Svavar Gestsson
Svavar Gestsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármálaráðherra tekur við fyrirmælum frá Bretum og Hollendingum um að hann verði að tryggja breiða pólitíska sátt um Icesave-samning

Aðalfrétt á forsíðu Morgunblaðsins, sl. þriðjudag, á degi íslenskrar tungu, var undir fyrirsögninni „Aðildargluggi að lokast“. Þar var að sjálfsögðu verið að vísa til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu, einhvern tímann á næstu árum.

Og hvað um það, varð mér á að hugsa. Þessi gluggaumræða um það sem meirihluti þjóðarinnar vill alls ekki, samkvæmt öllum skoðanakönnunum í langan tíma, finnst mér vera ærið hvimleið. Með fréttinni var lítil fylgja, undir fyrirsögninni „Ljón í veginum“. Þar sagði m.a.: „Ljóst þykir að aðild Íslands að Evrópusambandinu kemur ekki til greina fyrr en búið er að leiða Icesave-deiluna til lykta.“

Sama dag var frétt hér í Morgunblaðinu um að Bretar og Hollendingar knýi nú á um Icesave og að blaðið hafi heimildir fyrir því að þjóðirnar séu tilbúnar að gefa eftir stóran hluta þess vaxtakostnaðar, sem hefði fallið á íslenska ríkið samkvæmt þeim samningi sem þeir flokksbræður Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson gerðu og íslenska þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári.

Þar kom einnig fram að fjármálaráðherrann beitti nú „lobbyisma“ í gegnum viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins, til þess að reyna að fá þingmenn stjórnarandstöðunnar til þess að samþykkja þau drög sem nú liggja fyrir. Síðast sagði Steingrímur J. hádegisfréttum RÚV á föstudag að stór bakreikningur biði okkar, þar sem enn hefði ekki verið samið um Icesave.

Allt er þetta með miklum ólíkindum. Fjármálaráðherra tekur við fyrirmælum frá Bretum og Hollendingum um að hann verði að tryggja breiða pólitíska sátt um þann samning sem þjóðirnar tvær virðast nú tilbúnar að ganga frá. Bretar og Hollendingar vilja ljúka málinu og forðast í lengstu lög að Icesave-klúðrið frá því um síðustu áramót endurtaki sig.

Steingrímur þegir þunnu hljóði um innihald samningsdraganna, en hann hikaði ekki við að gefa Svavari ágætiseinkunn í samningagerðinni í mars 2009, en þá sagði Steingrímur m.a.: „Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.“

Fjármálaráðherrann bætti við: „Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.“ Vitanlega er Steingrímur fyrir margt löngu hættur að hossa og hampa Svavari opinberlega fyrir „glæsilega niðurstöðu“ því eins og alþjóð man og veit, þá samdi Svavar í júní 2009 um mörg hundruð milljarða skuldaklafa ríkissjóðs og hann lýsti eigin árangri í viðtali við Morgunblaðið hinn 8. júní 2009 m.a. með þessum orðum: „Það stórkostlega við þessa niðurstöðu er að ekki þarf að loka einu einasta sjúkrarúmi eða einni einustu skólastofu næstu sjö árin fyrir þessa lausn. Það þarf ekki að skerða hár á höfði velferðarkerfisins næstu sjö árin.“

Já, einmitt það. Hvað er að gerast og hefur verið að gerast undanfarið ár? Hefur velferðarkerfið ekki misst allnokkra hárbrúska í þeim niðurskurði sem ráðist hefur verið í og verða þeir ekki enn fleiri, eftir að fjárlög næsta árs hafa verið afgreidd? Er ekki velferðarkerfið á góðri leið með að verða sköllótt?

Hvað segir Svavar nú? Ætlar hann að þegja þunnu hljóði um þau samningsdrög sem nú standa til boða, og þýða, ef marka má fréttir, að 60 milljarðar króna, falli að hámarki á ríkissjóð vegna Icesave, jafnvel mun lægri upphæð? Ég er n ota bene, alls ekki að leggja til að við samþykkjum að greiða þá upphæð.

Ætlar Svavar bara að halda áfram að skrifa „kalda stríðs“ kjallara í Fréttablaðið, um nauðsyn þess að rannsakaðar verði njósnir Bandaríkjamanna á íslenskum kommúnistum á „kalda stríðs“ árunum?