Það vantar ekki snjó í Snjóblindu, nýja bók Ragnars Jónassonar.
Það vantar ekki snjó í Snjóblindu, nýja bók Ragnars Jónassonar. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ragnar Jónasson. Veröld gefur út 2010. 286 bls.

Formaður Leikfélagsins á Siglufirði deyr á dularfullan hátt í leikhúsinu föstudaginn 9. janúar 2009, daginn fyrir frumsýningu, og miðvikudaginn 14. janúar finnst eiginkona eins leikarans háflnakin nær dauða en lífi í snjónum skammt frá húsi sínu. Sex dögum síðar hefur ungur og óreyndur lögreglumaður, aðkomumaður, leyst málið nánast einn og óstuddur og laugardaginn 24. janúar, að lokinni frumsýningu, sem hafði verið frestað vegna aðstæðna, lýkur málinu og sögunni með handtöku.

Þetta er í stuttu máli söguþráður glæpasögunnar Snjóblindu . Kunnuglegur rammi. Morð í afskekktum smábæ úti á landi og utanaðkomandi leysir gátuna.

Glæpasögur virðast njóta mikilla vinsælda um þessar mundir og því kemur ekki á óvart að margir reyni fyrir sér á þessu sviði. Það er vel en ekki er auðvelt að finna réttu formúluna að slíkum skrifum og enginn verður óbarinn biskup. Arnaldur Indriðason og Árni Þórarinsson hafa til dæmis í nýjustu bókum sínum sýnt hvers þeir eru megnugir en Ragnar Jónasson er töluvert neðar í stiganum.

Í sakamálasögum hafa lögreglumennirnir gjarnan einhverja reynslu en Ari, lögreglumaður Ragnars, er „blautur á bak við eyrun“, 24 ára nemandi á síðustu önn í Lögregluskólanum, þegar hann heldur norður, eftir að hafa gefist upp í heimspeki og síðan guðfræði áður en hann fór í Lögregluskólann. Strax í byrjun kemur þroski hans í ljós og samskipti eða öllu heldur samskiptaleysi hans við kærustuna sýna að hann á ýmislegt ólært. Reyndar er mikið gert úr 24 ára aldri fólks í sögunni en þessi tenging við aldurinn missir gersamlega marks.

Eftir að Ari hefur sannreynt tilgátu sína um lausn málsins líður nokkur tími þar til lesandinn er upplýstur um hvað pilturinn er að hugsa. Hugmyndin er væntanlega að auka spennuna en ég er ekki viss um að sú hugsun gangi upp. Það vantar meira kjöt á beinið.

En það vantar ekki snjó. Það snjóar og snjóar, það er þykkur snjór yfir bænum, dumbungur og él, mikill snjór í fjöllum, bálhvasst, stingandi frost og snjókoma. Ari þarf að arka í gegnum snjóskaflana, snjókornin eru þykk og erfitt að halda augunum opnum í storminum. Það snjóar enn, það er hríðarbylur, snjór um allt, snjókornin þétt og þykk. Það snjóar án afláts, skaflar upp að hnjám, blindhríð á leiðinni, stórhríð. Skyggni lítið sem ekkert, skaflarnir hlaðast upp, skæðadrífa, snjóflóð hinum megin við fjöllin, aukinn bylur, snjóskafl við dyrnar. Það snjóar og snjóar, Ari veður út í snjóinn, yfir skaflana og í gegnum stórhríðina. Snjórinn nær svo hámarki sínu í Snjólaugu sem eðlilega fær sjaldan gesti, en frekar neyðarlegt er að sjá tvo kafla byrja nákvæmlega eins, þó það sé vafalaust ákveðið stílbragð: „Þykkur snjór huldi Ráðhústorgið að morgni mánudagsins, klukkan var ekki orðin sjö.“

Steinþór Guðbjartsson