Það var vel við hæfi að kransakaka væri í boði í útgáfuhófi Sigurbjargar Þrastardóttur í Hljómskálanum á fimmtudagskvöld en ljóðabók hennar heitir Brúður og er ákveðið brúðarþema í bókinni.
Það var vel við hæfi að kransakaka væri í boði í útgáfuhófi Sigurbjargar Þrastardóttur í Hljómskálanum á fimmtudagskvöld en ljóðabók hennar heitir Brúður og er ákveðið brúðarþema í bókinni. — Morgunblaðið/Eggert
10.18 Vaknaði með logandi höfuðverk. Ég verð að hætta að borða þetta súkkulaði. 10.22 Hugsaði: Hvað þarf ég nú aftur að gera í dag? Halda boð. Fínt. Rúlla því upp. (En svo voru það auðvitað endalaus hamingjuhlaup um allan bæ.) 10.

10.18 Vaknaði með logandi höfuðverk. Ég verð að hætta að borða þetta súkkulaði.

10.22 Hugsaði: Hvað þarf ég nú aftur að gera í dag? Halda boð. Fínt. Rúlla því upp. (En svo voru það auðvitað endalaus hamingjuhlaup um allan bæ.)

10.31 Ari Páll Kristinsson hringdi og boðaði mig á þriðjudagsfund hjá Íslenskri málnefnd. Þegar aðalmenn geta ekki mætt stökkvum við varamenn til. Ari var kátur og kurteis – ég sagði takk og burstaði tennurnar.

13.10 Undirbjó Hljómskálann, ryksugaði og raðaði kertum. Tjörnin var svo falleg að umferðin leystist í sundur.

14.00 Flaug í hug að höfuðverkurinn væri ekki eftir sykursukk heldur áþján eldhússtarfa. Hafði sett krem og súkkulaði á þrjú hundruð og eitthvað sörur daginn áður. Sörur fyrir boðið. Með fjölskylduhjálp, samt.

14.25 Stödd á skyndibitastað til að halda í mér líftórunni. Svaraði í símann, þar kynnti sig hæglátur þýðandi, Steingrímur Karl Teague, sem er að snúa yfir á ensku texta mínum í alþjóðlega ljósmyndabók. Myndirnar í bókina taka fimm Pólverjar sem rannsökuðu íslenska lifnaðarhætti og eyðibýli í sumar, textann skrifa fimm íslenskir höfundar. Minn kafli er um vatn, og ljósmyndarinn minn heitir Agnieszka. Steingrímur skammaði mig góðlátlega fyrir of íslenska orðaleiki í textanum og ég lofaði að lesa allt yfir með honum. En það verður að vera á morgun, sagði ég.

15.22 „Smekkleysa, góðan dag,“ er svarað. „Já, góðan dag, eigið þið safndisk með heimsfrægum brúðkaupslögum, mjög mörgum? Ég þarf þetta fyrir partí.“ „Já, augnablik.“

16.00 Umferðin í borginni orðin seigfljótandi, hvernig kemst maður upp á Réttarháls að sækja glös, í Heiðrúnu að sækja freyðivín, í Grafarvog að sækja hálsmen og í Brautarholt að sækja mikilvæg skjöl fyrir klukkan fimm og á þá eftir að sækja kransakökuna til Hafliða í Mosfellsbakarí og finna réttan kjól og hafa sig til fyrir sitt eigið boð sem hefst hálfsex? Nú, maður sendir hægri höndina að sækja kransakökuna. Og mætir of seint í sitt eigið boð.

17.15 Nei, annars, mætti ekki of seint, bara á síðustu stundu. Mjög smart. Kærir vinir, foreldrar og aðrir úr innsta hring hella í glös og raða á bakka og stúlka mætir með stafla af bókinni minni sem heitir Brúður . Þess vegna er útgáfuboðið í Hljómskálanum, og þess vegna eru veitingarnar svona hátíðlegar. Það er brúðarkonseptið.

18.10 Mínir menn, Tómas Guðni Eggertsson og Davíð Þór Jónsson, leika brúðarmarsinn á tvær túbur við mikinn fögnuð. Það er engin tilviljun, í bókinni koma fyrir túbur í veislu og nú les ég upp á meðan allir smjatta á kransaköku.

18.23 Uppgötva að ég hef gleymt í litlu ræðunni minni að auglýsa aðventutónleikana sem við ætlum að endurtaka frá fyrra ári í Langholtskirkju – og nú líka í Reykholti.

Túbuleikararnir mínir munu þá að vísu leika á orgel og flygil, en við Björn Hlynur Haraldsson (í Langholtskirkju) og Egill Ólafsson (í Reykholti) skiptumst á að lesa jólatengd ljóð á milli. Tónlistin samanstendur af dásamlegum jólasálmforleikjum eftir J.S. Bach.

Sennilega var það Hlynur sem fann upp á nafninu eftirminnilega Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?!

19.00 Kransakökuboðið er stórkostlegt. Gott fólk, notalegt.

20.48 Með ævintýralegum hætti rata ég í hátíðarkvöldverð Seljasafnaðar, sem fagnar 30 ára afmæli sínu. Um leið og byggingarsagan er rakin sannast sem fyrr að allt sem er byggt grundvallast á góðu fólki.

03.00 Alls ekki farin að sofa, brúðarbókarpartíið tók sig upp aftur...