Vinir Þótt þau séu ólík þá eru þau góðir vinir, Kolbrún og Hannes og hafa aldrei rifist.
Vinir Þótt þau séu ólík þá eru þau góðir vinir, Kolbrún og Hannes og hafa aldrei rifist. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær ólíkar manneskjur eru með tvær líkar bækur á markaði fyrir jólin. Tilvitnanabækur eru eins og kistur fullar af gullmolum Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is

Tvær merkilegar tilvitnanabækur eru komnar út. Annarsvegar er það Tilvitnanabókin sem Kolbrún Bergþórsdóttir safnaði í og hinsvegar Kjarni málsins sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók saman. Bók Kolbrúnar er handhægari enda tæplega 400 síður á lengd meðan bók Hannesar er tæplega 1000 síður. Kolbrún er með þúsundir snjallyrða hvaðanæva úr heiminum og nýtir sér þónokkuð nútímaskáldskap og jafnvel barnabókahöfunda. Bók Hannesar er klassískari og er stofninn úr Íslenskum tilvitnunum sem hann gaf út fyrir fimmtán árum. Blaðamaður Morgunblaðsins hitti höfundana saman á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. „Já, ég notast við þessa bók sem ég gaf út fyrir fimmtán árum sem stofn en það lætur nærri að verkið hafi þrefaldast síðan þá. Ég reyndi að bæta við tilvitnunum í konur og í höfunda frá öðrum málsvæðum en hinu enska,“ segir Hannes.

Bæði Kolbrún og Hannes skoðuðu vel aðrar tilvitnanabækur sem komið hafa út einsog Oxford Dictionary of Quotations, New Dictionary of Quotations og fleiri þekktar bækur áður en þau settu sínar saman. „Þetta eru samt mjög ólíkar bækur,“ segir Kobrún. „þótt sumt sé eins. Til dæmis notumst við bæði mikið við snjalla menn einsog Jónas Hallgrímsson og Sigurð Nordal. En auk þess að nota gamla klassík reyndi ég mjög meðvitað að koma að sem mestu af nútímaskáldskap og huga að barnabókahöfundum. Ég vildi líka að bókin yrði skemmtileg. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að vera innanum skemmtilegt fólk. Ég held að það sé ein ástæðan fyrir því að dálæti mitt á Oscar Wilde hefur aldrei minnkað, alveg frá unglingsárunum. Hnyttnar og skemmtilegar setningar hafa alltaf glatt mig,“ segir Kolbrún.

„Já, ég einbeiti mér að þjóðlegum fróðleik og alþjóðlegum í bókinni,“ segir Hannes. „Ég hef unnið að þessu í fimmtán ár og það hafa margir komið að þessari vinnu. Mér fannst áhugavert við gerð bókarinnar hvað vandamál mannlegrar tilveru eru oftast lík, jafnvel kynslóða á milli. Þjáning mannsins er svipuð, angist hans og gleði. Annað sem tók mikinn tíma hjá mér var að feðra tilvitnanir rétt en fyrir vikið er bókin miklu betri en internetið til að finna ummæli eða réttfeðraðar tilvitnanir. Bókin er ansi nákvæm og sagt frá ýmsum augljósum líkingum á ljóðum Steins Steinarr við ljóð Jensens og fleira slíkt sem ekki hefur komið áður fram. Ég vil taka það fram að það gerir Stein ekki að síðra skáldi þótt hann hafi verið undir áhrifum frá öðrum.“

Ólíkir vinir

Kolbrún og Hannes eru góðir vinir og aðspurð hvernig þau hafi kynnst eru þau ekki með það á hreinu. „Ég held samt að við höfum hist fyrst þegar ég var að frumsýna sjónvarpsmynd sem ég hafði gert í tilefni af 50 ára afmæli NATO,“ segir Hannes. Kolbrún tekur undir það en síðar áttu þau eftir að starfa saman að þáttunum Maður er nefndur þar sem Kolbrún var spyrill í þáttunum sem Hannes stýrði. „Það kemur kannski fólki á óvart að við höfum aldrei rifist,“ segir Kolbrún. „En ég held að við hefðum ekki getað orðið vinir nema af því að mér er frekar hlýtt til Davíðs Oddssonar,“ segir hún og hlær. „Já, það er rétt,“ segir Hannes. „Það eina sem hefur komið uppá er að hún hefur stundum varið menn sem ég hef deilt á.“