— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þeir eru byrjaðir aftur. Icesave-málið er eitt mesta ólíkindamál íslenskrar stjórnmálasögu á síðari tímum. Svo mikið hefur verið hrært í málinu að það virðist orðið óskaplega flókið.

Þeir eru byrjaðir aftur. Icesave-málið er eitt mesta ólíkindamál íslenskrar stjórnmálasögu á síðari tímum. Svo mikið hefur verið hrært í málinu að það virðist orðið óskaplega flókið. En eins og gildir um svo mörg mál er það ósköp einfalt þegar froðunni sem þyrlað hefur verið upp er svipt burtu. Íslensk bankafyrirtæki í fjármögnunarvanda fundu leið til að fjármagna sig í erlendum gjaldeyri, sem þau þyrsti í eins og skríðandi mann í Sahara á fjórða degi vatnslaus.

Bankar í vanda fundu flóttaleið

Sá ofurþorsti var einnig af auðskiljanlegum ástæðum. Bankarnir höfðu tekið óhemjulegt magn erlendra lána til tiltölulega skamms tíma og lánað féð oft æði gáleysislega og gegn vafasömum tryggingum til langs tíma af því að eigendur bankanna og klíkubræður eða vildarvinir áttu í hlut og þeim lá öllum einhver ósköp á að verða yfirgengilega ríkir og helst án þess að þurfa að taka nokkra persónulega áhættu í leiðinni.

LÍ hugkvæmdist að opna netreikninga á Bretlandi í útibúi sem til þess var stofnað. Kaupþing var með í undirbúningi að opna reikninga víða í Evrópu sem yrðu tíu sinnum stærri að umfangi en Icesave. Fjármálaeftirlitið á Íslandi verður að samþykkja nýja starfsemi af því tagi utan landsteina. Eftirávísindamenn gætu sagt að betra hefði verið með hliðsjón af því hvernig fór að beiðni um opnun útibús hefði verið hafnað og hugmyndinni ella a.m.k. verið beint í dótturfélag sem þá hefði lotið eftirliti hins erlenda gistiríkis. Eftiráspekingar eru vissulega leiðigjarnir fýrar og eiga ekki mikla virðingu en þeir gegna sínu hlutverki. Þeir voru allir til staðar meðan allt þetta fór fram og sögðu þá ekkert en sungu flestir með, þótt þeir hafi síðar reynt að ljúga sig út úr því og þeirra bakraddir með að vitna þó ekki væri nema í eina og eina óljósa setningu eftir viðkomandi á stangli í fjórblöðungi ef ekki vill betur. Setningin sú sem ekki nokkur maður kannast við að hafa séð er svo undirstrikuð og sagt: „Betra hefði nú verið ef einhver hefði hlustað á þessar samfelldu viðvaranir!“ En þessir litlu karlar skiptu ekki máli við rás atburðanna og eru brjóstumkennanlegir í sjálfsupphafningunni eftir þá.

Varfærin netreikningavæðing ekki endilega slæm

Enda var það svo að netreikningar af þessu tagi, þar sem heildarfjárhæð hefði verið stillt í hóf, voru í sjálfu sér hagstæðir að því leyti að fleiri stoðum en skammtímaskuldabréfalánum einum væri því komið undir útlánastarfsemina. En „hófsemd“ hafði með öllu verið þurrkuð út úr tölvukerfi hinna nýju ofurbanka á Íslandi. Nú er það svo að breskir innlánendur hafa búið við bankalegt öryggi um langa hríð. Þeir hafa því leitað eftir skammtímaávöxtun af miklum áhuga og iðulega látið tiltölulega lítinn vaxtamun ráða mestu um hvar þeir geyma fé sitt til skamms tíma. Virtist þeim nokkuð sama þótt tiltölulega óþekktir aðilar, jafnvel með framandi nöfn, stæðu á bak við slík tilboð. Icesave var í efstu lögum tilboða um góð vaxtakjör, þótt ekki væru þau endilega ætíð í allra hæstum hæðum, en jafnan nálægt því. Stjórnendur Landsbankans sögðust aðspurðir gera sér grein fyrir hættunni af „áhlaupi“ á reikninga af þessu tagi, en þeir væru jafnt og þétt að vinna í því að binda hinar laflausu innistæður til nokkurra mánaða og jafnvel árs og jafnframt hreyktu þeir sér af því að flytja féð alls ekki heim og endurlána aðeins lítinn hluta þess til langtímaverkefna. Hið fyrra var út af fyrir sig jákvætt og efnislega rétt en hitt reyndist ósatt með öllu. Og fyrirheit um að breyta útibúi í dótturfélag brást, enda bankinn vísast ekki bær til þess vegna eignaskorts, eins og síðar kom í ljós.

Umhverfið breytist

Og umhverfi þessara reikninga átti eftir að breytast, sérstaklega eftir að gert var áhlaup á breskan banka svo mynduðust langar biðraðir. Bresk bankayfirvöld fylltust skelfingu, því þau vissu að ef þessi tilfinning gripi um sig meðal breskra eigenda almennt yrði ekki við neitt ráðið. Í hlut átti meðalstór banki, fimmti stærsti húsnæðislánabanki Bretlands. Englandsbanki dældi ótrúlegum peningum út úr hirslum sínum og prentsmiðjum til að halda bankanum gangandi og til að sannfæra sparifjáreigendur annars staðar í landinu um að nóg væri til handa öllum. Það tókst með slíkum ofuraðgerðum, sem sönnuðu þó í raun hið gagnstæða, að Seðlabankinn myndi ekki ráða við eitt né neitt ef slíkt áhlaup yrði gert á tvo til þrjá stærstu banka Bretlands. En sparifjáreigendur drógu sem betur fer skakka ályktun af atburðunum og ró færðist yfir. Af hverju er þetta rifjað upp nú þegar Icesave-draugarnir eru komnir af stað aftur undir þekktri leiðsögn? Jú, vegna þess að til þessara atburða og til hinnar skiljanlegu taugaveiklunar sem greip um sig meðal breskra stjórnmálamanna og bankamanna við áhlaupið á Northern Rock-bankann og það sem síðast gerðist með Lehmansbankann má rekja ákvarðanir Breta gagnvart Icesave. Þetta var martröð allra þessara manna, eins og fram hefur komið í viðtölum við þá. Öll þeirra viðleitni hlaut að miðast við að kæfa slíkan atburð í fæðingu, því þeim var nú orðið ljóst að ella yrði ekki við neitt ráðið. Þetta var ástæðan til að bresk yfirvöld ákváðu án samþykkis eða raunverulegs samráðs við íslensk yfirvöld, svo ekki sé minnst á íslenska skattgreiðendur, að „lána“ Íslendingum fyrir Icesave-innistæðunum, borga þær út og rukka þá svo síðar og beita til þess svívirðilegustu þvingunum. Bresk yfirvöld voru sannfærð um að ef milljón innistæðueigendur sætu eftir með sárt ennið vegna taps á innistæðum væri veruleg og raunveruleg hætta á að áhlaup yrði á hið almenna innistæðukerfi og það áhlaup kynni að verða óviðráðanlegt. Enginn munur yrði gerður á hvort um reikninga á ábyrgð lítt þekkts íslensks banka væri að ræða eða ekki. Þess vegna og aðeins þess vegna ákváðu Bretar að „lána“ Íslendingum óumbeðið fyrir Icesave-innistæðunum og ætluðu svo að sjá til hvort hægt væri að plata hinn hrædda og óveraldarvana eylending til að taka á sig skuldir sem hann hafði ekkert með að gera vegna ráðstafana sem bresk yfirvöld höfðu gripið einhliða til. Og þá glitti í áttunda undur veraldar. Á Íslandi situr kjarklausasta ríkisstjórn sem hér hefur setið í þá rúmu öld frá því að til heimastjórnar var stofnað. Hún var svo heillum horfin að hún fór að sannfæra sig um að það væri ekki aðeins rétt og skylt heldur beinlínis göfugt að íslenskir skattgreiðendur yrðu látnir burðast með í áratugi kröfur frá ríkissjóði Breta. Breskir innistæðueigendur sem vildu háa ávöxtun sparifjár og tóku því áhættu fram yfir öryggi, sem þeim stóð hvarvetna til boða, höfðu fengið sitt af ástæðum sem að framan var lýst. Samfylkingin hefur reyndar sín ógeðfelldu, óþjóðhollu sérsjónarmið um að allt sem hjálpar til að ýta þjóðinni inn í ESB sé réttlætanlegt, hversu illt sem það er og þungbært fólkinu í landinu. Leggja megi gjarnan tugi eða hundruð milljarða að ósekju á skattgreiðendur. Ástæðurnar eru tvær. Það kynni að gleðja ESB og fátækt og bugað Ísland er að mati Samfylkingar líklegra til að veita minni mótstöðu en ella í aðlögunarferli þess.

Sjálfstæðisflokkurinn: Icesave-samningar ólögmætir

Eftir Landsfund Sjálfstæðisflokksins er staða þess flokks á hinn bóginn alveg skýr eins og engum er betur ljóst en forystu hans. Þeir sem stóðu fyrir undirbúningi fundarins höfðu gert tillögu um að hafna bæri Icesave-samningunum af því að þeir væru ekki ásættanlegir. Í einni af meginályktunum landsfundarins var þessari loðmullu breytt og Icesave-samningunum var hafnað af því að ÞEIR VÆRU ÓLÖGMÆTIR.

Þjóðin sagði sitt og því skal ekki gleymt. Forsetinn mun vafalítið tryggja, ef Icesave-klyfjar verða samþykktar í þinginu, að málið gangi á ný til þjóðarinnar. Hin afgerandi afstaða sem tekin var af þjóðarinnar hálfu verður ekki sniðgengin.

Steingrímur J. er aftur tekinn til við að panta yfirlýsingar frá stórforstjórum, þ.ám. frá ríkisforstjóranum í Landsvirkjun. Sá setti ofan með undirlægjuhætti sínum. Forstjórinn vildi að þjóðin tæki á sig tugi eða hundruð milljarða svo hann gæti átt þægilegra spjall við erlenda bankamenn. Yfirlæti stórforstjóra í garð íslensku þjóðarinnar hefur lítið breyst frá 2007. Og kannski hafa slíkir ekki áttað sig á að virðing hennar fyrir slíkum er minni en hún var. Og framganga af þessu tagi er ekki líkleg til vegsauka. Síðan hefur Steingrímur J. sagst hafa verið að kynna „hagsmunaaðilum“ samninginn, „sem þó er ekki til“, en hvorki þingi né þjóð. Hann gerði þetta líka síðast með sama hætti. Upplýst hefur verið að „hagsmunaaðilarnir“ eru atvinnulífssamlokurnar Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson. Eru þeir „hagsmunaaðilarnir?“ Ætla þeir að borga brúsann? Nú er sagt að samningurinn sem enginn má sjá nema Gylfi og Villi sé miklu betri en gamli samningurinn. Er Steingrímur J. búinn að gleyma að þeir félagar voru yfir sig hrifnir af gamla „vonda“ samningnum, enda hafa þeir ekki lengi glitt í Ísland fyrir ESB-ákefð, og heimtuðu báðir að þjóðin axlaði byrðarnar möglunarlaust og fordæmdu hástöfum að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hann. Þjóðin sýndi með afgerandi hætti hvernig hún metur ráð þessara snillinga. Nei, eini hagsmunaaðilinn er þjóðin sjálf.

Ögmundur Jónasson sagði að þjóðin yrði að skilja að hann og ríkisstjórnin gætu alls ekki fundið rúmar 300 milljónir króna til að sjá fyrir boðlegri löggæslu í landinu sem hann ber þó ábyrgð á að sé trygg. En Steingrímur J. segist á sama tíma auðveldlega geta fundið fé handa Bretum sem er að minnsta kosti 200-föld sú upphæð sem Ögmund vantar í lögregluna. Hvers konar skrípakarlar eru þetta?