Halla Linker í Los Angeles 2010. Á ferðum sínum myndaði hún sér nokkurs konar heimsmynd eða yfirsýn, sem hún hefur tekið eftir að er öðruvísi en hjá þeim sem hafa mestmegnis setið heima allt sitt líf.
Halla Linker í Los Angeles 2010. Á ferðum sínum myndaði hún sér nokkurs konar heimsmynd eða yfirsýn, sem hún hefur tekið eftir að er öðruvísi en hjá þeim sem hafa mestmegnis setið heima allt sitt líf.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halla Linker er með víðförlari Íslendingum, hefur sótt heim um 180 lönd á langri og viðburðaríkri ævi. Hér rifjar hún upp kynni sín af nokkrum þeirra og reifar sjónarmið sín um ástandið á eldfimum slóðum. Í fyrra ritaði hún Barack Obama bréf vegna ástandsins í Afganistan. Anna Björnsdóttir

Á Hótel Borg vorið 1950 kynntist Halla Guðmundsdóttir, þá nýútskrifuð úr Menntaskólanum í Reykjavík, verðandi manni sínum Hal Linker, sem staddur var á landinu til að gera heimildarmynd um Ísland. Sex vikum síðar fluttist Halla alfarin til Bandaríkjanna.

Halla og Hal ferðuðust víða um heim til að kvikmynda lönd og þjóðir, ásamt Davíð, syni sínum, sem er hjartalæknir í Seattle. Í átján ár voru þau hjón með vikulegan þátt um ferðir sínar í sjónvarpi í Bandaríkjunum. Kvikmyndasafn þeirra er nú í eigu Smithsonian-safnsins í Washington DC. Hal og Halla voru ræðismenn Íslands í Los Angeles í 25 ár. Þar býr hún enn ásamt seinni manni sínum, Francisco Aguirre.

Halla hefur heimsótt um 180 lönd á langri ævi. Hún fyllir áttunda áratuginn um þessar mundir. Af því tilefni samþykkti hún að segja frá því hvernig heimurinn – fyrr og nú – kemur henni fyrir sjónir.

„Það eru þrjátíu og eitt ár síðan Hal dó og þá hætti ég í raun og veru að ferðast. Frá árinu 1950 höfðum við stöðugt verið á svo hraðri ferð og flugi út um allan heim að ég hafði varla tíma til að hugsa. Samt síaðist öll reynslan inn og gleymdist ekki. Og þannig myndaði ég mér nokkurs konar heimsmynd eða yfirsýn, sem ég hef tekið eftir að er öðru vísi en hjá þeim sem hafa mestmegnis setið heima allt sitt líf,“ segir Halla.

Vonlaust stríð í Afganistan

„Mér finnst stríðið í Afganistan vera algjörlega vonlaust. Þetta er ekki stríð sem er hægt að vinna. Ég gat ekki orða bundist og skrifaði Obama forseta bréf á síðasta ári og bað hann þess lengstra orða að koma Bandaríkjaher út úr Afganistan. Bretar stjórnuðu Indlandi og því sem við köllum núna Pakistan og Kasmír, í mörg hundruð ár. En þeir reyndu aldrei að stjórna Afganistan því að Afganar láta ekki að stjórn. Þeir hafa alltaf verið heiftarlega grimmt fólk og hafa miklar skoðanir á hverjum þeir tilheyra og hverjum ekki. Þeir eru í rauninni eins og mörg þjóðarbrot í sama landi, líkt og var í Evrópu á miðöldum. Ég álít að þetta sé í rauninni orðið algjört kynþáttastríð sem þeir verði bara sjálfir að fást við og fá að móta sína sögu í friði. Við Bandaríkjamenn eigum ekkert að blanda okkur í þetta. Við eigum ekki að vera lögreglumenn heimsins.

Þegar við Hal vorum í Afganistan í fyrsta og eina skiptið árið 1972, var þar allt nokkurn veginn með kyrrum kjörum. En að fara út fyrir Kabúl var eins og að koma inn í fjórtándu öld. Þá var kóngur við völd og við urðum vitni að mótmælagöngu í Kabúl. Þar var á ferðinni fólk sem bjó í suðurhluta landsins og vildi sameina hluta Afganistans og Pakistans, mynda aðra þjóð og kalla Pústhúnistan. En í Norður-Pakistan er kynflokkur sem kallar sig Pústhúna. Svo þetta var eins og gerist í sögunni, þegar þjóðarbrot eru að reyna að koma sér saman sem ein þjóð. Lítum bara á Þýskaland fyrir um tvö hundruð árum, það var ekki eins og Þýskaland er í dag. Og Júgóslavíu sem er orðin að fimm löndum. Svona hefur þetta verið í Afganistan í þúsund ár og því verður ekki breytt með setuliði.

Það er eitt í sambandi við Afganistan sem tekur mig mjög sárt. Talíbanarnir sprengdu upp fimm hundruð metra hátt búddalíkneski sem hafði verið meitlað inn í fjallið fyrir fimmtán hundruð árum því það má ekki gera neinar myndlíkingar í Múhameðstrú. Allar þjóðir heims grátbáðu þá að gera þetta ekki en þeir gerðu það samt.“

Nýlenduþjóðir og kynþáttahatur

„Sumir halda því fram að nýlenduþjóðirnar Belgar, Frakkar og Bretar hafi farið illa með innfædda og stolið frá þeim auðæfum. En ég lít svo á að nýlendutíminn hafi þrátt fyrir allt verið besti tíminn fyrir þetta fólk. Nýlenduþjóðirnar högnuðust vissulega á nýlendunum. En þeir gerðu þó eitthvað fyrir þær, eins og að koma á almenningssamgöngum og friðsamlegum samskiptum.

Við vorum í Belgíska Kongó árið 1956 og ferðuðumst um allt landið í þrjá mánuði. Belgar höfðu komið á friði og allt var með kyrrum kjörum. Það varðaði sektum að kalla innfædda niðrandi nöfnum og það mátti ekki berja þá. Þegar Belgar fóru frá Kongó árið 1959 fór allt í bál og brand og hreinasta brjálæði tók við. Þá varð Mobutu, sem var liðþjálfi í hernum, einræðisherra í landinu. Kongó er vafalaust eitthvert ríkasta land í heimi, þar finnast demantar, gull, silfur, úraníum og öll möguleg verðmæti í jörðu. Mobutu mokaði öllum þessum auðæfum í eigin vasa og setti inn á reikning í Sviss þar sem hann átti heimili. Hann gerði ekkert fyrir þjóðina, engu var haldið við í landinu og allt fór í niðurníðslu. Þetta hefur gerst í flestum þessum löndum, eins og til dæmis í Úganda með Idi Amin.

Tuttugu og sjö árum síðar kom ég aftur til Kongó og sá strax eftir lendingu hve mikið hafði breyst. Flugvöllurinn var eins og vitlausraspítali og þar ríkti algjört öngþveiti. Ég sá mann nota svipu óspart á burðarkarla til að halda þeim á mottunni. Ég fór á vegum Bandarísku upplýsingaþjónustunnar til að kenna innfæddum heimildamyndagerð á einfaldan og ódýran hátt. Ég hvatti nemendurna til að fara í þorpin þar sem enn ríktu hefðbundnir lifnaðarhættir, til að mynda og taka upp sögu sína áður en hún hyrfi. Ég sagði þeim að ég hefði ferðast um allt landið árið 1956, á skipi á Kongóánni, með járnbrautarlest og á vegum sem lágu um allt. Þeir urðu mjög hissa og sögðu að vegirnir væru horfnir og frumskógurinn væri búinn að taka yfir lestarteinana.

Það er alltaf talað um að hvítt fólk fyrirlíti svart fólk. En svart fólk fyrirlítur líka sitt svarta fólk, ef það er ekki alveg af sama kyni og það. Svart fólk fyrir sunnan Sahara er af mörgum kynþáttum og þar er afskaplega mikið kynþáttahatur innbyrðis. Eins og sannaðist árið 1994, þegar milljón tútsar voru myrtir þarna – ekki af hvítum mönnum, heldur af öðrum svörtum kynflokki, hútúum. Nú til dags er mikið af menntafólki í löndunum fyrir sunnan Sahara og það lítur niður á ómenntaða samlanda sína. Að mörgu leyti er menntunin eins og spónlagt yfirborð á þeim – ef eitthvað bjátar á kemur villimaðurinn aftur upp.“

Í fylgd lögreglunnar

„Þegar við komum til Egyptalands árið 1956 voru nær engir ferðamenn þar því Frakkar og Englendingar voru í stríði út af Súesskurðinum. Við vorum á vegum ferðaskrifstofu ríkisins á staðnum. Þeir voru ekki vissir um að okkur væri óhætt að fara ein svo þeir sendu lögreglumann með okkur sem var varðmaður okkar allan tímann. Við fórum til Lúxor, Thiebes og Kóngadalsins og sáum gröf Tutankhamuns konungs. Mér fannst alveg ótrúlegt að sjá þá menningu sem Egyptar byggðu fyrir fjögur þúsund árum eða meir og ég get ekki lýst því hvað ég dáist að því sem þeir skildu eftir sig. Tutankhamun var uppi tvö þúsund árum fyrir Krist, svo það eru fjögur þúsund ár síðan andlitsgríma hans var búin til úr skíra gulli og með lapis lazuli í augunum. Fegurð og fínleiki þessara gripa er einstakur. Þótt hitinn hafi verið 45 gráður var ég með gæsahúð. Það er sorglegt að hugsa til þess hvað Egyptar liggja lágt í dag. Maður les um það í blöðunum hvað fólkið þar er fátækt. Það er ómenntað, getur hvorki lesið né skrifað og á sér ekki viðreisnar von.“

Gervilega tilbúið

„Árið 1948 er Ísraelsríki myndað og byrjar að fyllast af flóttamönnum frá Evrópu. Ég kom þangað fyrst árið 1952. Þá bjuggu Palestínumenn í landinu og öll vegaskilti og leiðbeiningar voru á þrem tungumálum, ensku, arabísku og hebresku. Og allir virtust búa saman í sátt og samlyndi. Svo komum við þangað aftur árið 1967 rétt eftir Sex daga stríðið, en þá var búið að skipta Jórdaníu og við fengum ekki að fara til Jerúsalem.

Ísrael var gervilega tilbúið fyrir gyðinga sem vildu fá sitt eigið land. Þeir máttu ekki eiga eignir í Evrópu svo þeir fóru að stunda verslun, bankaviðskipti og listir. Svo lentu þeir í dauðaverksmiðjum nasista. Þetta fólk er búið að líða mikið og hefur mætt mikilli andúð. Þegar gyðingar halda upp á sína páska og brottförina frá Egyptalandi, þá skála þeir og segja „næsta ár í Jerúsalem“. Þetta hafa þeir gert í tvö þúsund ár. Mér finnst leiðinlegt að segja það og ég mundi ekki segja það upphátt við gyðinga, en ég get í raun og veru ekki séð langa framtíð fyrir land sem heitir Ísrael.“

Látlausar styrjaldir

„Það var æðislega gaman að koma til Indlands árið 1952. Landið hafði verið undir breskri stjórn til 1948, en eftir að Bretar fóru frá var því skipt upp. Hindúar voru í meirihluta en þar var einnig mikið af múslimum og þeir fengu sín eigin lönd, Austur-Pakistan, sem nú er Bangladess og Vestur-Pakistan sem nú er Pakistan. En Kasmír var látið vera frjálst land sem gæti ákveðið seinna hvað það vildi verða. Síðan hefur staðið styr þarna á milli Indlands og Pakistans og geisað látlausar styrjaldir því báðir vilja eiga Kasmír.

Mér finnst að þessar þjóðir eigi sjálfar að fá að ráða sinni framtíð og að við Bandaríkjamenn eða NATO eigum ekkert að vera að hræra í þeim. Ef einhver ætti að skipta sér af finnst mér að það ættu að vera Sameinuðu þjóðirnar. En þær eru ekki svo sameinaðar lengur og virðast ekki geta gert upp við sig hvaða starfi þær eiga að sinna, sem í upphafi var að stilla til friðar og miðla málum. Mér finnst Sameinuðu þjóðirnar bara vera orðnar að einhvers konar brandara þarna í New York.“

„Mér fannst ég bókstaflega vera komin til aldingarðsins Edens þegar ég kom til Balí árið 1969. Eyjan er svo falleg, veðurfarið svo milt og það eru aldrei náttúruhamfarir eins og flóð eða eldfjöll sem gætu valdið eyðileggingu. Balí er partur af Indónesíu en eyjan er frábrugðin hinum eyjunum þar sem Múhameðstrúarmenn ráða víðast hvar ríkjum, vegna þess að íbúar hennar eru hindúatrúar. En hindúatrúin á Balí er mildari en á Indlandi og Balíbúar hafa lagað trúna að sér. Þeir trúa til dæmis ekki á að kýr séu heilagar. Fólkið er óskaplega tengt náttúrunni og þakklátt sínum hindúaguðum fyrir hvað það á góðan stað til að búa á. Mér er minnisstætt hvernig þeir settu daglega í þakkarskyni bananalauf, nokkur elduð hrísgrjón, bananasneiðar og blóm, fyrir framan styttu af einhverjum sinna hindúaguða, eins og Vishnu og Ganesha. En nú er skrattinn kominn til Balí. Hryðjuverkamenn sprengja þar upp hótel og höggormurinn er kominn í aldingarðinn.“

Ástfangin af Japan

Þegar ég kom til Japans varð ég ástfangin af landi í fyrsta sinn. Ég hafði aldrei komið til lands sem hreif mig svona mikið. Þetta var árið 1955 en á þeim tíma hafði lítið breyst þar lengi og konur gengu yfirleitt daglega í kimono, líkt og á Íslandi fyrir stríð þegar margar konur gengu daglega í íslenskum búningi. En síðan fór landið hraðbyri inn í nútímann og í dag fara japanskar konur bara í kimono við hátíðleg tækifæri.

Japanar eru mjög hefðbundið fólk og gera allt eftir vissum reglum, meira að segja að pakka inn gjöf. Ég varð svo hrifin þessu öllu, meðal annars af byggingarstílnum og húsunum, þar sem allir fóru úr skónum áður en þeir fóru inn og sátu á gólfinu á strámottum. Japanar eru ofsalega hreinlát þjóð og ég hreifst að því hvað allt var í röð og reglu. Mér fannst líka merkilegt hvað fólkið gat verið kurteist. Á þessum tíma var Japan ekki búið að rífa sig upp efnahagslega eins og það átti eftir að gera. Svo það Japan sem ég sá var ekki Japan nútímans og ég er þakklát fyrir að hafa upplifað það.“

Konur með reyrða fætur

„Ég fór ekki til Kína fyrr en 1979. Það var síðasta ferðalagið sem við Hal fórum í saman. Mér fannst stórkostlegt að koma til Beijing og fara inn í Forboðnu borgina. Við flugum fyrst til vestasta ríkisins, Zizhuan Province, þar sem íbúarnir höfðu ekki séð vestrænt fólk í um fimmtíu ár. Síðan fórum við til Lang Chow og þar sá ég gamlar konur sem enn voru með reyrða fætur. Þær störðu á okkur eins og þær sæju ofsjónir. Það var ekki sjáanleg fátækt þarna en það voru moldargólf í bóndabæjum sem okkur voru sýndir. En fólkið hafði þó þak yfir höfuðið. Síðast fórum við til Sjanghæ og þar sá ég mestu vestrænu menningaráhrifin. En Kína var engan veginn undirbúið að taka á móti ferðamönnum á þessum tíma.

Ég hef ekki komið aftur til Kína en það hafa orðið gífurlegar breytingar þar á þeim þrjátíu árum sem liðin eru síðan ég var þar. Þá voru allir á reiðhjólum og nær engir bílar sáust. Nú eiga allir bíla í Beijing og mengunin er orðin gífurleg. Það er ótrúlegt hvað Kína hefur orðið ríkt land á skömmum tíma. Þeir eiga svo mikið af dollurum í dag að þeir gætu sett Bandaríkin á hausinn. En það er ekki víst að þeir geri það ef það þjónar ekki þeirra eigin hagsmunum. Ég hef alltaf haldið því fram að Kína sé sofandi dreki sem eigi eftir að sýna á sér klærnar og að mínu áliti á Kína eftir að verða voldugasta ríki heims.“

Fólk sefur á götum úti

„Það kom mér mjög á óvart þegar ég kom til Indlands árið 1952 að sjá heimilislaust fólk sofa á götum úti. En nú til dags er þetta orðið algengt úti um allan heim og fólk sefur á götum úti hér í Bandaríkjunum. Mér finnst það algjör skömm að eitt af ríkustu löndum heims sjái sínu fólki ekki fyrir því sem er nauðsynlegt fyrir hvern lifandi mann – að hafa þak yfir höfuðið, heilsutryggingu og menntun fyrir börnin sín. Þetta hafa Kína og Sovétríkin þó gert. Það er auðvitað mismunandi þar eftir stöðum og þótt menn hafi stundum þurft að búa þröngt og ekki við bestu skilyrði, þá fær fólk þar að minnsta kosti þetta þrennt, sem mér finnst vera réttur hvers manns. Síðan getur auðvitað hver einstaklingur farið lengra, eftir því hve kröftugur hann er og hve miklar gáfur og getu hann hefur sjálfur.

Obama forseti erfði efnahagskerfi sem var í rúst og mér finnst hann bara hafa gert það helvíti gott. Ég get ekki ímyndað mér hver hefði getað gert betur – alla vega ekki McCain og Palin. George Bush og hans fólk komu þjóðinni í trilljón dollara skuld og hér hefur viðgengist algjör glæpastarfsemi hjá bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum á undanförnum árum. Hvernig menn eins og Bernie Madoff komust upp með sínar svikamyllur er mér óskiljanlegt. Maður hélt að það væri eftirlit hjá ríkinu með svona starfsemi en því miður virðist það ekki hafa verið nægjanlegt. En ég held að þetta eigi eftir að lagast og að eftirlit verði aukið.

Ég hef alltaf verið pólitískt viðrini. En ég hef mínar skoðanir og kýs aldrei eftir flokkum, heldur þá persónu sem ég hef trú á að geti breytt hlutum til batnaðar og látið gott af sér leiða. Ég lít á Obama sem vonarstjörnuna og er ógurlega stolt í dag af því að honum virðist vera að takast að koma því til leiðar að Bandaríkjamenn fái heilsutryggingar. Allir vita að Bandaríkin eru á eftir Kínverjum í menntamálum. Ekki veit ég hvernig því verður bjargað en Obama ásamt sinni ríkisstjórn er að gera allt sitt til að koma amerísku menntakerfi á hærra stig. Mér er óskiljanlegt hvar maðurinn fær allan þennan kraft til að fljúga stöðugt um heiminn og taka allar þessar ákvarðanir. Hann virðist aldrei verða reiður og aldrei skipta skapi. Sumum líkar það ekki við hann en mér finnst hann aðdáunarverður maður.“