Das Racist: Himanshu Suri, Victor Vazquez og Ashok Kondabolu.
Das Racist: Himanshu Suri, Victor Vazquez og Ashok Kondabolu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rapptvíeykið Das Racist hefur vakið mika athygli á árinu fyrir rímur sem snúa flestu á haus og þá ekki síst viðteknum skoðunum á hiphopi. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Það vakti athygli margra þegar blaðamaðurinn Sasha Frere-Jones hélt því fram í lærðri grein í New Yorker að hiphop væri dautt, búið að syngja (rapp) sitt síðasta. (Reyndar segir hann að í raun megi segja að hiphop hafi gefið upp öndina á síðasta ári og það sé ekki lengur vettvangur fyrir framúrstefnu og tilraunamennsku – hiphop sé eins og hver önnur andlitslaus danstónlist, evrópsk klúbbatónlist.

Nú er það svo að þeir sem kveða upp slíka dóma eru oftar en ekki alveg með á nótunum, hafa dottið úr sambandi ef svo má segja, eða kunna ekki að meta það að tónlistar- eða liststefna sem þeir höfðu dálæti á skuli breytast og umhverfast. Einn helsti kosturinn við hiphop er hinsvegar áþekkur og það sem gerir rokkið skemmtilegt – það er sífellt að breytast, nýjar stefnur koma til og nýir straumar, formið endurnýjast.

Ekki bara bleiknefjar

Fyrir áratug eða svo kvöddu bleiknefjar sér hljóðs vestan hafs og horfðu innávið í rímum, í stað þess að kveða um byssur, hórur og gull tóku þeir fyrir tilvistarkreppu, mannleg samskipti og tilgangsleysi alls. Þar voru á ferð hvít miðstéttarungmenni, en talsmenn nýrra tíma í hiphopi eru ættaðir frá Suður-Ameríku, Indlandi, Kína, Kóreu og svo má telja – allt Amríkanar en líta heiminn mismunandi augum. Gott dæmi um það er rappsveitin Das Racist sem hefur vakið mikla athygli vestan hafs á árinu og gefið út tvær breiðskífur.

Das Racist varð til er þeir Himanshu „Heems“ Suri og Victor „Kool A.D“ Vazquez hittust í háskóla í Middletown í Connecticut, en það var býsna langt á milli þeirra í uppvextinum, Suri frá New York en Vazquez frá San Francisco. Rímur og taktur eru frá þeim en á tónleikum leggur þeim lið Ashok „Dap“ Kondabolu.

Þeir félagar hafa starfað saman í nokkur ár en slógu í gegn með laginu Combination Pizza Hut and Taco Bell fyrir tveimur árum. Á þessu ári komu svo út með þeim tvær skífur, í mars kom Shut Up, Dude út og í september Sit Down, Man . Á plötunum er ýmislegt í gangi, tónlist og flutningur óreiðukennd, en textarnir mergjaðar rímur sem kjamsa á bandarískri dægurmenningu og jórtra saman við heimspekilegar pælingar, bókmenntalegar tilvísanir og listfræðilega fimleika. Magnað.

Að lokum er svo vert að geta þess að þeir Vazquez og Suri skrifuðu lærða grein fyrir vefmiðilinn Flavorpill.com þar sem þeir snýttu Sasha Frere-Jones fyrir þekkingarskort, fordóma og almennan bjánagang í greininni sem getið er í upphafi.

Skrípóstríð

Farley Katz gerði grín að Das Racist í skrípamynd í tímaritinu New Yorker og Victor Vazquez skoraði á Katz í teiknimyndakeppni sem var svo háð á síðum New Yorker. Árangur keppninnar má sjá á vefsetri blaðsins, en tímaritið Village Voice lét þau orð falla að Vazquez hefði valtað yfir Katz.