Gullið Íris Mist Magnúsdóttir sýnir verðlaunapeninginn sem hún fékk á Evrópumótinu í Malmö í haust.
Gullið Íris Mist Magnúsdóttir sýnir verðlaunapeninginn sem hún fékk á Evrópumótinu í Malmö í haust. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
viðtal Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Íris Mist Magnúsdóttir, 23 ára fimleikakona, er á meðal 10 efstu í kjöri íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Hún er nýliði á þessum lista og fyrsti fimleikamaðurinn á meðal 10 efstu frá árinu 2006.

viðtal

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Íris Mist Magnúsdóttir, 23 ára fimleikakona, er á meðal 10 efstu í kjöri íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Hún er nýliði á þessum lista og fyrsti fimleikamaðurinn á meðal 10 efstu frá árinu 2006.

Það er ekki að ástæðulausu sem Íris Mist kemst á listann enda gegnir hún lykilhlutverki í besta hópfimleikaliði heimsins í dag, Evrópumeistaraliði Gerplu. Því til rökstuðnings má nefna að Íris framkvæmdi tvær tegundir af trampólínstökkum á EM í Malmö í október sem konur höfðu aldrei reynt áður á stórmótum.

Stelpur höfðu aldrei reynt þessi stökk á stórmótum

„Þetta eru svolítil „strákastökk“. Strákarnir eru þyngri, komast lengra ofan í trampólínið, og eru bara sterkari eins og gengur. Þeir hafa notað þessi stökk en stelpur höfðu aldrei reynt þau á stórmótum. Ég hafði prófað þetta á mótum heima en gerði þetta svo í fyrsta sinn á stórmóti þarna,“ sagði Íris Mist við Morgunblaðið í gær.

„Ég hef alltaf verið sterk í trampólínstökkum. Annað stökkið er þannig að ég geri tvöfalt heljarstökk með beinum líkama, og tvær og hálfa skrúfu í því. Hinar stelpurnar gera þetta stökk með einni og hálfri skrúfu.

Þegar maður er kominn með eina tegund af stökki og kann hana alveg upp á 10 reynir maður oftast að bæta einhverju við hana. Ég gat gert venjulega stökkið, með einni og hálfri skrúfu, fyrir fimm árum og prófaði svo þetta stökk í einhverju léttu glensi fyrir fjórum árum. Þá var þetta stökk ekki einu sinni inni í dómaratöflunni í kvennaflokki og gilti því ekki. Núna hefur reglunum verið breytt og þá kom kellan sterk inn,“ sagði Íris Mist létt, en hún tók einnig trampólínstökk með aðstoð fimleikahests sem enginn annar keppandi á EM gat leikið eftir.

„Nokkrar aðrar eru farnar að kunna þetta núna og við verðum með fleiri svona stökk á Norðurlandameistaramótinu á næsta ári. Við tökum það mót líka,“ bætti hún við.

Tvö bestu liðin sameinuð

Íris Mist, sem er 23 ára gömul, byrjaði í áhaldafimleikum sjö ára gömul hjá Stjörnunni. Þar átti hún góðu gengi að fagna en hún skipti yfir í hópfimleika 15 ára gömul og fór svo ásamt fríðu föruneyti til liðs við Gerplu 18 ára gömul.

„Við fórum allur hópurinn úr Stjörnunni yfir í Gerplu þegar þjálfararnir okkar skiptu þangað, og þar hef ég verið síðan. Við vildum vera með þessa þjálfara áfram, og þarna varð þá til gríðarlega sterkt lið því Stjarnan hafði verið í 1. sæti og Gerpla í 2. sæti,“ sagði Íris Mist, en af hverju skipti hún yfir í hópfimleikana?

Var bara komin á gelgjuna

„Ég var bara komin á gelgjuna. Maður var orðinn eitthvað leiður á að vera í 10 klukkutíma á dag á æfingum í áhaldafimleikum, og vildi hafa tíma til að hitta vini sína og svoleiðis. Ég tók mér smápásu og kom svo bara til baka í hópfimleikana. Ég sé ekki eftir því. Þótt mér hafi fundist áhaldafimleikarnir ótrúlega skemmtilegir á sínum tíma þá eru hópfimleikar það allra skemmtilegasta sem ég hef á ævinni gert.

Hópfimleikar fyrir breiðari hóp

Hópfimleikarnir eru fyrir breiðari hóp iðkenda. Rétt eins og það geta allir spilað fótbolta þá geta mun fleiri reynt fyrir sér í hópfimleikum. Í áhaldafimleikum þarftu að vera svo ótrúlega sterkur, liðugur og klár í hausnum til að ná árangri. Svo skiptir aldur og hæð líka máli, og maður getur ekki verið lengi í áhaldafimleikunum,“ sagði Íris Mist sem hefur greinilega gaman af sinni íþrótt, enda kannski eins gott miðað við æfingaálagið sem henni fylgir.

Æfum alltaf meira en hin liðin

„Fyrir mót eins og Evrópumeistaramótið æfum við um það bil 18 klukkutíma á viku. Það kemur auðvitað stundum þreyta í mann en þegar maður er að æfa fyrir mót er maður drifinn áfram af markmiðinu að ná fram sínu besta á því. Svo er stundum rólegra hjá okkur, og við erum til dæmis núna í „sumarfríinu“ sem við fengum ekki í sumar. En þjálfarinn okkar segir alltaf: „Þegar allir aðrir eru farnir úr salnum þá erum við ennþá að æfa,“ og við höfum það í huga. Við ætlum alltaf að æfa meira en hin liðin,“ sagði Íris Mist, sem leggur stund á íþróttafræði við HR og var að klára sína fyrstu önn þar.

Íris Mist Magnúsdóttir
» Hún er 23 ára fimleikakona úr Gerplu sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum í október.
» Hún er ein af 10 efstu í kjöri íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 2010.
» Íris Mist hóf að æfa fimleika sjö ára gömul, fyrst með Stjörnunni, en skipti yfir í Gerplu 18 ára gömul. Hún hafði þá æft hópfimleika í þrjú ár.