[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Decision Points - George W. Bush **½- George W. Bush var umdeildur forseti. Forsetatíð hans markaðist af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þá hafði hann verið í embætti um átta mánuði og átti rúm sjö ár eftir á forsetastóli.

Decision Points - George W. Bush **½-

George W. Bush var umdeildur forseti. Forsetatíð hans markaðist af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þá hafði hann verið í embætti um átta mánuði og átti rúm sjö ár eftir á forsetastóli. Bush hefur látið lítið fyrir sér fara eftir að hann hvarf úr embætti og látið vera að gagnrýna eftirmann sinn. Fyrr í þessum mánuði komu endurminningar hans út undir heitinu Decision Points. Þar fjallar hann um helstu ákvarðanir, sem hann þurfti að taka í forsetatíð sinni og rekur á hvaða forsendum þær voru byggðar. Ákvörðunin um að kalla Bandaríkjaher brott frá Íslandi er ekki þar á meðal. Bush segir skemmtilega frá, getur verið fyndinn og gerir frekar grín að sjálfum sér en að upphefja. Bókin er líka blessunarlega laus við beiskju. Í upphafi bókar lýsir hann því hvernig saga Sovétríkjanna og Kína hafi gert sig að málsvara frelsis og lýðræðis. Eftir 11. september kom í hans hlut að verja þær hugsjónir. Það gerði hann meðal annars með því að ganga á þau gildi, sem baráttan stóð um. Á einum stað segir hann frá því þegar hann fyrirskipar yfirheyrslur þar sem sá grunaði er bundinn á bretti og kaffærður og ver það með því að hengja sig í réttlætingar lögfræðinga. Með slíkum ákvörðunum gladdi hann pyntingaglaða einræðisherra um allan heim og í bókinni tekst honum ekki að sýna fram á að til þess að verja mannréttindi hafi þurft að afnema þau. Bush segist hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar í ljós kom að engin gereyðingarvopn var að finna í Írak. Í bókinni er hins vegar ekki tekið þannig á málinu að lesandinn sé sannfærður um að stjórn hans hafi ekki bara viljað trúa því að slík vopn hafi verið í Írak, heldur að hún hafi haft í höndum að því er virtist óyggjandi gögn um að svo væri. En Bush stendur við ákvarðanir sínar og segir að sagan verði að dæma um hvort hann hafi verið góður eða slæmur forseti.

Life - Keith Richards með James Fox****

Keith Richards og George W. Bush eiga það sameiginlegt að vera næstum því jafnaldrar og báðir að nálgast sjötugt. Þar sleppir samanburðinum. Ævisaga Richards, Life, byrjar af krafti á því þegar Richards er handtekinn ásamt föruneyti í Arkansas árið 1975. Hljómsveitin Rolling Stones hafði fengið stimpilinn hættulegasta rokkband í heimi hjá bandarískum yfirvöldum og fékk rétt með naumindum landvistarleyfi til að fara í tónleikaferðalag það árið. Richards er hinn mesti harðjaxl. En stundum verður bókin eins og uppgjör unglings fremur en aldraðs manns og með ólíkindum hvað hann afgreiðir suma samferðamenn sína og -konur af mikilli óvirðingu. Nóg hefur verið fjallað um útreiðina, sem Mick Jagger fær. „Hann misst'ana og ég kysst'ana,“ segir hann um konu eina í bókinni og má bæta við að „hann“ er Jagger. Bókin er rússibani þar sem farið er í gegnum feril Stones, sukkið, svallið og eitrið, en hún fjallar líka um rætur tónlistarinnar, sem hljómsveitin spilar, og sýnir virðingu Richards fyrir upprunanum. Life verður seint á leslista SÁÁ, en bókin er bráðskemmtileg.

Karl Blöndal kbl@mbl.is