Gróðurinn hefur í raun vaxið með íbúunum, segir Jóhannes Ingi Davíðsson sem býr við Viðarrima í Grafarvogi.
Gróðurinn hefur í raun vaxið með íbúunum, segir Jóhannes Ingi Davíðsson sem býr við Viðarrima í Grafarvogi. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á korti séð er Viðarrimi í Grafarvogi ekki ólíkur stórum trjábol sem af eru sprottnar gildar greinar og hver anginn út frá þeim.

Á korti séð er Viðarrimi í Grafarvogi ekki ólíkur stórum trjábol sem af eru sprottnar gildar greinar og hver anginn út frá þeim. Þetta er ein af þessum rólegu og fallegu íbúðagötum í Grafarvogshverfi sem fyrir löngu er orðið fullbyggt og einn af fjölmennustu hlutum borgarinnar. Um 25 ár eru liðin frá því fyrstu húsin í Grafarvogsbyggðum voru reist en það var árið 1993 sem hjónin Helga Jóhannesdóttir og Jóhannes Ingi Davíðsson hófu framkvæmdir í hverfinu.

„Við erum meðal frumbyggja hér í Viðarrima. Lóðinni fengum við úthlutað vorið 1993 og það var á mildu maíkvöldi, þegar heyra mátti vorfuglana syngja í móunum hér, sem við Helga renndum hingað upp eftir og tókum fyrstu skóflustunguna. Vildum hafa þetta formlegt eins og þegar reisa skal stórbyggingar. Svo hófust framkvæmdir. Aftur minnti þetta á fuglana – enda er það að reisa sér og sínum hús nokkurskonar hreiðurgerð,“ segir Jóhannes Ingi sem er áskriftastjóri sjónvarpsstöðvarinnar Skjásins.

Út frá stofngötu skiptist Viðarrimi í tvær kvíslar og út frá þeim eru litlir botnlangar. Við hvern þeirra standa að jafnaði fjögur hús. „Það eru ekki mikil samskipti milli fólks hér í götunni, eins og tíðkast víða, til dæmis þar sem haldin eru götugrill eða aðrar slíkar samkomur. En þeim mun meiri eru samskiptin milli fólks í hverjum botnlanga um sig. Við þessi fernu hjón sem erum í þessum nærliggjandi húsum erum öll ágætt vinafólk og höfum með okkur það sem nú heitir nágrannavarsla. Fylgjumst hvert með annars húsum ef einhver bregður sér af bæ. Allt slíkt veitir mikið öryggi,“ segir Jóhannes Ingi.

Að margra mati er Grafarvogur býsna vel skipulagt hverfi. Meginæðarnar eru býsna skýrar og greiðfærar og sömuleiðis íbúðagöturnar sem liggja út frá þeim. Sama má segja um þær skemmtilegu gönguleiðir liggja um og í kringum hverfið. Þá er þjónustu býsna vel fyrir komið þar sem fyrirtæki og verslanir í Spönginni eru líkastar hjartanu í líkama hverfisins. „Hér er öllu afar vel fyrir komið og það styrkir Grafarvoginn mjög, fyrir svo utan að hér er stutt hvert sem halda skal; niður í bæ, upp í Breiðholt eða bara nefndu það. Ég er bara níu mínútur niður í Skipholt þar sem ég vinn.“

Eins og Íslendinga er háttur stússaði Jóhannes Ingi í ýmsu sjálfur þegar þau hjónin reistu húsið við Viðarrima. „Mér fannst gaman að þessu brasi, hvort sem það var að setja upp veggi, mála, setja hurðir í dyr, flísaleggja og svo mætti áfram telja. Og auðvitað sparaði maður heilmikinn pening með þessu. Það tók níu mánuði að reisa húsið og þegar við fluttum hingað inn snemma árs 1994 var ýmsu ólokið sem kom í fyllingu tímans. „Við ljúkum þessu fyrir jól,“ er stundum sagt og fyrstu jólin hér var flest hér komið í það horf sem vera skyldi. Og þegar árunum fjölgar verður þetta hverfi enn ljúfara og betra að vera hér. Þegar við tókum ákvörðun um að flytja í Grafarvoginn á sínum tíma þá fannst mörgum við vera að flytja út úr byggð en nú erum við ágætlega miðsvæðis. Og í upphafi var berangurslegt hérna en eftir því sem trén vaxa mynda þau betra skjól fyrir norðangolunni og í gróðursældinni er gott að vera. Þannig hefur gróðurinn í raun vaxið með íbúunum og það eru ekki lítil hlunnindi,“ segir Jóhannes.

sbs@mbl.is

Uppáhaldsstaðir

1. Grafarvogurinn er afar vel hugsaður með tilliti til útiveru. Hér liggja skemmtilegar og vel skipulagðar gönguleiðir nánast til allra átta. Sjálfum finnst mér gaman að ganga hér aðeins til vesturs og yfir Strandveginn þar sem listaverkum margskonar hefur verið komið upp. Þar er frábært útsýni yfir Gufunesið og raunar allan Faxaflóann. Á þeim slóðum hef ég oft staðið og fylgst með blóðrauðu sólarlagi; þar sem sólin sest við Snæfellsjökul. Útsýnið verður ekki mikið fallegra og ég hvet fólk til að skoða sólarlagið frá þessum stað.

2. Geldinganes er falinn og sérstæður staður. Nesið er líkast eyju sem tengist fastalandinu með mjóu eiði sem er landfast skammt neðan við Borgahverfi. Það er gaman að ganga um nesið sem er fallega gróið og ekki spillir fallegt útsýnið; upp til fjalla og út yfir flóa. Þá eru í Nesinu minjar um mikið grjótnám sem þar hófst fyrir nokkrum árum en var svo hætt við.