Jafnvel þótt vínin yrðu með öllu verðlaus er alltaf hægt að njóta þeirra.
Jafnvel þótt vínin yrðu með öllu verðlaus er alltaf hægt að njóta þeirra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annars hef ég stundum sagt við fólk að kaupa bara rauðvín. Það hefur ánægju af því að lokum.“ Þessi orð Vilhjálms Bjarnasonar fjárfestis voru meðal ummæla vikunnar í Morgunblaðinu um síðustu helgi. En hvernig er það eiginlega?

Annars hef ég stundum sagt við fólk að kaupa bara rauðvín. Það hefur ánægju af því að lokum.“

Þessi orð Vilhjálms Bjarnasonar fjárfestis voru meðal ummæla vikunnar í Morgunblaðinu um síðustu helgi. En hvernig er það eiginlega? Er eitthvert vit í að fjárfesta í rauðvíni?

Í fljótu bragði þá er svarið: Já, það getur verið það. Maður verður hins vegar, rétt eins og með aðrar fjárfestingar, að vinna heimavinnuna.

Það er ekkert nýtt að fjárfesta í víni. Um áratugaskeið hafa margir áhugamenn um góð vín fyllt kjallara sína og selt síðan úr þeim eftir þörfum til að fjármagna kaup á nýjum vínum. Hins vegar er það tiltölulega ungt fyrirbæri að kaupa vín í þeim eina tilgangi að selja aftur síðar, rétt eins og um verðbréf væri að ræða. Þetta hefur oft reynst alveg óvitlaust. Ef horft er til síðustu tveggja áratuga hefur verð bestu vína heims hækkað að meðaltali um 15% á ári.

Auðvitað er vínmarkaðurinn ekki ónæmur fyrir heimsmarkaðinum. Verð lækkaði í kjölfar bankakreppunnar í Asíu árið 1998 og sömuleiðis hafði bankakreppan 2008 áhrif til lækkunar. Sú lækkun var hins vegar óveruleg ef horft er til lækkunar á flestum hlutabréfavísitölum. Mörg vín héldu líka bara áfram að hækka.

Margt kemur þar til. Í fyrsta lagi eru bestu vínin mjög takmörkuð auðlind. Þetta eru afmarkaðir vínbúgarðar sem verða ekki stækkaðir. Lengi vel voru það fyrst og fremst „fjárfestar“ í Frakklandi, Þýskalandi, Sviss, Bretlandi og Bandaríkjunum sem sóttu í bestu vínin. Á síðustu árum hafa hins vegar Rússar og Asíuríkin bæst við. Það munar um Kína og Japan þegar takmarkað magn af flöskum er í boði.

Jafnvel er staðan orðin sú að margir vínáhugamenn hafa ekki lengur efni á að kaupa vín sem þeir höfðu jafnvel keypt árlega áratugum saman þar sem verð þeirra hafði á skömmum tíma margfaldast.

Auðvitað eru það ekki hvaða vín sem er sem hæfa til að fjárfesta í. Það eru örfá vín frá Bordeaux í Frakklandi og eitt og eitt frá öðrum svæðum svo sem Bourgogne sem virkilega er hægt að treysta á. Vín á borð við Chateau Latour, Mouton-Rothschild, Cheval-Blanc, Pétrus og Lafite-Rothschild.

Tvö þeirra, Chateau Mouton-Rothschild 2006 og Chateau Latour, eru fáanleg í vínbúðunum og kosta um 80 þúsund krónur. Flaskan, ekki kassinn. Það er hins vegar ekki nema um fimm ár síðan hægt var að fá Latour á 20 þúsund krónur í vínbúðunum.

Ef fjárfestingin á að skila sér er auðvitað nauðsynlegt að hægt sé að selja þau aftur. Þá verður að vera hægt að sýna fram á uppruna þeirra og að þau hafi verið geymd við rétt skilyrði. Það er því lítið vit í að kaupa vín til að geyma heima í þeirri von að ætla að græða á þeim síðar. Ég tala nú ekki um ef greidd hafa verið íslensk gjöld af víni sem síðan á að senda aftur til útlanda.

Eina vitið er að kaupa af virtum vínbúðum, t.d. í London, og geyma vínin á frísvæði. Vínin verður líka að kaupa en primeur eða meðan vínið er enn á tunnu. Kassana er svo annaðhvort hægt að flytja heim eða selja. Svo eru líka fyrirtæki sem sérhæfa sig í því að selja hlut í „vínsjóðum“ þar sem vín en ekki verðbréf mynda verðmætin. Slíkar fjárfestingar eru hins vegar lokaðar Íslendingum líkt og aðrar erlendar fjárfestingar á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði.

Þetta er líka ekki áhættulaus fjárfesting frekar en annað. Markaður í fortíð hefur ekki alltaf reynst sannspár um framtíðina. Hvað ef Kínverjar missa áhugann á víni?

Svo er líka hægt að líta á þetta með öðrum augum, ekki síst í ljósi þeirra hremminga sem íslenskir fjárfestar hafa gengið í gegnum á síðustu árum. Jafnvel þótt vínin yrðu með öllu verðlaus er alltaf hægt að njóta þeirra. Það sama er ekki hægt að segja um hlutabréf. Eflaust myndu margir vilja skipta á bréfunum sínum í föllnu bönkunum og góðum vínkjallara í dag.

Næst: Eru prósentin orðin of mörg?