Marc Albrighton fagnar marki sínu gegn Manchester United.
Marc Albrighton fagnar marki sínu gegn Manchester United. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rio Ferdinand og Nemanja Vidic´´ unnu upp á akkorð á Villa Park um liðna helgi, alltént kollarnir á þeim. Öðrum eins loftárásum hafa þeir vösku miðverðir ekki orðið fyrir í annan tíma. Tuðrunum rigndi yfir þá.

Rio Ferdinand og Nemanja Vidic´´ unnu upp á akkorð á Villa Park um liðna helgi, alltént kollarnir á þeim. Öðrum eins loftárásum hafa þeir vösku miðverðir ekki orðið fyrir í annan tíma. Tuðrunum rigndi yfir þá. Út við hliðarlínu rembdust Patrice Evra og Wes Brown eins og rjúpan forðum en allt kom fyrir ekki, þeir höfðu ekki roð við útherjum Aston Villa, Stewart Downing og Marc Albrighton, sem gengu fram hjá þeim eins og þeir væru ekki til staðar. Greinarhöfundur man hreinlega ekki eftir að hafa séð annan eins fjölda hágæðafyrirgjafa í einum og sama knattspyrnuleiknum. Og hefur hann þó ýmislegt séð.

Verst að norska tröllið, John Carew, var fjarri góðu gamni. Það hefur örugglega brunnið í skallanum, þar sem það sat lemstrað uppi í stúku. Carew hefði örugglega verið kominn með þrennu í leikhléi hefði hann verið inni á vellinum og Emile gamli Heskey jafnvel eitt, hugsanlega eitt og hálft.

Með allri virðingu fyrir Ashley Young og Gabriel Agbonlahor – þeir eru flinkir á jörðinni – þá eru þeir engir skallamenn. Því fór sem fór. Í stað þess að rúlla Manchester United upp mátti Villa þakka fyrir stigið í lokin. Eftir að hafa verið spilað út af grasinu í áttatíu mínútur vaknaði stórveldið af værum blundi og jafnaði leikinn, 2:2. Sá viðsnúningur skrifast öðrum þræði á reynsluleysi Villaliðsins en aragrúi leikmanna var frá vegna meiðsla. Ungmenni á borð við Barry Bannan og Jonathan Hogg eiga þó augljóslega framtíðina fyrir sér.

Útherjuðu á bakverðina

Stjörnur dagsins voru útherjarnir. Áhöld eru um hvort Stewart Downing hafi nokkru sinni leikið betur. Aumingja Wes Brown hefur örugglega þurft leiðsögn út í rútu eftir leikinn, svo grátt var kappinn leikinn. Hægri, vinstri, Downing fór áreynslulaust beggja vegna við hann. Svei mér ef hann hljóp ekki hreinlega í gegnum Brown þegar mestur völlur var á honum í seinni hálfleik.

Downing, sem er 26 ára, hefur leikið á þriðja tug landsleikja fyrir England undanfarin fimm ár án þess að landsmenn hafi yfir höfuð óskað eftir nærveru hans. Hann er einn af fjölmörgum útherjum sem notaðir hafa verið í hallæri í landsliðinu bara vegna þess að hörgull hefur verið á örvfætlum. Ef marka má framgöngu Downings um liðna helgi er hann mögulega að snúa við blaðinu.

Marc Albrighton, sem varð 21 árs í vikunni, hefur komið eins og stormsveipur inn í lið Aston Villa á þessum vetri en hann hefur verið hjá félaginu frá átta ára aldri. Hann lagði upp tvö mörk í fyrsta leik sparktíðarinnar gegn West Ham United og hefur eflst við hverja raun síðan. Markið gegn Manchester United var hans þriðja í vetur en það myndi sóma sér vel í kennslumyndbandi um skyndisóknir. Upphlaupið var óaðfinnanlegt. Young á Downing, Downing á Albrighton. Mark. Knattspyrna í sinni einföldustu og fallegustu mynd. Vörnin snerist um sjálfa sig. Fabio Capello hlýtur að hafa tárast, þetta eru allt Englendingar.

Patrice Evra, einn besti bakvörður heims, leit út eins og nýgræðingur í glímu sinni við Albrighton og víða hafa menn ugglaust tekið glósur. Skyldi Stóri-Sam eiga einhver svör um helgina?

Rauða herdeildin

Gérard Houllier, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool og Lyon, heldur nú um stjórnartaumana á Villa Park. Hann er orðinn 63 ára en eldur virðist enn brenna í augum. Aðstoðarmaður Houlliers, Gary McAllister, er Rauða hernum líka að góðu kunnur. Lék þar við orðstír á efri sparkárum.

Getur ekki beðið eftir að spila með Villa

Downing og Albrighton fengu óvænta samkeppni í vikunni þegar gamla kempan Robert Pires skrifaði undir samning við Aston Villa til vors. Pires, sem orðinn er 37 ára, lék síðast með Villarreal á Spáni en var leystur undan samningi þar í sumar. Illa gekk að finna nýtt félag og Frakkinn hefur æft með sínum gömlu félögum í Arsenal að undanförnu. Þegar Villa kom inn í myndina þurfti Pires ekki að hugsa sig um tvisvar. „Ég er í skýjunum með þennan samning enda er Aston Villa stórt félag á enskan mælikvarða,“ sagði hann við undirskriftina. „Ég hlakka líka til að vinna með Gérard Houllier. Við þekkjumst frá gamalli tíð. Þetta er nýtt tækifæri fyrir mig og ég get ekki beðið eftir að skrýðast búningi Villa.“

Mögulega gerist það strax á sunnudag en Pires er í leikmannahópi Villa fyrir leikinn gegn Blackburn.

Gary McAllister, aðstoðarknattspyrnustjóri Villa, var líka kampakátur með nýja leikmanninn. „Hann er sigurvegari. Ég veit að margir segjast vera það í seinni tíð en Pires á medalíurnar til að staðfesta það. Hann er heims- og Evrópumeistari og var afburðamaður þegar hann lék með Arsenal. Ungu strákarnir okkar eiga eftir að læra margt af honum.“

Af öllum stærðum og gerðum

Margir merkir útherjar hafa klæðst búningi Aston Villa gegnum árin. Má þar nefna Tony Morley, sem varð Englandsmeistari með Villa 1981 og Evrópumeistari ári síðar.

Nafni hans Daley gerði garðinn frægan með liðinu frá 1985-94. Sprettharður og sprækur vængmaður sem mætti aldrei ógreiddur í leiki.

Margir muna líka eftir Mark Walters sem lék með Villa frá 1981-84. Síðar gekk hann í raðir Liverpool sem sætti tíðindum fyrir þær sakir að millinafn Walters er Everton!

Undarlegasti útherji sem Villa hefur teflt fram gegnum tíðina er án efa Ian Ormondroyd, sem var hjá félaginu fyrir um tuttugu árum, en hann var 201 sentimetri á hæð. Leikstíll Villa snerist þá um spyrnur frá Nigel Spink markverði á Ormondroyd sem skallaði boltann fyrir á David Platt, Alan McInally og Tony Cascarino. Kostulegt.