Alltaf jafnvinsæl: Daniel Radcliffe, Emma Watson og Rupert Grint.
Alltaf jafnvinsæl: Daniel Radcliffe, Emma Watson og Rupert Grint. — Reuters
Framundan eru tvö fengsæl ár í þeirri botnlausu gullnámu sem kennd er við Harry Potter, ár Harrys Potters og dauðadjásnanna, hluta I. og II., lokakafla myndabálks sem verður þar með sá langvinsælasti í allri kvikmyndasögunni. Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@heimsnet.is

Fyrsti áratugur nýrrar þúsaldar er svo gott sem brennimerktur Harry Potter-æðinu. Bækurnar höfðu farið sem logi um akur þegar skáldkonan seldi kvikmyndaréttinn fyrir himinháar upphæðir og kaupandinn var í engum vandræðum með að snara upphæðinni á borðið. David Heyman var þá þegar þekktur sem sjónvarpsþátta- og kvikmyndaframleiðandi en hann hefur lítið getað sinnt öðrum verkefnum en bálknum um Harry síðasta áratuginn. Þó hafði hann tíma til að senda frá sér kassastykkið I am Legend.

Harry Potter and the Sorcerer's Stone (´01) var fyrsta myndin í flokknum og voru viðtökurnar stórfenglegar. Hún var vissulega forseld, tugmilljónir eitilharðra Potter-aðdáenda var að finna í öllum heimshornum, mestmegnis unglingar og ungt fólk sem var gjörsamlega heillum horfið í dularfullan og ógnvekjandi heim bókanna.

Í fyrstu myndinni var Harry Potter ósköp venjulegur, munaðarlaus 11 ára gamall, glereygður patti, í hálfgerðri ánauð hjá frændfólki sínu. Það kemst að því að drengurinn býr yfir töframætti og hefur verið ætlað að nema við Hogwarts, galdraskólann víðfræga sem eingöngu er ætlaður útvöldum með yfirnáttúrlega galdrahæfileika. Hogwarts er harður og hættulegur heimur þar sem takast á ill og góð öfl, þau átök eru rauði þráðurinn í bóka/kvikmyndabálknum og persónurnar, sem eru fjölmargar og litríkar, heyra undantekningarlítið til annarrar hvorrar fylkingarinnar.

Harry er bjargað úr höndum hyskisins, frændmenna sinna, af Hagrid, starfsmanni skólans og innan skamms er hann kominn til náms í furðuveröld, gjörsamlega framandi jafnt nýliðunum sem áhorfendunum. Harry á auðvelt með að eignast vini innan skólaveggjanna, einkum umgengst hann þau Hermione og Ron, sem eru ein fárra sem er treystandi í hópi nemendanna.

Töfrar bókanna eru m.a. faldir í skýrri og skrautlegri persónusköpun og hún er einnig aðal myndanna. Þeim hefur verið stýrt af góðum fagmönnum og þeir sem ráða í hlutverkin hafa jafnan farið á kostum. Ungu leikararnir í aðalhlutverkum nemendanna, þau Radcliffe, Emma Watson og Rupert Glint, hafa farið með þau frá upphafi og elst að auki mjög ásættanlega. Aukahlutverkin eru mörg fyrirferðarmikil og hafa jafnan verið skipuð stórmennum úr fylkingarbrjósti breskrar leikarastéttar. Í fyrstu myndinni léku t.d. Richard Harris, Maggie Smith, Robbie Coltrane, Richard Griffiths og John Hurt, í þeirri nýjustu má sjá Helenu Bonham Carter, Ralph Fiennes, Alan Rickman, Bill Nighy, Michael Gambon, Brendan Gleeson og Rhys Ifans.

Í Harry Potter og dauðadjásnunum er fylgst með þremenningunum og félögum þeirra í baráttunni við Voldemort (Fiennes), og hin illu öfl sem fylgja honum og stefna að því að ná algerri stjórn yfir galdraheiminum. Vald Voldemorts fer sívaxandi og er hann búinn að koma ár sinni vel fyrir borð í stjórn skólans og nemendaráðum.

Þau Harry, Hermione og Ron hafa ákveðið að snúa ekki aftur til skólans en halda út í heim í leit að helkrossum til að geta haft roð við þrælmenninu Voldemort. Það er lítil von fyrir þremenningana, þar sem galdraheimurinn fer smám saman að láta algjörlega að vilja hins illa. Því er mikilvægara en nokkurn tíma áður að allt sem þau taki sér fyrir hendur gangi fullkomlega upp, en verkefni þeirra er mesta þrekraun sem galdramaður hefur nokkurn tíma tekið sér fyrir hendur...

Meira fáum við ekki að sjá og vita fyrr en í lokauppgjörinu sem fer fram í öðrum hluta myndarinnar sem verður frumsýnd að ári. Sá sem leikstýrir myndinni Harry Potter og dauðadjásnin er David Yates, en hann hefur nú leikstýrt helmingi myndabálksins.

Potter-bálkurinn

Sex fyrstu myndunum er raðað eftir vinsældum, sú mest sótta efst og síðan koll af kolli.

1 Harry Potter and the Sorcerer's Stone – Harry Potter og viskusteinninn 2001

2 Harry Potter and the Half-Blood Prince – Harry Potter og blendingsprinsinn 2009

3 Harry Potter and the Order of the Phoenix – Harry Potter og Fönixreglan 2007

4 Harry Potter and the Goblet of Fire – Harry Potter og eldbikarinn 2005

5 Harry Potter and the Chamber of Secrets – Harry Potter og leyniklefinn 2002

6 Harry Potter and the Prisoner of Azkaban – Harry Potter og fanginn í Azkaban 2004

7 Harry Potter and the Deathly Hallows Part 1 – Harry Potter og dauðadjásnin Hluti 1 2010

8 Harry Potter and the Deathly Hallows Part 2 – Harry Potter og dauðadjásnin Hluti 2 2011