað þannig að ekki var sjófært fyrir lítinn vélbát þessa tveggja tíma leið sem þá var. En loksins rann upp dagurinn og stelpan stímdi að Dröngum. Það pusaði á litla vélbátinn, sem kleif samt hverja ölduna af annarri. Bárur hafsins voru ólgandi og ógnandi í augum stelpuræfilsins sem enn á ný hóf framleiðslu á gulu sulli sem hún skilaði reglulega yfir bátsbrúnina svo hvarf í það bláa. Sjórinn gekk yfir bátinn og þrátt fyrir seglið sem lagt hafði verið yfir sjófarendur var ekki þurr þráður á henni þegar Svanurinn sigldi svo sá í fjallið. En hún skalf ekki á beinunum vegna kulda heldur yfir fegurðinni sem við henni blasti. Sjálfur skáldguðinn stakk sér eins og elding niður í huga hennar og úr varð hennar fyrsta vísa – guðinn gleymdi þó að skilja eftir bragreglur:

Konungur fjallanna, Drangaskörð

konunglegt á að líta.

Fegursta fjall í eigu Íslands

sem reis upp úr sjó í fornri öld.

Hafi Seljanesið bergnumið stelpuna fönguðu Drangar hana. Svart fjallið hafði fimm horn. Fjörusandurinn öðrum megin við víkina var hvítur og skammt utan við hann feyktust ljósbrún strá í vindgolunni. Hún hafði gaman að því á hlýjum dögum að hlaupa berfætt um í fjörunni og sjá sjóinn sópa yfir fótsporin sín en undraðist jafnan hve fljótt sandurinn varð sporlaus á ný. Eins og hún hefði ekki gengið þarna, svifi ef til vill yfir fjörunni eins og engill – eða væri bara ekki til.

Húsið á Dröngum var sannkallað stórhýsi, steinhús á þremur hæðum, með mörgum stórum herbergjum sem hvert hafði sitt nafn. Það virtist allt hafa nafn í sveitinni. Stelpan hafði aldrei séð jafnstórt hús og það á hjara veraldar. Hvernig þeim hafði tekist að byggja það var henni ráðgáta. En það var líka margt fleira. Það var ekkert klósett í húsinu! Til þeirra þarfa hafði verið reistur kamar, virtist af miklum vanefnum, um 20 metra frá húsinu, beint fyrir ofan læk sem rann þar framhjá og út í sjó, og þar átti víst að fara og gera það sem gert var á salernum. Þetta var eina húsið sem stelpunni hafði fram að þessu ekki litist á í sveitinni. Þegar hún átti ekki annarra kosta völ fór hún þangað inn, fann megna skítalykt og skildi hvers vegna þegar hún leit niður um gatið sem var á fjölunum. Hún tók á honum stóra sínum, dró djúpt að sér andann, reyndi að loka fyrir nefið og bætti einum, brúnum, mjóum í skítinn í læknum. Af tvennu illu fannst henni kamarinn þó skárri heldur en stóru Gunnars Majones-dollurnar sem íbúarnir notuðust við á nóttunni og krakkarnir voru látnir safna saman á morgnana og fleyta svo í lækinn fyrir neðan kamarinn eða út í sjó.

Örkin hans Nóa vígð

Og loksins kom Örkin að Dröngum. Það var annar merkisdagurinn, stórt og stæðilegt skip, byggt af Strandamönnum. Slík mikilmennska kallaði aftur á skáldguðinn sem nú hafði gefið stelpunni smárím:

Örkin núna siglir sjó

og stefnir beint á Dranga.

Hásetarnir eru tveir

Óskar og Guðjón heita þeir.

Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar stelpan var orðin fullorðin kona, sem hún uppgötvaði hversu einstök dvölin bæði á Seljanesi en ekki síst Dröngum hafði verið. Hún hafði náð að upplifa skottið á veröld sem var einhvers staðar á bilinu 1900-1930. Í húsinu var ekkert rafmagn en hitað upp með, sennilega, miðstöðvarkatli. Eldavél sem var kynt með spýtum en stelpan fór oft ásamt fléttukonunni um steinafjöruna þar sem rekaviðinn bar að og tíndi næfur sem notaðar voru til þess að kveikja upp í vélinni. Nær allur matur var súrsaður og mjólk og önnur kælivara var geymd í læknum – fyrir ofan kamarinn! Í morgunmat var alltaf hafragrautur, lýsi og súrsað slátur og á borðum voru stundum súrsaðir selshreifar. Kríuegg þóttu líka herramannsmatur, sem og svartfuglsegg og bringur. Æðaregg og kríuegg soðin, stundum var innvolsið úr þeim sogið hrátt og borðað en það átti víst að vera einstaklega hollt. Á kvöldin var stundum selkjötsveisla.

Einu sinni í viku var farið á vélbát í Kaupfélagið í Norðurfirði og keypt inn fyrir vikuna og það var oft mikið magnið af mat sem komið var með til baka, enda dvöldu oft margir í einu á Dröngum. Þar var engin ísskápur á bænum svo sú matvara sem þurfti kælingar, eins og mjólk og djús, var geymd í læknum – fyrir ofan kamarinn. Einu sinni kom telpan í Kaupfélagið í Norðurfirði og þvílíka verslun hafði stelpan aldrei áður komið í og það þótt hún hefði alla tíð búið í borginni. Engin Kringla eða Smáralind mun nokkurn tímann standast samanburð í upplifun við að standa í Kaupfélaginu í Norðurfirði í kringum 1980. Vöruúrvalið var svo mikið að stelpuna svimaði.

Helvítið hún Brigitte Bardot og selveiðar

Nær allt lífið á Dröngum var eins sjálfbært og hægt var þegar um hlunnindabúskap er að ræða en þar var nú aðeins búið hálft árið eins og á Seljanesi. Of harðbýlt hafði orðið nokkrum áratugum áður á þessum slóðum til þess að reka búskap eins og tíðkaðist og bærinn var og er afar einangraður.

En frá vori og fram á haust höfðu allir verk að vinna. Á daginn fór hluti af fullorðna fólkinu út á pramma ásamt krökkunum til þess að ná í rekaviðinn sem rak meðfram ströndinni frá Rússlandsslóðum. Svo var hann sagaður í girðingarstaura sem síðan voru seldir. Í kríuvarpinu voru eggin tínd, æðardúnninn hreinsaður og seldur og svartfuglinn skotinn á vorin. Strandabræður veiddu selinn í net, til heimilisnota, en það hafði verið ein helsta búgreinin áður en mótmæli gegn seladrápum urðu víðtæk. „Helvítið, hún Brigitte Bardot,“ sagði tálgarinn sem jafnan kenndi henni einna helst um bannið en stelpan skildi bölvið þannig að honum þætti hún ekkert falleg. Á kvöldin voru sögur sagðar, tréð tálgað og jafnvel vísur kveðnar.

Laugardagar voru oftast laugar dagar. Þá var farið með krakkastóðið að náttúrulegri, heitri uppsprettu, potti, sem var um hálftíma gang frá Dröngum, og allir settir í bað, sápaðir upp úr og niður úr. Í uppsprettunni mátti fara í vatnsslag án þess að nokkur reiddist. Stelpunni fannst þetta unaðsstundir sem vógu svo sannarlega upp á móti Gunnars Majones-dolluferðunum.

Stelpan fór þrjú sumur aftur í „sveitina sína“ en hefur ekki komið þangað síðan þá. Eftir því sem árin hafa liðið verða töfrarnir yfir sveitinni hennar sterkari en nú er stelpan orðin kona og konan orðin borgarbarn og þekkir ekki Ísland lengur. En innst inni á náttúran alltaf ítök í henni vegna þess töfraheims sem náttúran og lífið á Ströndum gáfu henni. Ef til vill er kominn tími til að tengja – aftur. Upplifa á ný undur íslenskrar náttúru, eitthvað sem kallar fram skáldskaparguðinn í henni – hafa með sér sjóveikitöflur og hver veit; ef til vill laumar guðinn að henni bragreglunum.