Það er nefnilega ekkert ósvipað að eldast og vera fullur. Það verða allir bara svo fallegir.

Ég veit ekki hvað það er, en ég er alveg viss um það að ég er farinn að bera meiri virðingu fyrir fólki sem ég hefði átt að bera meiri virðingu fyrir áður fyrr. Kannski er það aldurinn. Verð náttúrlega fertugur á næsta ári. Sennilega partur af aldurskrísu á einhvern hátt. Það er nefnilega ekkert ósvipað að eldast og vera fullur. Það verða allir bara svo fallegir. Og góðir. Sem er mikill léttir get ég sagt ykkur. En það er alveg hægt að finnast þetta allt án þess að vera í glasi. Þvert á móti er miklu betra að vera allsgáður og finnast þetta. Ég er nefnilega búinn að komast að því að maður kemst ansi langt á hreinni og tærri virðingu og væntumþykju.

Stundum á ég samtöl við guð. Nú hef ég reyndar aldrei hitt guð, svona beint, en það er eitthvað sem hefur fengið mig til þess að eiga við hann samtöl. Veit hins vegar að það er til fullt af fólki sem trúir alveg rosalega mikið á guð og fer reglulega í kirkju og svoleiðis og á við hann háalvarleg samtöl. En ég er ekki þar staddur. Fer til dæmis ekki reglulega í kirkju. Finnst þær yfirleitt frekar vandræðalegar. Og formlegar. Og fólkið sem þar starfar tekur sjálft sig oft mjög hátíðlega. Mér finnst hins vegar ekkert svo hátíðlegt við guð ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst guð vera eins hversdagslegur og hugsast getur. Allavega guðinn sem ég tala við.

Kannski eru til margir guðir. Sem er mjög sennilegt. En ég er samt ekki frá því að guðinn sem ég tala við sé kona. Allavega kemur Astrid Lindgren alltaf upp í hugann þegar ég tala við guð. Veit ekki af hverju.

Og samtölin sem ég á við guð eru mjög hversdagsleg. Reyndar svarar hún nú aldrei svona beint. Hún Astrid. Sem getur verið dálítið pirrandi. Hún fer greinilega sínar eigin leiðir í því sambandi. Hún er meira fyrir að sýna hvað hún meinar í verki. Og oft tekur hún fáránlegar ákvarðanir. Ég meina hvað hefur guð á móti Val? Valur er ekki búinn að vinna einn leik í handboltanum (meistaraflokki karla) það sem af er þessu keppnistímabili. Sem sýnir það nú bara svart á hvítu að guð er ekki alltaf að lesa salinn.

En já, það sem hins vegar hefur gerst eftir að ég fór að tala við fröken guð er að ég fór að bera meiri virðingu fyrir fólki. Þetta var ekkert meðvituð ákvörðun, síður en svo. Og í raun alls ekki. Þetta bara gerðist. Óvart.

Ég finn að ég er farinn að bera ómælda virðingu fyrir fólki sem ber hag annarra, meira en sjálfs sín, fyrir brjósti. Mér finnst það nefnilega vera alveg svakalegur eiginleiki. Þetta kann að hljóma ansi frumstætt, ég veit það, en í grunninn held ég að þetta sé erfiðara en maður heldur. Í allri þessari einstaklings- og neysluhyggju nútímans er bara það að hugsa fyrst um aðra umfram sjálfan sig nokkuð frumstætt. Því miður. Og ég veit að fröken guð er sammála mér. Því það hefur komið fram í samtölum okkar.

En af hverju þarf allt að snúast um okkur sjálf? Af hverju snýst dagurinn í dag svona mikið um það hvað við sjálf viljum og hvað við sjálf þurfum? Meira að segja eignumst við börn og það virðist litlu breyta. Fyrir suma allavega. Maður hefur heyrt að það sé svo heftandi að eignast börn. Þá kemst maður náttúrlega ekki í gymmið og svona. Sem, þegar á heildarmyndina er litið, er agalegt. Ég meina hver vill ekki fara upp til guðs í formi?

Sennilega talar fröken guð aðallega við fólk sem hún þarf að tala við. Fólk á brúninni. Sem skiptir mig svo sem litlu máli. Ég meina ég ætla að halda áfram að tala við fröken guð eins lengi og ég mögulega get. Því það er bara svo gott. Og ég ætla líka að byrja að bera virðingu fyrir fleirum. Til dæmis KR-ingum. Já, svei mér þá.