Ef vel er að gáð má sjá Kötlu gömlu gjóa augunum til okkar.
Ef vel er að gáð má sjá Kötlu gömlu gjóa augunum til okkar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ólýsanlegt að fljúga yfir Kötlu á fallegum degi, svo lengi sem sú gamla fer ekki að hvæsa. Það er eins gott að ég kann ráð til að þagga niður í henni!

Raggi, sérðu kerlinguna á jöklinum, ég held að hún hafi verið að horfa á þig!“

Ég sé ekki neitt: Ert þú orðinn eitthvað skrítinn, Jón. Ég sé bara hvítan jökulinn. Ég held að þú sért að verða verri en ég. „Hún er á hvolfi. Fljúgum hinum megin við hana, þá sérðu hana betur,“ svaraði Jón.

Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki einu sinni blápollinn í jöklinum, var að horfa í aðra átt. Sigkatlarnir sem höfðu myndast í júlí 1999 voru nú fagurbláir þegar vatnið fyllti þá.

Við félagarnir í flugklúbbnum Þyt, Jón Ólafsson flugstjóri og ég, vorum á flugi yfir Kötlu í Mýrdalsjökli og það var eins og hún gjóaði augunum í áttina til okkar. Það verður að hafa jafnrétti í þessu eins og öðru. Í síðustu grein var karl í jökulsprungu og nú kemur kerlingin. „Það er eins gott að styggja hana ekki of mikið, hún gæti gosið ef hún reiðist,“ sagði Jón.

Ég held að henni lítist vel á þig, þú ert svo fallegur neðan frá, Jón, svaraði ég honum, þar sem við flugum yfir höfðinu á henni.

Það rifjast upp á fluginu sumarfrí í júlí 1999 þegar síminn hringdi um miðja nótt og á hinum endanum var kona sem hefði alveg eins getað verið Katla að fara að gjósa. Agnes Bragadóttir getur hæglega látið blóð frjósa í æðum hvers sem er ef þannig liggur á henni, jafnvel þótt það sé 20 stiga hiti úti. Það breytir þó ekki því að inn við beinið býr ljúfmenni. Fyrirgefðu Agnes mín, það er ekki meiningin að eyðileggja orðspor þitt!

„Sæll Raxi, þetta er Agnes hérna. Var ég nokkuð að vekja þig?“

Nei, hvernig dettur þér það í hug? Klukkan er hálffimm. Er ekki annars nótt?

„Ég held að Katla sé að fara að gjósa. Það er alla vega eitthvað að gerast þar,“ hélt Agnes áfram. „Geturðu flogið yfir og athugað málið?“

Það þarf ekki að suða í manni lengi að fara og sjá eldgos, þannig að ég lét slag standa. Það voru allir sofandi á heimilinu hvort sem er.

Við Elmar Gíslason, flugmaður hjá Icelandair og blaðamaður á Morgunblaðinu á þessum tíma, skelltum okkur saman í flug yfir Mýrdalsjökul og Kötlu þar sem sigkatlarnir voru að myndast. Lognið var algert, sólin að koma upp og það var eins og við ættum allt landið. Fegurðin var ólýsanleg og jökullinn glansaði allur.

Það gat þó brugðið til beggja vona færi hún að hvæsa. Þá hverfur fegurðin eins og dögg fyrir sólu enda eru Kötlugos einhver hættulegustu eldgos sem sögur fara af á Íslandi.

Við Elmar flugum dágóða stund yfir jöklinum og skoðuðum gígana myndast. Það þarf að hafa varann á þegar flogið er lengi í hringi yfir hvítum jöklinum. Maður missir af einhverjum ástæðum hæðar- og fjarlægðartilfinninguna.

Það er ekki slæm byrjun á degi að fljúga í rjómalogni yfir Kötlu. Mæta svo heim þegar allir eru að fara á fætur og vera spurður: „Hvar varst þú, var eitthvað að gerast?“

Katla gaus síðast árið 1918 og hefur því verið í hvíld í 92 ár. Eftir að kvikuinnskot hófust í Eyjafjallajökli 1999 hefur Katla nánast verið í gjörgæslu. Síðast var búist við gosi um 1960 ef tekið er meðaltalshlé á Kötlugosum sem er um 50 ár.

Gjósi Katla verða öflug þeytigos með miklu gjóskufalli sem valda nánast algjöru myrkri. Þá er mikil hætta á eldingum í og undir gosmekkinum en Katla er eina eldstöðin sem hefur orðið fólki að bana vegna eldinga. Gífurleg jökulhlaup fylgja í kjölfarið. Kötlugos hafa staðið frá tveimur vikum upp í fjóra mánuði.

Katla verður vöktuð áfram og vel með henni fylgst. Kannski væri þjóðráð að láta Agnesi Bragadóttur hafa samband við Kötlu fari hún að rífa kjaft. Það gæfi okkur örugglega fimmtíu ára hvíld frá gosi í viðbót. Katla myndi aldrei voga sér að gjósa ef Agnes byrsti sig!