Sterkar vísbendingar eru um að í nokkrum íslenskum lækningajurtum séu virk efni sem geta verið mikilvæg í baráttunni gegn ýmsum veirusýkingum og gegn krabbameini.

Vinsældir margs konar fæðubótarefna eða jurtalyfja hafa aukist mikið á síðari árum í hinum vestræna heimi. Fyrr á öldum höfðu Íslendingar ekki yfir að ráða öðrum lyfjum en ýmsum tegundum lækningajurta. Deilt hefur verið um nytsemi lækningajurta, læknar, lyfjafræðingar og aðrir sérfræðingar telja raunar að mörg þessara jurtalyfja séu með öllu gagnslaus. Hins vegar sýnir reynsla kynslóðanna að sumar jurtir eða efni úr þeim gera okkur gott og slá á ýmsa sjúkdóma. Á tímum kreppu og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu er ekki úr vegi að skoða hvaða íslenskar lækningajurtir megi nýta enn frekar en nú er til að bæta heilsufar landsmanna. Sterkar vísbendingar eru um að í nokkrum íslenskum lækningajurtum séu virk efni sem geta verið mikilvæg í baráttunni gegn ýmsum veirusýkingum og gegn krabbameini. Rannsóknir dr. Sigmundar Guðbjarnasonar sýna að í ætihvönn eru ýmis efni sem hafa talsverðan lækningamátt. Vísbendingar eru um að efni sem fundist hafa í hvönn gætu heft vöxt á krabbameinsfrumum. Önnur öflug lækningajurt er vallhumall. Seyði af vallhumli linar kvef, er styrkjandi og linar gigt. Þekkt lækningajurt er rabarbari, en hann er meðal annars ríkur af C-vítamínum. Fyrr á öldum voru unnin lyf úr rótum rabarbarans sem þóttu góð gegn niðurgangi og kynsjúkdómum. Ber hafa talsverðan lækningamátt, í aðalbláberjum er efni sem nefnist antósýaníð sem styrkir veggi æða, minnkar bólgur og styrkir vefi.

Getgátur hafa verið um að í litarefnum bláberja sé efni sem geti hindrað æxlun HIV-veirunnar, sem veldur alnæmi. Vísindamenn við háskólann í Reading í Englandi segja að bláberin séu holl fyrir heilann. Hnefi af bláberjum dragi úr sleni og einbeitingarleysi. Í bláberjum eru efni sem eyða skaðlegum sindurefnum. Þessi sömu efni auka blóðflæði og súrefnisupptöku í heila. Tilraunir sérfræðinganna í Reading sýndu svart á hvítu, að þeir nemendur sem voru að fara í próf og höfðu borðað bláber í nokkurn tíma, stóðu sig 20% betur en þeir sem ekki höfðu lagt sér bláber til munns. Bandarískir vísindamenn hafa gert rannsóknir sem sýna að í bláberjum séu efni sem hafa áhrif á það hvernig líkaminn vinnur úr sykrinum. Neysla bláberja dregur úr fitu og hefur grennandi áhrif, bláberin eru sem sagt megrunarfæða. Þá hefur það lengi verið vitað að neysla bláberja bætir sjón í rökkri, styttir þann tíma sem það tekur að venjast myrkrinu og styttir þann tíma sem augun eru að ná sér eftir að hafa orðið fyrir skerandi birtu.

Blóðberg er mögnuð lækningajurt, enda er saft úr blóðbergi notuð í kvefmixtúrur og í slímlosandi lyf. Í „Grasnytjum“ séra Björns í Sauðlauksdal frá 1783 segir meðal annars að blóðbergste sé gott við hósta, það örvi svita og sé gott brjóstveikum mönnum. Í blóðbergi er efnið thymólið sem er bakteríu- og sveppaeyðandi. Þá virkar blóðbergste vel við harðlífi og örvar meltingu. Fjallgrös hafa í aldaraðir verið notuð til lækninga hér á landi með góðum árangri. Fjallagrös hafa góð áhrif á öndunarfæri, meltingarfæri og maga. Þau eru mjög nærandi og því eitt það besta og ódýrasta fæðubótarefni sem völ er á. Japanir lifa hvað lengst allra jarðarbúa, líklegast geta þeir þakkað heilsu og langlífi það að þeir snæða talsvert af allskonar fjörugróðri. Það gerðu raunar Íslendingar einnig á árum áður. Söl voru vinsæl matvæli hér á landi og þóttu afar holl sem rannsóknir seinna tíma hafa sannað. Sölva er fyrst getið í íslenskum heimildum um miðja 13. öld og í Grágás á 12 öld.

Til eru heimildir um að söl hafi verið etin með hvannarót og harðfiski, það hefur verið magnaður hollusturéttur, svo ekki sé meira sagt. Talið er að söl hafi fyrr á tímum verið notuð í stað brauðs.

Fyrstu menntuðu læknarnir á Íslandi þekktu vel til lækningamáttar sölva. Söl voru sögð „kælandi, uppleysandi, þvagleiðandi, nærandi, og styrkjandi“. Margar heimildir eru til um að söl hafi verið góð gegn sjóveiki. Þá voru söl talin góð við hjartveiki, „hjartverki stilla hrá söl etin“ segir gamall málsháttur. Athyglisverður lækningamáttur sölva fyrir okkur nútímamenn er að þau eru einstaklega góð gegn þynnku. Halldór Jónsson í Miðdalsgröf á Ströndum sagði söl sérlega holl þeim mönnum, sem hafa orðið ofurölvi. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir í bók sinni Grasnytjar að söl séu góð við sjóveiki og að þeir sem með ofdrykkju hafi spillt reglu maga síns og blóðtempran, hafi gott af að nota söl fyrir mat og krydd næsta dag.

Væri ekki tilvalið fyrir hugmyndaríka vísindamenn og djarfa fjárfesta að þróa og markaðssetja þynnkumeðal úr sölvum? Eitt er víst að nægur markaður ætti að vera fyrir slíkt lyf.