[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í góðra vina hópi er skemmtilegt að spila og til er gott úrval af borðspilum. Nú þegar aðventa og jól nálgast er notalegt að spila og gæða sér á heitu kakói og smákökum á meðan. María Ólafsdóttir maria@mbl.is

Ein fyrsta minning mín um borðspil er slönguspil úr smiðju Disney-samsteypunnar. Þetta þótti skemmtilegt spil og snemma fannst mér gaman að spila. Ég hef samt aldrei verið sérlega upptekin af því að vinna og oftast fundist það algjört aukaatriði. Þegar ég komst lengra á þroskabrautinni og fór að síga inn á unglingsaldurinn tók Matador við. Það gátum við vinkona mín spilað dögunum saman og oft tekið upp spilamennsku á sama spili daginn eftir. Það var spilað og keypt, rukkað og tekið lán, allt til að spilið gæti gengið áfram. Svo var ég fengin til að vera með í hópi fólks sem prófaði Hættuspil. Þá sökk ég djúpt í neyslu og óreglu, en bara eitt kvöld. En á síðustu árum hef ég nokkrum sinnum dottið í Hættuspilið á ný. Í seinni tíð hafa helst tekið við skemmtileg spurninga- og þrautaspil sem gaman er að spila í hópi vina. Jafnvel með smá stuðdjús í glasi en slíkt getur flækt hina auðveldustu spilamennsku alveg ótrúlega.

Það er skemmtileg tómstundaiðja að spila og er sérstaklega vinsælt yfir jólin eða þegar vinir og fjölskylda eru samankomin í sumarbústað. Einnig held ég því fram að það megi lesa margt úr persónuleika fólks með því að spila við það. Þess vegna getur verið ágætis hugmynd að spila á ca. þriðja eða fjórða stefnumóti. Þannig sérðu hvort viðkomandi er brjálæðislega tapsár, lyginn, montinn og þar fram eftir götunum...

Í dag held ég hvað mest upp á orðaleikinn Skrafl (Scrabble) enda mikið orðanörd og finnst gaman að brjóta heilann dálítið yfir okkar ástkæra ylhýra. Ætli það séu ekki nærri 15 ár síðan ég fékk spilið í jólagjöf og búið er að líma saman kassann nokkrum sinnum en spilið stendur alltaf fyrir sínu. Þetta spil spilum við móðir mín gjarnan og á jólunum er oft haldið maraþon í Skraflleik á heimilinu. Það hefur þó aðeins dregið úr því undanfarin ár eftir því sem við mæðgur verðum kvöldsvæfari með aldrinum. Yfirleitt er samt best að spila í það minnsta tvær umferðir því sú fyrsta fer í það að hita upp heilann og undirbúa hann undir átökin við að skyggnast út úr sykurmóki jólanna og fara að hugsa á ný um eitthvað annað en að borða. Fyrra spilið vill því oft ganga fremur hægt en í leik tvö er allt farið að ganga betur og ef maður hefur sig af stað í þriðja leikinn fer allt á flug og leikar æsast. Mamma vinnur yfirleitt þegar við spilum Skrafl en ég er bara alltaf jafn ánægð með að hafa náð að búa til svona mörg fín orð.

Ótal ný spil til að prófa

Það er alltaf gaman að prófa ný spil og fæstum finnst skemmtilegt að spila sama spilið aftur og aftur. Þó vill fólk ekki endilega þurfa sífellt að kaupa sér ný spil en nú býðst spilaáhugafólki sá möguleiki að fá að prófa alls konar spil á sérstökum spilakvöldum.

Spilað og spilað

Það er starfsfólk verslunarinnar Spilavina sem sér um spilakvöldin en þau hafa verið vinsæl t.d. á bekkjarkvöldum, hjá íþróttafélögum, á vinnustöðum og í saumaklúbbum. Á spilakvöldum kemur starfsfólk Spilavina með alls konar spil sem eru sérstaklega valin og henta fyrir viðkomandi hóp. Svo er bara spilað og spilað en lengd kvöldsins fer eftir aldri og þoli gesta. Með í farteskinu eru bæði svokölluð róleg kænskuspil eins og t.d. Blokus, Loopit og Sequence og ærslafull keppnisspil eins og t.d. Halli Galli, Ligretto eða hið geysivinsæla spil Jungle Speed. Spilarar á öllum aldri ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og það er líka skemmtileg æfing í hóp- og samvinnu fyrir börn að spila. Spilavinir eru verslun sem sérhæfir sig í spilum og púsluspilum fyrir alla fjölskylduna og ætti því að gleðja alla þá sem hafa gaman af slíku. Í versluninni er meira að segja hægt að kíkja í kassann og jafnvel prófa spilin áður en maður kaupir þau!

Kerti og spil

Kerti og spil hafa löngum verið gefin í jólagjöf hér á landi þegar allir fá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil, eins og segir í söngtextanum kunna. Kerti og spil eru sniðug í litlar jólagjafir eða til að færa gestgjöfum sem halda jólaboð að gjöf. Ömmur og afar og foreldrar geta líka kennt börnunum ýmiss konar skemmtileg spil sem þau ólust upp við og þannig getur spilastokkurinn skapað notalega samverustund. Spilastokkur er líka tilvalinn til að setja í skóinn fyrir jólasveina sem nú fara fljótlega að koma ofan af fjallinu.

Vinsæl einokun

Monopoly er talið meðal vinsælustu spila heims. Uppruna þess má rekja aftur til ársins 1900 en það er byggt á hugmynd Elizabeth Magie frá árinu 1903. Ýmis spil í anda Monopoly voru búin til á árunum 1906 og fram undir 1930 en útgáfan sem við þekkjum í dag er frá árinu 1935. Áætlað er að síðan þá hafi 480 milljón spilarar um allan heim heillast af spilinu sem snýst um að kaupa og selja eignir og reyna að eiga sem mest af bæði peningum og eignum þegar leiknum lýkur. Íslendingar þekkja sama spil betur sem Matador en bandaríska útgáfan, Monopoly, er nú einnig orðin vinsæl hér. Spilið er líka ekki eingöngu vinsælt meðal almúgans en sjálf

Paris Hilton lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að hún væri orðin leið á eilífu partístandi og vildi miklu frekar vera heima hjá sér um helgar og spila Monopoly. Ekki er hægt að segja annað en að þetta hafi verið skynsamleg hugmynd hjá fröken Hilton en svo er önnur saga hvort hún hafi framfylgt henni.