Bítlarnir fjórir frá Liverpool á hátindi vinsælda sinna.
Bítlarnir fjórir frá Liverpool á hátindi vinsælda sinna. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég rétt marði það heim með galtóma vasa. Þessi ferð kostaði mig aleiguna.

Ung hljómsveit frá Liverpool, Bítlarnir, þóttist hafa himin höndum tekið þegar hún fékk tilboð um að flytja sig frá Kaiserkeller-klúbbnum í Hamborg yfir á stærri og svalari stað neðar í götunni, Top Ten. Stemningin var meiri, hljóðkerfið betra og launin heldur skárri.

Þá dundi áfallið yfir, útlendingaeftirlitið knúði dyra, veifandi plöggum þess efnis að gítarleikarinn, George Harrison, væri of ungur til að starfa í landinu. Enn væru tveir mánuðir í átján ára afmæli hans. Engu tauti var við menn komið og Harrison var því sendur heim til Englands á þessum degi fyrir hálfri öld.

Hinir bandlimirnir, John Lennon, Paul McCartney, Pete Best og Stuart Sutcliffe, sem voru örlítið eldri, vissu að þeir gætu ekki látið tækifærið, að spila á Top Ten, sér úr greipum ganga og ákváðu því að verða um kyrrt í Hamborg. Harrison vakti alla nóttina áður en hann yfirgaf borgina til að kenna Lennon gítarpartinn sinn.

Harrison minntist þeirrar stundar, þegar hann þurfti að kveðja félaga sína, með beiskju. „Þarna vorum við yfir okkur spenntir, að yfirgefa Kaiserkeller til að fara og spila á Top Ten. Og þá komu þeir og ráku mig úr landi. Ég flutti sumsé út úr Kaiserkeller til að fara heim meðan félagar mínir fluttu út til að fara yfir í þennan frábæra klúbb,“ segir hann í endurminningum sínum.

Ferðin heim til Liverpool var engin skemmtiferð, ef marka má frásögn Harrisons í téðum endurminningum. Stuart Sutcliffe og ástkona hans, Astrid Kirchherr, skutluðu Harrison á brautarstöðina í Hamborg.

„Fyrst átti ég fyrir höndum langa lestarferð til Hoek van Holland – aleinn,“ rifjaði Harrison upp. „Þaðan tók ég ferjuna. Siglingunni ætlaði aldrei að ljúka og ég var orðinn skítblankur. Rétt vonaði að aurarnir myndu duga. Ég þurfti að komast frá Harwich á Liverpool Street-stöðina [í Lundúnum] og þaðan með leigubíl á Euston-stöðina, þaðan sem ég náði lest heim til Liverpool. Ég man það núna að ég var með magnara sem ég hafði keypt í Hamborg, lúna ferðatösku, einhverja kassa, fötin mín í bréfpokum og gítar. Þetta var allt of mikið að bera og ég man að ég stóð í lestarganginum innan um hóp hermanna með hafurtaskið í kringum mig – og drakk. Á endanum komst ég til Liverpool og tók leigubíl heim að dyrum. Ég rétt marði það heim með galtóma vasa. Þessi ferð kostaði mig aleiguna.“

Nokkrum kvöldum síðar voru McCartney og Best að taka saman föggur sínar til að flytja út úr Bambi-kvikmyndahúsinu, þar sem Bítlarnir höfðu dvalist í Hamborg. Ljóslaust var í kytrunni þannig að þeir þurftu að kveikja í einhverju sem þeir voru með í fórum sínum – heimildum ber ekki saman um hvað það var – til að sjá handa sinna skil. Úr varð ofurlítill eldur sem slokknaði svo til um leið. Sótblettur kom þó á vegginn.

Við þetta fór leigusalinn, Bruno Koschmider, á límingunum og ræsti út lögregluna á þeim forsendum að Bítlarnir hefðu reynt að brenna ofan af sér húsið. Best og McCartney voru handteknir og fengu að gista fangageymslur um nóttina. „Þetta var meinfyndið,“ rifjaði McCartney upp síðar, „vegna þess að við hefðum ekki einu sinni getað kveikt í staðnum þótt við hefðum haft mörg gallon af eldsneyti – húsið var úr steini.“

Um morguninn var tvímenningunum vísað úr landi. Svo mikið lá á að þeir fengu aðeins fimm mínútur til að hafa sig til. Best þurfti t.d. að skilja trommusettið sitt eftir. Öfugt við Harrison voru Best og McCartney settir um borð í flugvél sem flaug með þá til Lundúna.

Þá voru aðeins tveir Bítlar eftir í Hamborg: Lennon sem staldraði við um hríð áður en hann hélt aftur heim til fundar við félaga sína; og Sutcliffe sem settist að í Hamborg og sneri sér skömmu síðar að myndlist. Hann lést 1962. Síðar leysti Ringo Starr Pete Best af hólmi.

Allir vita hvað gerðist í framhaldinu...

orri@mbl.is