[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til lengri tíma mun Ísland greiða meira til ESB en það fær þar til baka. Það er viðurkennt af Evrópufræðimönnum og samræmist reynslu norðlægari ríkja ESB.

MEÐ

Bryndís Björg Halldórsdóttir
í stjórn VG í Reykjavík

Umsókn Alþingis fyrir rúmu ári um aðild Íslands að ESB var á þeim forsendum að hægt væri að fara þar inn og halda samt sem áður yfirráðum yfir landhelgi, rétti til samninga um deilistofna og sérstöðu og fullveldi á ýmsum sviðum.

Umræða og gögn sem hafa komið fram sl. ár hafa sýnt að í raun er umsóknin byggð á röngum forsendum. Í gögnum frá ESB kemur líka fram að 90.000 bls. af lögum eru óumsemjanlegar og sett eru skilyrði um meirihlutafylgi við aðild. Slíkt var aldrei til staðar og síðan umsóknin var lögð fram hefur heldur dregið úr fylgi við aðild.

Evrópusambandið hefur mikinn áhuga á að fá Ísland inn sem skýrir hví ekki er gengið eftir því að Ísland uppfylli t.d. skilyrði um að hér sé almennur vilji til ESB-aðildar áður en sótt er um. Nú boðar ESB að það geti bætt úr þessum vanda með því að dæla hér inn peningum í kynningarstarf og til að styrkja hin og þessi verkefni hjá stjórnsýslu og einkageira. Hér vísa ég í sk. IPA-styrki sem eiga að ,,auðvelda“ aðild fyrir okkur. Styrkirnir skekkja vitaskuld hina lýðræðislegu umræðu og ríkisstjórnin er komin með þjóðina inn í ólýðræðislega blindgötu. Það getur verið of seint að snúa við þegar ESB hefur náð hér ítökum með fjárupphæðum sem eru smápeningar fyrir þá en stórfé fyrir okkar litla samfélag.

Einhverjir munu fagna þessu fé og saka okkur sem viljum stöðva þetta um hræsni og óþarfa stolt á erfiðum tímum.

Til lengri tíma mun Ísland greiða meira til ESB en það fær þar til baka. Það er viðurkennt af Evrópufræðimönnum og samræmist reynslu norðlægari ríkja ESB. Því verða þessir styrkir greiddir margfalt til baka og aðild að ESB mun draga úr velmegun og sjálfstæði okkar.

Verst er þó að með aðild er bundinn endi á lýðræðið sem hér ríkir. Ég held því ekki fram að kerfið hér sé gallalaust. Staðan er þó mun betri hér en í ESB þar sem þjóðþingin og Evrópuþingið eru valdalítil en sífellt meiri völd safnast fyrir í ólýðræðislegu, yfirþjóðlegu og ósnertanlegu skrifræðisbákni.

Það lýðræðislega í stöðunni nú væri að hætta yfirstandandi aðlögunarferli að ESB, hætta s.k. rýnivinnu (screening process) og afþakka boðaða IPA-styrki. Þess í stað ætti að taka upp efnislegar viðræður við Evrópusambandið um grundvallarhagsmuni Íslands. Alþingi getur síðan ákvarðað í ljósi þeirrar niðurstöðu eða, sem væri lýðræðislegra, að þjóðin, sem aldrei var spurð, fengi að segja sína skoðun á því hvort hún telji rétt að halda yfirstandandi ferli áfram.

MÓTI

Heimir Björn Janusarson
Félagsmaður í VG

Ísland á alls ekki að draga umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu til baka. Ég tel að umsóknarferlið geti verið jafn mikilvægt ferðalag ef ekki mikilvægara en ákvörðunarstaðurinn.

Í fyrsta lagi var ákveðið í samstarfssamningi stjórnarflokkanna að hefja umsóknarferli að ESB. Sá samningur var samþykktur á flokksráðsfundi VG eftir þó nokkuð góðar umræður. Það á því öllum að vera ljóst um hvað málið fjallaði og á ekki að hafa komið neinum á óvart að ferlið hafi verið sett af stað.

Það að setja það inn í samstarfssamninginn og samþykkja hann síðan, hlýtur að þýða að fólk ætli að standa við gerða samninga og það sé eitthvað að marka orð þess. Þeir hafi ekki bara sagt já til að komast í ríkisstjórn og svíkja svo gerða samninga. Samstarfssamningar hljóta alltaf að vera málamiðlanir og niðurstaða samtals, sem er ein af birtingarmyndum lýðræðislegrar umræðu.

Í öðru lagi má ekki gleyma því að ESB-umræðan er komin á fullan skrið hvort sem VG líkar það betur eða verr. Til þess að umræðan verði vitræn þarf fólk að vita um hvað málið snýst, hvað það þýðir raunverulega fyrir Íslendinga að ganga inn, hverjir eru kostir og gallar inngöngunnar. Í dag er verið að bera löggjöf Íslands og stjórnsýslu saman við ESB, hverju þurfi að breyta ef til inngöngu kæmi. Nokkrar ábendingar frá framkvæmdaráði ESB er lúta að umsókn Íslendinga í ESB snúa t.d. að því að sjálfstæði dómstóla verði aukið, stöðugleiki náist í ríkisfjármálum, umhverfislöggjöf verði bætt, neytendaréttur aukinn og endurbætur gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Er eitthvað í þessum athugasemdum sem VG eða hinn almenni Íslendingur er á móti?

Til eru tvö góð svör við því hvort Ísland eigi að ganga í ESB eður ei. Þau eru já eða nei. Við erum alls ekki komin á þann stað að geta tekið afstöðu. Til þess þarf að fara fram almenn upplýst umræða.

Bjölluat hefur oft verið nefnt í þessari umræðu. Að draga umsóknina til baka nú líktist því að gera bjölluat. Ég tel að réttara væri að banka upp á en segjast svo hafa farið húsavillt ef manni líkar ekki móttökurnar. Höfum það hugfast að það eru Íslendingar sem sækja um aðild og það er í höndum Íslendinga að hafa síðasta orðið með já-i eða nei-i í kjörklefanum við samning. Það er ekki í höndum nokkurra pólitíkusa af gamla skólanum sem vilja koma í veg fyrir lýðræðslega, opna og heiðarlega umræðu. Fáum samning á borðið, ræðum hann í þaula og tökum svo upplýsta ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir það.