27. nóvember 2010 | Bókmenntir | 331 orð | 2 myndir

BÆKUR -

Allt, allt of mikið

Takk útrásarvíkingar **---

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Láru Björg Björnsdóttur. Sena, 2010. 108 bls.
Í bókinni Takk útrásarvíkingar fer Lára Björg Björnsdóttir á handahlaupum yfir síðastliðin tvö ár og það helsta sem á daga hennar hefur drifið eftir bankahrun. Bókin er byggð á pistlum sem Lára skrifaði fyrst á midjan.is og seinna á pressan.is en í þeim deilir hún raunum sínum og reynsluheimi á gamansaman hátt.

Pistlarnir eru margir alveg ljómandi fínn afþreyingarlestur en í bókinni fer hún á þvílíkt flug að manni verður nóg um. Ýkt kaldhæðnin og stælarnir, sem birtast til dæmis í sífelldum framíköllum, ávörpum og útskýringum innan sviga, fá mann helst til að halda að bókin sé í heild sinni einhver brandari. Lára veður úr einu í annað og þrátt fyrir að hitta oft naglann á höfuðið á skemmtilegan hátt fer hún hreinlega offari. Hún minnir helst á óþolinmóðan ungling og mér varð raunar hugsað til dagbókaflokks Berts þegar ég las Takk útrásarvíkingar; heimurinn hreinlega snýst um Láru og allt er annaðhvort glatað eða geggjað.

Þetta er einum of mikið af því góða, þegar öll meining og innihald drukkna í orðaflaumnum. Það er líka dálítið einkennilegt að manneskjan sem hefur verið eignaður frasinn „Takk útrásarvíkingar!“ stæri sig af því í hálfkæringi að nenna ekki að hafa skoðanir á pólitík og að hún hafi á tímabili séð atvinnuleysi í rósrauðum bjarma. Ég tala nú ekki um að nota spjaldið „einstæð móðir“ til að fá samúð. Eflaust á þetta allt að vera ljómandi kaldhæðið og fyndið en í þessu samhengi, þegar allt á að vera öðrum að kenna, missir þetta marks.

Það væri reyndar forvitnilegt að vita hvar mörkin liggja milli Láru í bókinni og höfundarins Láru, hvað er ýkt og hvað ekki. Með eindæmum áhyggjufullur faðir hennar kemur til dæmis víða við sögu í bókinni og hann er án efa einn skemmtilegasti karakter sem ég hef lesið um í langan tíma. Ég sé það alveg fyrir mér að Lára geti heillað upp úr skónum með örlítið ýktum sögum af sjálfri sér og fjölskyldunni sinni, ef hún aðeins gírar niður.

Hólmfríður Gísladóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.