Sl. þriðjudag birtist frétt hér í Morgunblaðinu þess efnis að Öryrkjabandalag Íslands hefði látið vinna skýrslu um hagi og lífskjör öryrkja. Skýrsluhöfundur er Guðrún Hannesdóttir.

Sl. þriðjudag birtist frétt hér í Morgunblaðinu þess efnis að Öryrkjabandalag Íslands hefði látið vinna skýrslu um hagi og lífskjör öryrkja. Skýrsluhöfundur er Guðrún Hannesdóttir. Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að skýrslan yrði mikilvægt tæki við stefnumótun í framtíðinni. Í skýrslunni kemur fram að öryrkjar finni fyrir fordómum í sinn garð og þeir hafi minni menntun en almennt gerist.

Hvaða þegnar þjóðfélagsins eru það sem við köllum öryrkja? Það er fólk sem á við margvísleg veikindi að stríða og vegna þeirra nýtur það ákveðinna réttinda í samfélaginu. Hvers vegna höfum við kosið að gefa þessum þjóðfélagshópi samheitið öryrkjar? Sá sem býr við fötlun vegna geðrænna sjúkdóma nýtur ákveðinna réttinda, sem er sjálfsagt. Sá sem býr við fötlun vegna stoðkerfisvandamála nýtur ákveðinna réttinda. Sá sem hefur lamast nýtur ákveðinna réttinda.

Af hverju höfum við ákveðið að safna fólki sem á við margvísleg veikindavandamál að stríða saman í einn hóp og ákveðið að það skuli kallast „öryrkjar“? Við vitum að fordómar fylgja þessari orðanotkun. Við vitum að þessu orði fylgir ákveðinn stimpill. Við vitum að jafnvel þeir einstaklingar sem hafa verið úrskurðaðir „öryrkjar“ upplifa þann úrskurð sem ákveðna flokkun í samfélaginu. Og ekki batnar það þegar umræður hefjast um hvers vegna svo og svo margir fylli hóp „öryrkja“ á Íslandi og hvernig hægt sé að fækka þeim.

Þegar hvítir menn stjórnuðu Suður-Afríku fylgdu þeir svokallaðri aðskilnaðarstefnu sem byggðist á aðskilnaði fólks eftir litarhætti. Aðskilnaðarstefnu eftir litarhætti var líka fylgt í Bandaríkjunum fram yfir 1960. Það var morðið á John F. Kennedy sem átti mestan þátt í að Lyndon B. Johnson kom í gegnum Bandaríkjaþing gjörbreyttri stefnu. Þjóðir heims fordæmdu aðskilnaðarstefnu hvítra manna í Suður-Afríku.

Að skipta Íslendingum upp í hópa og segja að sumir þeirra séu „öryrkjar“ er eins konar aðskilnaðarstefna. Það er verið að gera upp á milli fólks, flokka það á grundvelli sjúkdóma og gefa í skyn að þeir sem teljist öryrkjar séu einskis nýtir þjóðfélagsþegnar og byrði á samfélaginu. Við eigum að leggja þessa aðskilnaðarstefnu niður, hætta þessari flokkun og þurrka þetta orð út.

Við höfum byggt upp velferðarkerfi sem byggist m.a. á því að tilteknir þjóðfélagshópar njóti ákveðinna réttinda umfram aðra. Það er hægt að deila um ýmsa þætti þess. Sumir eru t.d. þeirrar skoðunar að allir þeir sem komnir eru á ákveðinn aldur eigi að fá sama grunnlífeyri úr tryggingakerfinu. Ég er ósammála því sjónarmiði. Mér finnst eðlilegt að þeir sem geta séð um sig sjálfir geri það en lífeyrir sé þá þeim mun hærri fyrir þá sem á því þurfa að halda. En grundvallaratriðið, sem langflestir Íslendingar eru sammála um, er að þeir sem á þurfa að halda vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum eigi að njóta tiltekinna réttinda.

Það er hægt að tryggja einstaklingum þessi réttindi án þess að skipa þeim í einhvern afmarkaðan þjóðfélagshóp sem hefur verið gefið samheiti sem kallar á fordóma.

Og þetta snýst ekki bara um fordóma annarra í garð þessara þjóðfélagshópa heldur líka um fordóma þeirra gagnvart sjálfum sér. Eitt sinn kom til mín blaðamaður sem hafði reynst frábærlega í starfi og bjó yfir yfirburðaþekkingu á ákveðnu sviði, þekkingu sem var Morgunblaðinu mjög til framdráttar. Þessi blaðamaður kvaðst vilja láta mig vita af því að hann væri öryrki. „Af hverju viltu láta mig vita af því,“ spurði ég. „Mér finnst bara eðlilegt að þú vitir það,“ var svarið. Úrskurður um örorku skipti engu máli um hæfni þessa blaðamanns. Hann var jafnmikilvægur starfsmaður eftir sem áður.

Í annað skipti kom til mín blaðamaður sem hafði þurft að leggjast inn á geðdeild og vildi segja mér frá því. „Ég vissi ekki að þú hefðir átt við slíkan vanda að stríða,“ svaraði ég. „Nei,“ sagði blaðamaðurinn, „ég vildi ekki segja ykkur frá því. Hélt ég yrði rekinn.“ Mér brá mjög. Var það virkilega svo að við værum ekki komin lengra á þessari braut? Voru fordómar gagnvart geðsjúkum og fordómar gagnvart eigin sjúkdómi enn svona miklir?

Það er kominn tími til að bylta þessu kerfi og þeirri hugsun sem á bak við það liggur. Hverfa frá þeirri grundvallarstefnu að flokka fólk eftir því hvort það á við alvarlega sjúkdóma að stríða eða ekki. Þeir sem nú teljast „öryrkjar“ og samtök þeirra eru í stöðugri vörn í þjóðfélagsumræðum. Þeir þurfa alltaf að vera að verja sjálfa sig og réttlæta stöðu sína. Viljum við búa í samfélagi þar sem veikur einstaklingur þarf að réttlæta stöðu sína?

Sá sem er fullfrískur í dag getur verið kominn í hjólastól á morgun. Það er því miður veruleikinn í lífi okkar. Þetta samfélag á ekki að vera spurning um okkur og þá. Grundvöllur þess á ekki að vera sá að einhverjir hópar í samfélaginu hafi tilhneigingu til að líta þá hornauga sem hafa orðið fyrir þeirri þungu raun að verða alvarlega veikir.

Við skulum hverfa frá þessari aðskilnaðarstefnu og orðanotkun. Það er mikið talað um jafnrétti. Það orð snýst ekki bara um jafnrétti kynja. Það snýst líka um jafnrétti milli hinna frísku og þeirra sem eru sjúkir.

Við mundum búa í betra samfélagi á eftir.