Hann kann ennþá rokktaktana.
Hann kann ennþá rokktaktana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Joey Tempest fór fyrir sænsku rokksveitinni Europe sem sló rækilega í gegn með laginu „The Final Countdown“ árið 1986.

Joey Tempest fór fyrir sænsku rokksveitinni Europe sem sló rækilega í gegn með laginu „The Final Countdown“ árið 1986. Þetta þekkta lag varð allra stærsti smellur sveitarinnar en lagið fór á toppinn í 26 löndum og seldist í alls átta milljónum eintaka. Lagið er ennþá töluvert spilað á diskótekum og ekki síður á kappleikjum og hefur heyrst í ófáum farsímum.

Fæddur Joakim Larsson

Nafnið er sviðsnafn en Joey fæddist Rolf Magnus Joakim Larsson í Stokkhólmi árið 1963. Áður en hann varð listamaðurinn Joey Tempest lærði Joakim Larsson litli á píanó og gítar. Eins og svo margir sænskir strákar spilaði hann fótbolta og íshokkí og keppti í gókarti og náði reyndar ágætisárangri í síðastnefndu íþróttinni sem unglingur.

Átta plötur með Europe og þrjár sólóplötur

Europe gaf út fimm plötur á árunum 1983-1991 en tók sér síðan hlé frá störfum. Tempest hefur aldeilis ekki setið á rassinum síðan „The Final Countdown“ kom út. Hann hefur gefið út þrjár sólóplötur, A Place to Call Home (1995), Azalea Place (1997) og Joey Tempest (2002).

Gamla rokksveitin hans tók til starfa á ný árið 2004 og sendi frá sér plötuna Start from the Dark . Secret Society fylgdi á eftir 2006 og loks gaf Europe út Last Look at Eden í fyrra.

Þótt það sé vissulega blessun fyrir hljómsveit að eignast stórsmell getur það líka háð henni. Það er ekki skrifað um nýja plötu frá sveitinni nema rætt sé um umrætt lag. Rokksíðan Espy Rock kvartar í grein um nýjustu plötuna yfir því að í nýlegu blaðaviðtali hafi meira púðri verið eytt í „The Final Countdown“ en plötuna, „sönnum aðdáendum til mikils ama“.

Tempest lætur það ekki á sig fá og heldur ótrauður áfram. Á næstu fimm árum ætlar hann að gefa út tvær plötur með Europe og fara í samsvarandi tónleikaferðalög um heiminn.

ingarun@mbl.is