Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Trúin á dómskerfi okkar var ekki meiri en það eftir að sá einn hlaut dóm er upplýsti um viðskipti og lifnað Bónusfeðga og vildarvina í USA."

Fátt hefur orðið til að gleðja þjóðina síðan útrásarvíkingarnir rústuðu þjóðfélagi okkar af græðgi og einbeittum brotavilja. Það eru helst tvö mál. Þjóðaratkvæðgreiðsla um Icesave og að skilanenfnd Glitnis stefndi einu genginu fyrir dóm í New York. Þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni segir að niðurstaðan hafi verið fagnaðarefni þjóðarinnar allrar. Flestir eru minnugir þess, hvernig Baugsfeðgar og fylgilið í skjóli auðs, fjölmiðlaveldis og „góðra“ lögmanna sluppu við makleg málagjöld. Það var oft ömurlegt að hlusta á í sjónvarpinu, hvernig héraðsdómari talaði niður til og niðurlægði saksóknara ríkisins. Niðurstaða dómsins kom engum á óvart. Það var eins og hún væri löngu ákveðin enda höfuðpaurinn þekktur fyrir að bjóða 300 millur sínum málum til framdráttar. Nú vita allir hversu siðlausir þessir herramenn eru og hvern mann þeir hafa að geyma, líkt og gerðist með Kio Briggs, sem sýknaður var af e-töflusmyglinu.

Þrátt fyrir að engum öðrum en þeim sjálfum og lögmönnum þeirra detti í hug að þræta fyrir að þeir hafi auk bankanna skafið fjölda fyrirtækja að innan og komið góssinu úr landi var þjóðin orðin úrkula vonar um að þeir yrðu dæmdir, hvað þá lokaðir inni, þó svo þeir yrðu leiddir fyrir dómara. Trúin á dómskerfi okkar var ekki meiri en það eftir að sá einn hlaut dóm er upplýsti um viðskipti og lifnað Bónusfeðga og vildarvina í USA. Þá kom skilanefndin og stefndi genginu í New York. Því fagnaði þjóðin, sem í skilanefndinni sá ljósið í myrkrinu.

Nú hefur það gerst, að dómari í New York hefur vísað málinu til Íslands og Fréttablaðið birt grein um, hversu miklum fjármunum skilanefndin hafi sóað í málatilbúnaðinn. Lögmenn, sem sumir í áraraðir hafa gert út á gengið, tóku strax undir. Beindu því til skilanefndarinnar til umhugsunar, að hún hefði ekki haft góða ráðgjafa og hvað hefði mátt gera fyrir kostnaðinn. Hvort tveggja gamalkunnar klisjur frá Baugsmálinu, þegar þessir sömu lögmenn og Fréttablaðið í síbylju tíunduðu málskostnað ríkisins og níddu þá niður, sem sóttu málið. Í sambandi við kostnaðinn ættu þeir að reikna áfram. Fyrir 100 milljarða er hægt að gera 100 x meira en fyrir einn. Eitt hundrað miljarðar (= 100.000.000.000 kr.) er aðeins einn tíundi af gjaldþroti Baugs, Haga, Gaums eða hvað þetta nú heitir.

Foringinn hefur nú sett upp geislabauginn og ætlar að sækja „rétt sinn“. Segir málskostnaðinn skipta hundruðum millióna og ætlar í skaðabótamál. Aðdáunarvert, hversu mikinn kjark og lánstraust maður með svona málstað hefur, sem þar fyrir utan er svo til eignalaus, að eigin sögn. Líklegast hefur hann fengið lán hjá þeim hinum sömu erlendu fjárfestum á Tortola eða í Lúxemborg, sem lögðu Fréttablaðinu til fé og bjóða með þeim feðgum í ættarveldið, sem Arion banki gætir nú fyrir þá. Verði afgangur, þegar lánardrottnarnir hafa fengið sitt, skyldi hann þá vera búinn að ráðstafa fénu til líknarmála? Líkt og pabbinn, sem eftir Baugsskandalann ætlaði í mál við ríkið og lofaði að láta skaðabæturnar ganga til Mæðrastyrksnefndar.

Hreint ótrúlegt er, hversu mikill hroki og siðleysi getur komið fram hjá manni, sem öðrum fremur hefur á samviskunni að tugþúsundir landa hans hafa misst ævisparnað sinn og fyrirtæki orðið gjaldþrota. Þúsundir manna hafa hrakist úr landi í atvinnuleit fyrir utan þann fjölda, sem er í röðinni hjá Fjölskylduhjálpinni. Á sama tíma og stjórnvöld hafa neyðst til að skera niður í heilbrigðisþjónustu svo um munar berast þær fréttir frá landlækni, að ein afleiðing hrunsins sé að geðheilsu þjóðarinnar hafi hrakað og eigi eftir að versna á næstu árum. Svo segist hann ætla að sækja rétt sinn!

Enn ótrúlegra er að nokkur heiðvirður lögmaður skuli leggja sig niður við að verja þessa landráðamenn. Hafi þeir ekki vitað fyrir, hvers konar menn þetta eru, þá ættu þeir að vita það núna, en dansinn í kringum gullgrísinn með geislabauginn lætur ekki að sér hæða. Að mínu mati er fé og vinnu til að endurheimta ránsfenginn vel varið óháð árangrinum. Það má ekkert til spara að réttlætið nái að fram ganga. Í því sambandi ættu stjórnvöld að leggja til hliðar mál, sem sl. tvö ár hafa þvælst fyrir og tekið mestan tíma. Einbeita sér að því að finna þýfið og lækka með því skatta í stað þess að finna upp nýja og nýja skatta á einstaklinga og fyrirtæki.

Til þeirra lögmanna, sem í framtíðinni koma að þessu máli, hvort heldur er í vörn eða sókn beini ég til umhugsunar, að það gildir eins með illan orðstír og góðan orðstír. Illur orðstír deyr aldregi, þó deyi fé og deyi frændur.

Höfundur er verkfræðingur.