Það er ekki amalegt að hafa tíu manns sem allir eru tilbúnir að leika.
Það er ekki amalegt að hafa tíu manns sem allir eru tilbúnir að leika.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrea er sérlega vel liðinn starfskraftur á hjúkrunarheimilinu Mörk. Myndir: Ernir Eyjólfsson Texti: Bergþóra Njála Guðmundsdóttir

Þegar hundurinn Andrea mætti í fyrsta sinn til vinnu á hjúkrunarheimilinu Mörk var það ást við fyrstu sýn. Hún vann þegar hug og hjarta heimilismanna og hefur síðan verið einn vinsælasti starfskrafturinn á heimilinu, enda eru næmi hennar og alúð með eindæmum.

Gleðin sem fylgir veru hennar á heimilinu fer ekki milli mála; íbúarnir tíu sækjast sérstaklega eftir félagsskap hennar og kalla iðulega á hana inn til sín, ekki síst þegar þeir eiga við veikindi að stríða. Er hún þá meira en fús til að veita þeim alla sína athygli og er reyndar oft skrefinu á undan því engu líkara er en hún finni á sér ef hennar er einhvers staðar þörf.

Andrea er af cocker spaniel-kyni, en eigandi hennar er heimilisstýran Margrét Steindórsdóttir hjúkrunarfræðingur. Leyfi er til gæludýrahalds á heimilinu og var því upplagt að sú ferfætta fylgdi húsmóður sinni daglega til vinnu, enda ljóst að lundarfar þeirrar stuttu var eins og sniðið að starfseminni í Mörk. Andrea er þó ekki eina gæludýrið á staðnum og þannig tók það páfagaukinn Pollý nokkurn tíma að sætta sig við tilkomu hennar inn á heimilið, sem gekk þó eftir að lokum.

Um helgina verður Andrea heiðruð sem afrekshundur Hundaræktarfélags Íslands fyrir góða frammistöðu sína í starfinu í Mörk og er vel að nafnbótinni komin.