Fáir tóku þátt í kosningu til hins svokallaða stjórnlagaþings og niðurstaða kosningarinnar var flestum óskiljanleg. Nú standa yfir kærumál um þá niðurstöðu og enginn veit hvernig fer.

Fáir tóku þátt í kosningu til hins svokallaða stjórnlagaþings og niðurstaða kosningarinnar var flestum óskiljanleg. Nú standa yfir kærumál um þá niðurstöðu og enginn veit hvernig fer.

Síðan er komið í ljós, samkvæmt könnun sem Miðlun vann fyrir félagið Andríki, að ríflega tveir af hverjum þremur sem afstöðu taka telja að fjármunum sé illa varið í stjórnlagaþingið.

Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar kostnaðurinn við þessa ráðstefnu er talinn verða 600-700 milljónir króna. Það munar um minna á niðurskurðartímum og óhætt að fullyrða að víða var þörfin brýnni.

Stjórnlagaþingið svokallaða er því haldið í óþökk mikils meirihluta þjóðarinnar. Allir hljóta að sjá að þetta er ekki farsæl leið til að hefja endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Stjórnlagaþingið er ekki einstakt dæmi um óheppilega eða jafnvel öfuga forgangsröðun. Því miður rekur hvert dæmið annað í þessu efni og raunar er vandfundið það stóra mál á sviði stjórnmálanna sem ekki er rekið áfram á röngum forsendum.

Framundan er sá tími ársins sem best er til þess fallinn að íhuga mál vandlega, endurskoða og endurmeta. Flest þeirra mála sem rekin hafa verið áfram með öfugum formerkjum á síðustu misserum eru þess eðlis að þau má taka upp, endurmeta og afturkalla.

Það eina sem þarf er hugrekki til að viðurkenna mistökin og þrek til að leiðrétta þau.