Líkmenn glatkistunnar eftir Bjarka Bjarnason er hressileg bók.
Líkmenn glatkistunnar eftir Bjarka Bjarnason er hressileg bók. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarka Bjarnason Frá hvirfli til ilja 2010, 127 bls.

Líkmenn glatkistunnar er hressileg bók. Fjallað er um nútímalandnám Ingólfs og (Hjör)Leifs í auðn hippahugsjónarinnar, í anda sem enginn er, í ræsum Kaupmannahafnar og draumaríkinu Kristjaníu, Friðriksíu. Þeim sem horfa til hippatímans með glýju í augunum mun ekki líka við þessa bók. Hún fer ekki ljúfum höndum um þann tíma.

Bókin er í stíl picaresque-bókmennta, þar sem hetjurnar eru hálfgerðir þrjótar og vitleysingar. Ingólfur og Leifur eru sjómenn miklir og ferðast frá Íslandi til meginlandsins og þaðan norður til Kaupmannahafnar. Markmiðið er jafn óljóst og markmið hippamenningarinnar en niðurstaðan er hlandblaut og áþreifanleg. Einhverskonar „ekta plat“ einsog Zetó nokkur í sögunni segir um peningaseðil sem hann hafði falsað en varð raunverulegur og ekta við það að komast í umferð og virka sem seðill eins og hver annar seðill. Leifur er eiginlega prótagónisti sögunnar og Ingólfur dregst með honum í ævintýrinu og fylgist með. Leifur er snjall maður sem tekst að ná frama í klámmyndaiðnaðinum og á leiksviði í Friðriksíu og loks sem jakkafataklæddur peningakarl í hassheiminum. Ingólfur lokar samt sögunni með því að snúa aftur til Íslands, en þó ekki fyrr en hann hefur séð og lesið á leiði þeirra beggja í Köben. Ingólfur er bókelski maður teymisins, lifir sig inn í Ólaf Ljósvíking. Hann er ávallt með þrjár bækur undir koddanum sínum; Ljósvíkinginn, Góða dátann Svejk og Nýja testamentið. Tilvísanir eru samt fáar í annað en Ljósvíkinginn.

Húmorinn í bókinni er á löngum köflum mjög hassaður. Ef maður leyfir sér að sleppa taumnum er hægt að hlæja með lýsingum eins og úr Ingólfsannál: „Svo mikil hassneysla var í Parthenon á góunni að reykjarmökkur stóð út úr eyrum og endaþarmi.“ Eða af sögunni um Gylfa: „Samt mælti Gilfy Þodn orðrétt: jeg siger mange tak for hashen í kassen.“ En þar hljómar íslenska danskan víst eins og hann sé að þakka fyrir hassið í kassanum. Það er ærslagangur í öllum húmornum hjá Bjarka í þessari bók. En það er líka ógn. Daginn sem Leifur hættir að vinna fyrir sér allsnakinn og klæðir sig í jakkaföt fær Ingólfur áfall. Enda mun nýi vinnubúningurinn ekki færa honum neitt gott.

Ingólfur er einn af líkmönnum glatkistunnar og allt er grafið og gleymt í hassinu í Friðriksíu. Hann hittir Krist eitt sinn á turni sem orðar þetta ágætlega við hann: „Þú finnur ekki frelsarann nema þú komir sjálfur með hann.“

Maður fær á tilfinninguna að sumar sögurnar séu sannar. Eins og sagan af fyrrnefndum Zetó sem Kjarval lofar fyrir að falsa sig af miklum hæfileika og segir að þetta svindl hafi verið gert af svo miklum talent að það verði að senda þennan mann út til náms. Bókin er full af fallegum litlum sögum og vitleysisgangi hjá þeim félögum.

En stefnuleysi farar þeirra félaga nær inn í sögubygginguna þannig að lesandinn verður hálf-áttavilltur líka. Þess vegna nær hún ekki að heilla mann með afgerandi hætti.

Börkur Gunnarsson