Ég hef komið aftur og aftur að nokkrum ljóðabókum og fundið í hvert sinn á þeim nýjar dyr sem opnast.

Á síðustu vikum hef ég sokkið sífellt dýpra í bókahauginn – og kann því vel. Eins og ætíð á þessum tíma rekst maður á eitt og annað forvitnilegt í nýjum bókum; inn á milli eru býsna góð verk.

Ég hef komið aftur og aftur að nokkrum ljóðabókum og fundið í hvert sinn á þeim nýjar dyr sem opnast; eins og gerist þegar góðar ljóðabækur eru lesnar. Í Þremur höndum Óskars Árna Óskarssonar sést til að mynda vel hvað ljóðið getur verið máttugt í einföldum en meistaralega byggðum myndum; nú veit ég að ef ég horfi nógu lengi á stjörnurnar kemst ég til Damaskus. Þangað hefur mig lengi langað. Vilborg Dagbjartsdóttir yrkir líka um stjörnurnar. Í bók hennar Síðdegi er brugðið upp mynd af fáeinum stjörnum sem „glitra eins og maurildi / í svörtum möskvunum“.

Eitt af því sem vekur athygli við ljóðaútgáfuna í ár er að mörg skáldin skrifa heildstæða bálka. Einskonar söguljóð. Vitaskuld er það ekkert nýtt að ljóð innan bókar séu tengd og myndi heild en engu að síður sýnist mér það óvenju algengt í þessu flóði.

Í vor kom út fyrsta ljóðabók Auðar Övu Ólafsdóttur, bálkurinn Sálmurinn um glimmer . Í samtali okkar talaði hún um að í honum væri „sögukjarni sem springur í ýmsar áttir og útúrdúrar sem eiga sér sjálfstætt líf“. Þrátt fyrir samhengið milli ljóðanna væri textanum „ætlað að vera kvikur og hlaupa út undan sér“.

Framar hér í Lesbók er samtal okkar Bjarna Gunnarssonar. Hann fór líka þá leið í bókinni Moldarauka að skrifa samhangandi ljóð, fannst „spennandi að ljóðin sköpuðu heild, að vera ekki sífellt að leita að nýju og nýju ljóði“. Bjarni sagðist líka hafa skrifað seinni hluta bókarinnar upp á nýtt þegar söguþráðurinn varð of frekur; vildi að ljóð hverrar síðu gæti staðið sjálfstætt, „spryngi í ýmsar áttir“, svo ég vitni aftur í Auði.

Gerður Kristný hefur hlotið mikið lof fyrir nýja bók sína, Blóðhófni , sem hún yrkir upp úr hinum fornu Skírnismálum. Hún tálgar ljóðsöguna til, „dregur upp afar fallega en um leið ógnvekjandi sögu með fáum orðum“. Enn ein áhugaverða ljóðsagan birtist í Blindhæðum Ara Trausta Guðmundssonar. Í samtali okkar sagði skáldið bókina vera „í raun ævisögu eins manns“ og fannst heillandi að stilla upp í 50 ljóðum bókarinnar „einhverju sem gæti heitið lífshlaup“.

Þetta hljómar annars eins og góður auglýsingafrasi: Lífshlaup í 50 ljóðum!