Ólafía Hrönn Jónsdóttir skemmtir leikhúsgestum í gervi finnsku ömmunnar.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir skemmtir leikhúsgestum í gervi finnsku ömmunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gugga er dauð, lengi lifi amma! Leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur skapað ógleymanlegan karakter með túlkun sinni á ömmunni í Finnska hestinum sem er til sýninga í Þjóðleikhúsinu. Texti: Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is Myndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is

Ólafía Hrönn Jónsdóttir er löngu landsþekkt fyrir ljúfan söng og léttan leik en nú síðast sló hún í gegn í hlutverki sínu sem amman í leikritinu Finnski hesturinn sem Þjóðleikhúsið sýnir. Leikritið er fyndið en þó enginn farsi, undirtónninn er alvarlegur eða kannski frekar sorglegur en sagan gerist á finnskum bóndabæ, sem stendur ekki undir nafni lengur. Sögupersónurnar eru sjö þó næstum mætti telja Evrópusambandið áttundu persónuna en nærvera sambandsins sem einhvers konar stóra bróður vakir yfir verkinu.

Amman býr á bænum ásamt dóttur sinni og barnabarni að ógleymdum fyrrverandi tengdasyni, sem hefur ekki efni á því að flytja í þorpið og búa með kærustunni. Amman er ráðandi persóna á heimilinu sem og í leikritinu og gerir miskunnarlaust grín að gestum og gangandi.

Fæðingin tók tíma

Ólafía Hrönn er í miklu gervi í leikritinu og er í raun óþekkjanleg og skapar þarna ógleymanlegan karakter. Það tók samt smá tíma fyrir ömmu að verða til.

„Ég hefði getað hent einhverjum karakter fram og verið í honum allan tímann en það hefði ekki verið neitt skemmtilegt. Það er fínt að fara rólega af stað og velta fyrir sér hvað er að gerast í leikritinu og á milli persónanna,“ segir leikkonan, sem hafði áður verið gömul kona á sviði en hún fékk fína dóma fyrir hlutverk sitt sem Ása í Pétri Gaut .

„Ég var upptekin af því að gera þessa ekki alveg eins, og talaði oft við Maríu [Reyndal leikstjóra] um þetta. Mig langaði að finna aðra gamla konu í mér. Hin bara sprakk út fyrirvaralaust á einni spunaæfingu.“

Hún velti persónunni mikið fyrir sér og hugleiddi að hafa hana „kisulega en hroðalega í kjaftinum. En svo kom það aldrei,“ segir hún en amma er kraftaleg karlakona sem klæðist buxum og lætur engan segja sér fyrir verkum. „Ég var alltaf viss um að hún væri svolítið karlmannleg, svona töffari,“ segir hún en mest einkennandi við ömmuna er að hún dælir fúkyrðunum úr sér.

Mismunandi spælingar

„Hún er eins og hríðskotabyssa á heimilinu. Dritar þarna á fólkið í kringum sig og hefur ekki mikið álit á heimilisfólkinu. Spælingarnar eru mismunandi, hún er blátt áfram og móðgar fólk hrikalega en stundum er hún viljandi að taka fólk niður,“ segir Ólafía Hrönn sem hafði tvær gamlar konur sem hún þekkir í huga við persónusköpunina en vill alls ekki nefna einhver nöfn. „Ég hafði þær pínulítið á bak við eyrað. Svona tóninn.“

Hún var glöð með viðbrögðin sem hún fékk strax í frumsýningarpartíinu þegar fólk kom upp til hennar og líkti ömmunni við gamlar konur sem það þekkti.

„Þetta gleður mig alveg sérstaklega.“

Henni fannst líka margt erfitt við þennan karakter. „Harmurinn og áföllin byggjast ekki upp í henni heldur fær hún áfall, jafnar sig og heldur áfram,“ segir hún en oftar en ekki er það þannig í leikhúsi að spennan byggist upp og endar með sprengingu. „Þetta endurspeglar að hún er svo vön áföllum í lífinu,“ segir Ólafía Hrönn og segir það segja eitthvað um hana og fjölskylduna. „Þau sjá ekki verðmætin sem eru við tærnar á þeim eins og fólki hættir til. Þau eru eitthvað svo föst í þessu gamla.“

Amman er finnska sálin

Amman er kannski fyndin en hún er allt annað en uppbyggileg. „Mér finnst að höfundurinn sé að deila á finnsku þjóðarsálina með því að skrifa hana svona. Það er erfitt að ná að blómstra undir þessum kringumstæðum.“

Amman er óspör á stóru orðin þó ekki fari fyrir tilfinningaseminni. „Það er gaman að horfa á hana en mann langar ekki til að búa með henni. Hún brýtur niður dóttur sína og gefur henni enga hlýju. Það er bara stöðugt niðurrif og vantrú. Það er alveg ægilegt að hafa ekki trú á börnunum sínum. Ef skilaboðin eru stöðugt: Þér mun aldrei takast þetta, þá verður aldrei neitt úr neinu. Mér finnst þetta vera einhver helstu skilaboðin hjá höfundinum. Þó amman sé skemmtileg þá rífur hún sína nánustu niður gegndarlaust og það hefur svona mikið að segja.“

Kynntu sér Evrópusambandið

Evrópusambandið kemur nokkuð við sögu í leikritinu, birtist sem eyðublaðafargan og stóri bróðir sem fylgist með öllu. Þó er leikritið langt í frá svo einfalt að hægt sé að afgreiða það sem áróður gegn ESB. Hvernig var farið í þennan hluta í undirbúningnum?

„Við fengum fólk úr utanríkisráðuneytinu til okkar til að kynna fyrir okkur hvernig málum er háttað hjá bændum í Finnlandi og hvort mikið hafi breyst með ESB. Við fengum líka Eirík Bergmann og Bjarna Harðar til okkar, við vildum fá báða póla.“

Leikkonunni fannst leikritið við fyrsta lestur vera áróður gegn Evrópusambandinu. „En þegar maður tekur þetta aðeins lengra þá áttar maður sig á því að það er ekki víst hvað er hverjum að kenna en fjölskyldan er náttúrulega alls ekki að standa sig.“

Vildi hafa hana í buxum

Gervið er mikið og það tekur tíma að fara í það. „Ég mæti klukkan sex,“ segir hún en sýningar hefjast klukkan átta. „Ég hef hingað til verið með rakettu í rassinum og oft mætt á síðustu stundu. Núna vil ég hafa vaðið fyrir neðan mig og vera tilbúin snemma fyrir sýningu af því að þetta er svo mikið gervi og leiðinlegt að vera að flýta sér.“

Amma er líka talsvert mikið öðruvísi vaxin en Ólafía Hrönn. „Ég var alveg ákveðin í því að hafa stoppið og mér finnst það þrælvirka. Hún er með öfugan vöxt við mig, breið að ofan á meðan ég er perulaga með kvenlegri vöxt,“ útskýrir hún. Ein ástæða þess að Ólafía Hrönn vildi hafa ömmu mikla um sig að ofan var að hún vildi ekki hafa ömmu í kjól. „Mig langaði alltaf að hafa hana í buxum. Margrét [Einarsdóttir] búningahönnuður tók vel í það. Það var sérstaklega þægilegt að vinna með henni. Ég hafði skoðað myndir frá öðrum sýningum og þá var amman oftast í kjól,“ segir hún en búningurinn svínvirkar á ömmu, undirstrikar harðari hlið hennar.

Höfundur leikristins, Sirkku Peltola, var viðstaddur frumsýninguna í Þjóðleikhúsinu. „Við hittum hana ekki fyrr en eftir frumsýninguna. Hún varð alveg steinhissa þegar hún sá mig. Hún hélt ég væri eldri kona. Ég var montin af því.“

Þýðir ekkert að láta þau þegja

Ýmsum sögum fer af Finnum, staðalmyndin er þögla týpan með svartan húmor. „Ef þetta væri alveg raunverulegt, þá væri ekki svona mikið talað í leikritinu,“ grínast Ólafía Hrönn og heldur áfram: „Þetta er náttúrulega leikrit. Það þýðir ekki að láta þau þegja. Allt það sem amman er að hugsa, hún segir það í leikritinu.“

Hún heldur samt að Íslendingar séu almennt léttari í lundu en Finnar. „Ég held að húmorinn okkar sé álíka, svolítið svartur húmor en við erum ekki svona rosalega þung eins og Finnar,“ segir hún og rifjar upp gamansögu sem Sigurður Karlsson þýðandi leikritsins sagði leikhópnum.

„Finnsk kona sagði við manninn sinn eftir þrjátíu ára hjónaband: Þú segir aldrei við mig að þú elskir mig. Hann svaraði: Ég sagði þér það þegar við giftum okkur og meinti það og ég skal láta þig vita ef það breytist.“

Ólafía Hrönn fór í námsferð til Finnlands í leiklistarnáminu og hitti þar finnskt leikhúsfólk. „Þau höfðu trú á því að ef það væri búið að tala of mikið um tilfinningarnar væri búið að skemma augnablikið. Viðhorfið var að sá sem þyrfti alltaf að vera að tala, hann væri síðri og það væri meira spunnið í þögla hugsuðinn.“

Af hestaferðum og hrossakjötsáti

Eins og nafnið gefur til kynna kemur hestur við sögu í leikritinu, hann er „leikinn“ af íslenska hestinum Punkti. „Hann hefur staðið sig afskaplega vel, lætur ljós og læti ekki hafa nein áhrif á sig,“ segir hún en hesturinn er eina dýrið sem er eftir á sveitabænum þegar leikritið hefst og þykir ömmu afskaplega vænt um gripinn.

Saumaklúbbur Ólafíu Hrannar fór á tímabili í hestaferð einu sinni á ári en reiðdagar leikkonunnar eru nú að baki. „Síðasta skipti sem ég fór, datt ég af baki og braut spjaldhrygginn. Í þessu hlutverki set ég mig í klemmda stellingu og finn fyrir bakinu þegar ég er búin að leika,“ segir hún og ætlar ekki að taka neina útreiðatengda áhættu eftir þetta.

Hrossakjöt getur hún vel lagt sér til munns. „Það finnst mér gott, og folaldakjöt. Það er ekkert að því.“

Talið berst frá sviðinu en Ólafía Hrönn hefur leikið bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Margir minnast hennar áreiðanlega fyrir leik sinn sem hótelstýran Gugga í hinum vinsælu þáttum Dagvaktin . „Hún var svona karlakona líka. Það var pínu erfitt að leika hana. Hún vílaði ekkert fyrir sér að fleka lítinn bangsa,“ segir hún og á þá við Ólaf Ragnar. „Það var ekki fallegt. Satt að segja þá fannst mér þetta ekkert skemmtilegt. Týpan var allt í lagi en það sem hún gerði var annað mál. Ég sagði stundum: Þetta er fjölskylduþáttur! Maður á nú börn. Ég er ekki til í að gera hvað sem er,“ útskýrir hún.

„Krökkunum fannst þetta síðan bara fyndið. Ég var ekki viss áður en þau sáu þetta hvað þeim fyndist. En ALLIR krakkar sáu þættina. Ég gat ekki farið í Kringluna lengi á eftir. Mér var sama þegar það var verið að öskra á eftir mér þegar ég var ein, en mér fannst það leiðinlegt þegar ég var með manninum og börnunum,“ segir hún en börnin eru þrjú, Magnús, 25 ára, Skarphéðinn, 20 ára, og María, sem er 11 ára en maður hennar heitir Örn Johnson.

„Við fórum í bæinn eftir sýningu eitt kvöldið og fengum okkur öllara. Þá benti einhver á mig og öskraði: Finnski hesturinn! Þá hugsaði ég: Gott, þá er Gugga dauð.“

Fer aldrei eftir uppskrift

Amman í leikritinu er handavinnukona en Ólafía Hrönn er sömuleiðis mikil prjóna- og heklukona. Hún mætir í viðtalið í fallegri skærgrænni peysu sem er bæði prjónuð og hekluð af henni sjálfri við blátt heklað sjal. „Ég er alltaf með eitthvað í gangi. Það hentaði mér ákaflega vel að mega hekla á kostnað Þjóðleikhússins,“ segir hún og hlær og bætir við að hún fari aldrei eftir uppskriftum. „Ég hef oft sagst ætla að hekla utan um bíl, það væri flott.“

Hún segir að hún þyki halda eitthvað asnalega á heklunálinni en því verði ekki breytt úr þessu. Hún kenndi leikkonunni Þórunni Örnu Kristjánsdóttur, sem leikur barnabarn ömmunnar, að hekla á æfingatímabilinu, rétt eins og amman gerir í leikritinu. „Hún heldur líka vitlaust á heklunálinni eins og ég. Ég er mjög stolt af því.“

Næsta hlutverk Ólafíu Hrannar er Fíflið í Lé konungi sem er jólasýning Þjóðleikhússins. Arnar Jónsson fer með titilhlutverkið. „Hann er í banastuði,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið draumahlutverk hjá honum.

Sjálf segist hún ekki eiga nein sérstök draumahlutverk. „Mér finnst ég hafa fengið svo skemmtileg hlutverk í gegnum tíðina. Mér finnst virkilega gaman í mínu starfi og er þakklát fyrir það að finnast svona gaman að leika. Núna eru börnin líka orðin stærri og samviskubitið minna, því maður er alltaf að leika á kvöldin, núna er þetta orðið léttara.“

Hún hefði ekkert á móti því að leika ömmu aftur en Peltola hefur skrifað tvö leikrit til viðbótar um fjölskylduna. „Ég væri alveg til í að leika þessa kellingu aftur. Leikhópurinn í þessu verki er yndislegur og leikrit númer tvö er mjög skemmtilegt. Það gerist í blokk en þá eru þau flutt í bæinn. Ég sagði við höfundinn að mér þætti það eiginlega fyndnara en það fyrsta. Þá svaraði hún grafalvarleg í bragði: Það var ekki meiningin.“

Verður hress prjónakona í ellinni

En hvernig skyldi Ólafía Hrönn verða sem gömul kona, hress að prjóna og grínast?

„Ég geri mér vonir um það. Líka vegna þess að mínir draumar hafa ræst. Mér finnst mér bara allir vegir færir í mínu starfi. Ég fæ að gera svo margt skemmtilegt og er mjög þakklát fyrir það. Ég held að ég nagi ekki á mér handarbakið „ég hefði átt“ þegar ég flyt í þjónustuíbúðina.“

Kvikmynd í bígerð um Hannes og Smára

Hannes og Smári eru góðhjartaðir tónlistartöffarar, sem Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðsdóttir túlka svo snilldarlega. Kannski er varla hægt að segja túlkun en tvíeykið er orðið hluti af leikkonunum en þær hafa farið í gervi gæjanna frá árinu 1994.

„Það er gaman að leita að þessu í sjálfum sér. Ég fór á námskeið hjá Maríu Pálsdóttur fyrir leikkonur sem leika karla. Þetta snýst svolítið um að ná í karlinn í sjálfum sér, spyrja sig: Hver er karlinn í þér?“

Hún tekur það fram að þær séu ekki að gera grín að Hannesi Smárasyni, eins og þær hafa oft verið spurðar að, Hannes og Smári hafa verið lengur til en svo.

Ólafía Hrönn segir margt öðruvísi við að koma fram sem karl. „Okkur fannst svo merkilegt þegar við vorum að byrja að skemmta sem karlar, að þeim er alveg sama hvað öðrum finnst. Þeir eru bara kúl á því.“

Ekki skotnar í Hannesi

Hún segir líka öðruvísi að vera karl og daðra við konur og sjá hvernig þeim líður. „Ég varð bara skotin í þér, segja þær við Dóru. Þær eru ekki skotnar í Hannesi,“ segir hún og hlær.

Hannes og Smári hafa víða skemmt á löngum ferli og bættust áreiðanlega fleiri aðdáendur í hópinn þegar þeir komu fram á Arnarhóli í kvennafansi á kvennafrídeginum.

Núna ætla þeir sér enn stærri hluti því Hannes og Smári eru á leiðinni á hvíta tjaldið. „Við erum búnar að gera kvikmyndahandrit en okkur langar rosalega að gera bíó um þá. Það er draumurinn. Við erum búnar að gera fyrsta uppkast og bíðum eftir viðbrögðum. Þetta á að vera vegamynd. Þeir eru tónlistarmenn og í myndinni fara þeir í innra og ytra ferðalag.“

Senda textaskilaboð sem gæjarnir

Hún segir gervin líka vera orðin svo raunveruleg eftir að Stefán Jörgen förðunarmeistari setti hár beint á húðina á þeim fyrir gervin. „Þetta verður svo raunverulegt að mér þótti skrýtið að horfa á mig í speglinum.“

Hún segir Hannes og Smára þekkjast vel. „Við Dóra sendum stundum sms-skilaboð okkar á milli sem Hannes og Smári. Ég segi honum að halda kjafti og fæ til baka: „Rólegur!“ Þeir eru alveg sestir að í okkur.“

Tónleikar á nýju ári

Hannes og Smári ætla að vera með tónleika í Rósenberg í janúar og febrúar. „Það hefur verið planið að halda tónleika í einhver tvö ár en núna er búið að festa dagana. Við fengum inni í æfingahúsnæðinu hjá Röggu Gísla og hittumst einu sinni í viku til að semja músík fyrir gæjana. Sú músík verður síðan notuð í myndinni í tónleikaferðalaginu þannig að við erum að æfa okkur fyrir myndina.“

Hún er að vonum spennt fyrir þessu skrefi piltanna og lofar góðri skemmtun á tónleikunum. „Þetta verða tónleikar/leikrit því það verða einhverjar óvæntar uppákomur, kannski eitthvert uppgjör eða að gömul kærasta mætir á staðinn.“

Hendir út bolta og Dóra grípur hann

Þegar þær koma fram eru vissir punktar ákveðnir fyrirfram en svo er spunnið á milli. „Dóra er þvílík spunadrottning. Það er rosalega gott að vinna með henni. Við vinnum svo vel saman að því leytinu til að ég hendi út bolta, hún grípur hann og gerir eitthvað með hann. Hún er duglegri að landa hugmyndunum.“

Hún segir karla almennt séð ekkert hafa móðgast við þær fyrir túlkun þeirra á karlmönnum fyrir utan eitt skipti sem hún rifjar upp. „Maður sagði við mig: Ég hef aldrei séð karlmann láta svona! Þá var ég með einhver ofbeldislæti. Það er nefnilega svolítið stuttur þráðurinn í Hannesi. Ég hef nú alveg séð svoleiðis karlmenn!“