Moldarauki, þriðja ljóðabók Bjarna Gunnarssonar, er samfelldur bálkur í þremur hlutum þar sem lesandinn fær innsýn í kaldan og drungalegan heim manns og bjarndýrs; flakkað er milli náttúru og stofnana þar sem ógnin ríkir:
Ég er frosinn fastur
milli vonar og ótta
sef meðan helblár skjávari
gætir þess að andlit mitt
sýni engin svipbrigði
Bjarni segir að Moldarauki sé frábrugðin fyrri bókum sínum en að þessu sinni langaði hann að vinna með heildstætt þema á kraftmikinn hátt. Þá datt hann niður á fyrirbæri sem kallast cryonics upp á ensku; það þegar fólk lætur frysta sig eftir dauðann, í þeirri von að vera einn góðan veðurdag lífgað við.
„Fyrst skrifaði ég sögu um mann sem var hræddur við dauðann og keypti sér svona meðferð,“ segir Bjarni. „Það leiddi mig út í pælingar um það hversu lifandi maður væri í raun í lifanda lífi; hvort það væri í einhverjum klakaböndum. Mætti kannski heimfæra óttann við að lífið taki einhvern tímann enda upp á það ástand að vera manneskja í nútímasamfélagi?“
Út frá þessum hugleiðingum spannst ljóðabálkur Bjarna. Fyrst ætlaði hann ekki að hafa neinn ljóðmælanda í fyrstu persónu, ljóðin áttu að vera kaldranaleg og ópersónuleg, en í vinnsluferlinu breytti hann því og sjónarhornið varð blandað og útkoman er afar athyglisverð.
„Mér fannst spennandi að ljóðin sköpuðu heild, að vera ekki að leita sífellt að nýju og nýju ljóði,“ segir hann.
Við að semja verkið leitaði Bjarni nokkuð til eddukvæðanna, sem hann heldur upp á.
„Því eru línurnar oft stuttar og jafnvel stuðlaðar, án þess að þetta sé háttbundið. Ég sem ljóðin upphátt, sit við og þyl...“
Hann segir að í fyrri bókunum birtist mjúkur maður að yrkja um hversdagsleikann og fegurðina í hinu fíngerða. „Nú ákvað ég að leita meira út fyrir mörk lífs og dauða. Velta fyrir mér hvað tekur við. Ætli það sé ekki eitthvað sem tengist því að komast á ákveðinn aldur,“ hann brosir. „Og þessi ógn og skelfing sem er alltaf í fréttum, slys og hamfarir.“
Bjarni starfar sem þýðandi spennusagna.
„Já, ég þýði glæpasögur og það hefur eflaust einhver áhrif á ljóðin. Í þeim horfa menn í gegnum kíki á stórum riffli og réttarmeinafræðingar eru að störfum. Ég byrja að vinna með nokkra þræði og smátt og smátt fléttast þeir saman. Þar held ég að séu augljós áhrif frá vinnu minni við þýðingarnar.
En þetta eru ólík bókmenntaform.
Ég er fyrir að meitla setningar og segja margt í fáum orðum, frekar en þetta mikla flæði sem er í skáldsögum.“
Hann hugsar sig um.
„Svo er það myndmálið: læknastofur, mikið blóð, og stundum fer ég inn í líkamann, bæði á mönnum og dýrum. Það er ákveðin kryfjandi í ljóðunum...
Drunginn er þarna; ég hef sjálfur þurft að leita til lækna vegna krankleika – lífið er ekki alltaf slétt og fellt. Þessi ótti getur verið raunverulegur,“ segir Bjarni.