Stund milli stríða. Ómar hvílir lúin bein á Hvolsvelli. Hann var vakinn og sofinn yfir gosinu í Eyjafjallajökli. Frúin skammt undan sem endranær.
Stund milli stríða. Ómar hvílir lúin bein á Hvolsvelli. Hann var vakinn og sofinn yfir gosinu í Eyjafjallajökli. Frúin skammt undan sem endranær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 2010 hefur verið ár Ómars Ragnarssonar. Eyjafjallajökull gaus, honum barst óvæntur fjárstyrkur, afmælisdagurinn hans var gerður að degi íslenskrar náttúru og hann var kjörinn á stjórnlagaþing.

Árið 2010 hefur verið ár Ómars Ragnarssonar. Eyjafjallajökull gaus, honum barst óvæntur fjárstyrkur, afmælisdagurinn hans var gerður að degi íslenskrar náttúru og hann var kjörinn á stjórnlagaþing. Þá hélt Ómar upp á sjötugsafmælið og gerði upp líf sitt með þjóðinni sem skemmtikraftur. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Ljósmynd: Ragnar Axelsson rax@mbl.is

Afdrep segirðu. Merkilegt orð, afdrep. Er það ekki bara annað orð yfir kirkjugarð?“

Ómar Ragnarsson kemur á hæla mér upp stigann í Hádegismóum. Hann greip orðið á lofti enda lengi haft yndi af því að smíða ný orð og ekki síður að leggja nýja merkingu í gömul orð. „Ég er reyndar með annað orð yfir kirkjugarð,“ segir hann galsafenginni röddu. „Nábýli.“ Ómar er enn fyrir aftan mig en ég þarf ekki að snúa mér við – heyri hann taka bakföll.

Ég minnist ekki á það en velti fyrir mér hvað hefði gerst hefði ég notað orðið kytra.

„Þetta hefur verið ár hinna óvæntu atburða,“ upplýsir Ómar þegar við höfum fundið okkur afdrep – nú eða kirkjugarð. „Það átti að verða allt öðruvísi en það varð. Árið 2010 ætlaði ég að nota til að gera upp mína samveru með þjóðinni sem skemmtikraftur en komst ekki í það fyrr en undir lokin vegna óvæntra anna á allt öðrum vettvangi.“

Fyrsti atburðurinn sem ekki var á dagskrá en togaði Ómar til sín var eldgosið í Eyjafjallajökli. „Það byrjaði í mars, þann 21. ef ég man rétt,“ segir Ómar og seilist í brjóstvasann eftir minnisbókinni. „Jú, jú, stendur heima, aðfaranótt 21. mars. Þá byrjaði ballið.“

Ég hef heyrt talað um minnisbækur Ómars Ragnarssonar. Þar er engu logið.

Bjó í bílnum fyrir austan

Alla vega. Ómar lét ekki segja sér það tvisvar, brenndi austur og dvaldist þar meira og minna næstu vikurnar. „Ég bjó við gosstöðvarnar í pínulitla bílnum mínum. Það er svo þægilegt að sofa í honum, hann er eins og svefnpoki.“

Það er ekki bara íslenska þjóðin sem tengir Ómar við eldgos og aðrar jarðhræringar. Hann hefur liðsinnt fjölmörgum erlendum fréttamönnum gegnum tíðina, flogið með þá og verið þeim innan handar. Ekki leið heldur á löngu áður en sími Ómars var orðinn ámóta heitur og eldgígurinn sjálfur. „Ég hafði verið viðriðinn 21 eldgos á undan þessu og kynnst fjölmörgum erlendum blaða- og fréttamönnum. Nú byrjuðu þeir að hringja og spyrja frétta. Þetta var heilmikil vinna, að mestu kauplaus, enda sáu sumir miðlarnir ástæðu til að fjalla um mig í leiðinni. Ísraelska sjónvarpið gerði til dæmis heilan þátt. Þetta voru meiri lætin. Sumir eru ennþá að moða úr sínu efni, svo sem National Geographic.“

Ein stærsta sjónvarpsstöð heims, Al Jazeera, gat ekki sent mann strax á vettvang og brá fyrir vikið á það ráð að taka Ómar „traustataki“, eins og hann orðar það. „Allt í einu var ég bara kominn í uppistand hjá þeim fyrir framan milljónir manna, beint í gegnum hnött.“

Ísgjáin barin augum

Ómar er sannfærður um að gosið í Eyjafjallajökli verði lengi í minnum haft, ekki bara sakir umfangs þess og röskunar á högum milljóna manna, heldur líka vegna sérstöðu þess. Nefnir hann þar annars vegar magnaðar hljóðbylgjurnar, sem hann man ekki eftir nema í Heklugosinu 1980, og hins vegar að mannlegt auga hafi fengið að líta ísgjána. „Óvíst er að það muni gerast aftur.“

Annar atburður sem breytti áformum Ómars á árinu kom líka eins og þruma úr heiðskíru lofti. „Ég var úti á landi á flandri með Andra [útvarpsmanni á Rás 2] þegar ég frétti að bláókunnugur maður búsettur í Danmörku hefði hrint af stað peningasöfnun mér til handa í tilefni af sjötugsafmæli mínu. Ég ætlaði ekki að trúa þessu. Hann hugðist víst bera þetta undir mig fyrst en náði ekki sambandi.“

Söfnun þessi, sem Friðrik Weisshappel, veitingamaður, stóð fyrir fór fram úr björtustu vonum. „Þetta var eins og himnasending en á þessum tíma var ég fjárhagslega að þrotum kominn,“ segir Ómar alvarlegur í bragði og bætir við að framtakið verði seint fullþakkað.

Stuðningurinn hefur gert Ómari kleift að halda áfram með kvikmynd, sem hann hefur verið með í smíðum undanfarin ár, og helguð er íslenskri náttúru. „Myndin var stopp en er nú komin vel á veg. Ég er með mann að klippa hana núna,“ upplýsir hann. „Myndin tefst kannski aðeins vegna stjórnlagaþingsins en hún mun koma. Ekkert getur stöðvað hana úr þessu.“

Þar með var ekki allt búið. Það óvæntasta af öllu óvæntu var eftir. Á sjötugsafmæli Ómars, 16. september, var tilkynnt að dagurinn yrði framvegis dagur íslenskrar náttúru. Hann rak í rogastans. „Á dauða mínum átti ég von, eins og menn segja stundum, en ekki því að dagur íslenskrar náttúru yrði lögfestur – og það á afmælisdegi mínum.“

Aðdragandinn var sem kunnugt er með nokkrum ólíkindum. „Það var Hreiðar Pálmason, alþýðumaður af bestu gerð sem ég þekkti ekki neitt, sem fékk hugmyndina. Greindi fréttamanni frá henni, fréttamaðurinn hringdi í ráðherrann og innan klukkustundar var búið að ganga frá þessu. Hvar annars staðar í heiminum myndi þetta gerast?“

Mestu verðmæti landsins

Ekki þarf að fjölyrða um að Ómari þykir framtakið dýrmætt. „Við höfum lengi átt dag íslenskrar tungu og þar sem þjóðin og tungan eru afleiða af landinu fer vel á því að helga því líka sérstakan dag. Þetta var að vísu viðurkenning á því sem ég hef verið að gera en þó fyrst og fremst dýrmætt fyrir kynslóðirnar sem erfa landið. Við dröttuðumst þá til þess að búa til dag handa þeim og sinna mestu verðmætum þessa lands.“

Síðustu tíðindin til að koma Ómari á óvart á árinu voru kjör hans á stjórnlagaþing á dögunum. „Ég átti ekki von á því að ná kjöri en þingið leggst vel í mig. Mér líst vel á hópinn, hann er fjölbreyttur og skemmtilega samsettur enda þótt fleiri hefðu mátt koma af landsbyggðinni. Aðalatriðið er þó að stjórnlagaþing finni samhljóm með þjóðfundinum. Þar er okkar bakland. Þjóðfundurinn var spegilmynd samfélagsins. Ég bind miklar vonir við niðurstöðu þingsins en að sjálfsögðu mun framtíðin skera úr um hvort framtakið hafi verið til góðs eða ills.“

Örfá ár svona

Spurður hvort árið 2010 sé með betri árum sem hann hafi lifað flýtir Ómar sér að kinka kolli. „Tvímælalaust. Það eru örfá ár svona. Í fljótu bragði man ég bara eftir þremur. 1959, þegar ég varð atvinnuskemmtikraftur á örfáum mánuðum. 1961, þegar ég kynntist konunni minni, henni Helgu, og 1981 þegar allt gekk upp; Sumargleðin náði hæstu hæðum og bíll okkar Jóns bróður vann öll rallmót sem honum var att fram í.“

Hann þagnar og hugsar sig um stutta stund.

„Sjáðu til, árin eru eins og bylgjur sjávarins,“ trúir hann mér síðan fyrir. „Það koma bylgjutoppar og öldudalir. Öldudalirnir eru ekki síður nauðsynlegir, því án þeirra lærum við ekki að meta bylgjutoppana.“

Undanfarin misseri hafa verið þessari þjóð erfið. Um það er engum blöðum að fletta. Spurður hvort land muni rísa á næsta ári horfir Ómar hugsi út á Rauðavatn. Síðan segir hann: „Í dag [síðastliðinn þriðjudag] er sólin í lægstu stöðu sem hún getur komist í. Segja má að íslenskt þjóðfélag sé á sama stað. Það eru sólstöður í þjóðlífinu. Við vitum hins vegar að sólin mun rísa. Fyrst hægt og rólega en síðan hraðar og hraðar. Sama máli gegnir um þjóðfélagið...“

Á tímabili var þetta náttúrlega bilun!

Barnalán hefur leikið við Ómar Ragnarsson. Börnin eru sjö og barnabörnin 21. „Barnabörnin eru enn að koma. Síðast fæddist hún Eva litla í sumar. Látum okkur nú sjá, það var á Bastilludaginn, 14. júlí,“ segir afinn stoltur og nú þarf hann ekki að grípa til minnisbókarinnar.

Jólin eru hátíð barnanna og fjölskyldunnar og Ómar kveðst alltaf njóta þeirra jafn innilega. „Fjölskyldan hittist mikið yfir jólin. Seint á aðfangadagskvöld koma öll börnin og barnabörnin til okkar Helgu og annan í jólum komum við aftur saman hjá einu barnanna. Það er yndislegt. Ég verð þó að viðurkenna að Helga hefur borið hitann og þungann af þessari hátíð gegnum árin. Það hefur jafnan verið í mörg horn að líta hjá mér, bæði við að skemmta fólki og vinna annál ársins meðan ég var í fréttunum. Á tímabili var þetta náttúrlega bilun,“ viðurkennir hann hlæjandi.

Ómar er tengdur jólunum órofa böndum vegna hæfni sinnar til að bregða sér í gervi jólasveinsins. Í upphafi stóð þó aldrei til að hann fetaði þá braut.

„Fyrstu árin sem ég var að skemmta fólki vildi ég ekki koma nálægt neinu jólasveinastandi, jafnvel þótt til mín væri leitað. Þótti óviðeigandi að græða á Jesúbarninu. Fljótlega gerði ég mér hins vegar grein fyrir því að jólin eru bráðnauðsynleg fyrir andlega heilsu þjóðar sem býr við myrkur og kulda á þessum árstíma.“

Ómar nálgaðist þetta verkefni, jólasveininn, ekki með hálfum huga frekar en annað sem hann tekur sér fyrir hendur. Um árabil setti hann sér það takmark að koma með nýjan söngleik á hverju ári fyrir jólaskemmtanir. Upp úr því spruttu meðal annars þrjár Gáttaþefsplötur.

Jólabæn einstæðingsins

Í ár hefur aðventan verið öðruvísi en áður hjá Ómari. Hann hefur nefnilega verið að æfa og syngja með kirkjukórum og halda hugvekjur í kjölfarið. Þemað í þeim hugvekjum er eitt af olnbogabörnum samfélagsins – einstæðingurinn. „Það hefur spunnist dagskrá í kringum lagið Jólabæn einstæðingsins. Því miður eru einstæðingarnir víða, jafnvel í næsta húsi, án þess að maður verði þeirra var. Alla mína tíð hafa einstæðingar verið nálægir. Þeim virðist alltaf skola upp í hendurnar á mér. Tvö ömmusystkin mín í móðurætt voru miklir einstæðingar, sömuleiðis afabróðir minn í föðurætt. Sem barn var ég um tíma á sveitabæ, þar sem voru fjórir einstæðingar. Það er aldrei eins brýnt að gefa þessu fólki gaum og á aðventu og jólum.“

Styðjum hvert annað

Ómar Ragnarsson fagnar fimmtíu ára afmæli sínu sem skemmtikraftur með útgáfu á 72ja laga úrvali úr meira en 300 lögum og textum sínum sem gefnir hafa verið út á plötum, Ómar í hálfa öld.

Þar er meðal annars að finna lagið Styðjum hvert annað frá árinu 2008 en í því kristallast lífssýn höfundar. Ljóðið er svona:

Láttu ekki mótlætið buga þig, heldur brýna!

Birtuna má aldrei vanta í sálu þína.

Ef hart ertu leikinn, svo þú átt í vök að verjast,

vertu ekki dapur, njóttu þess heldur að berjast!

Ef við höfum hvert annað í ást og trú.

Ef við höfum hvert annað er von mín sú

að við náum að lenda eftir háskaför.

Þótt við lendum í strandi aftur ýtum úr vör.

Ef við styðjum hvert annað við erum sterk.

Ef við styðjum hvert annað við okkar verk

erum glöð yfir því sem er okkur næst.

Ef við styðjum hvert annað geta fagrir draumar ræst.

Látum ei mótlætið buga okkur, heldur brýna!

Brosum og elskum og látum ljós okkar skína!

Því lífið er dásamleg gjöf, sérhvert ár, sérhver dagur.

Ef sýnum við staðfestu vænkast mun okkar hagur.