Að skreyta húsið sitt fyrir jólin og fást við bútasaum er ekki svo ólíkt, segja Ásdís Erla og Sölvi á Óðinsvöllum.
Að skreyta húsið sitt fyrir jólin og fást við bútasaum er ekki svo ólíkt, segja Ásdís Erla og Sölvi á Óðinsvöllum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Byggðin í Vallahverfinu í Reykjanesbæ sker sig úr að því leyti að óvíða eru eins fallegar jólaskreytingar. Nánast í hverju húsi hefur fólk skreytt húsin sín með þeim hætti að eftirtekt vekur.

Byggðin í Vallahverfinu í Reykjanesbæ sker sig úr að því leyti að óvíða eru eins fallegar jólaskreytingar. Nánast í hverju húsi hefur fólk skreytt húsin sín með þeim hætti að eftirtekt vekur. „Jú, það er búinn að vera heilmikill rúntur um hverfið að skoða ljósadýrðina,“ segir Ásdís Erla Guðjónsdóttir. Þau Sölvi Rafn Rafnsson, eiginmaður hennar, búa á Óðinsvöllum 17 í Reykjanesbæ og fengu á dögunum viðurkenningu bæjaryfirvalda fyrir Ljósahúsið 2010.

Húsið við Óðinsvelli þykir skreytt afar glæsileika og sama má raunar segja um ýmis fleiri við þessa götu sem er U-laga og fékk viðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir þessi jólin sem fallegasta skreytta gatan. Árið 2008 unnu Ásdís Erla og Sölvi til aukaverðlauna fyrir fallega skreytingu við Hólagötu í Njarðvík þar sem þau bjuggu þá. Sama var upp á teningnum meðan þau bjuggu á Selfossi, þá vakti hús þeirra athygli fyrir fallegar skreytingar og fengu eigendurnir tvívegis verðlaun sveitarfélagsins Árborgar.

„Mér finnst gaman að skapa og búa til eitthvað fallegt í kringum mig, í garðinum eru til dæmis jólakarlar sem sagaðir eru út úr krossvið og málaðir og svo lýstir upp með kösturum. Raunar tökum við svolítið langan tíma í að koma skreytingunum upp. Ég er svolítið smámunasöm með þær og reyni að halda ákveðnum heildarstíl. Fyrstu jólaljósin hengir bóndinn upp fyrir bæjarhátíðina Ljósanótt sem er fyrstu helgina í september. Svo erum við smám saman að bæta við þetta allt haustið. Þá er hefð á heimilinu að kveikja á öllu fyrsta sunnudag í aðventu. Við gerum smá úr þeirri athöfn, fáum okkur kakó og smákökur, fögnum ljósinu og því að aðventan sé að ganga í garð. Mér finnst ljósagleðin lengja daginn og stytta skammdegið enda tökum við skreytingarnar ekki niður fyrr en líða tekur á janúar og komið fram á þorra. Þessi mikla jólaljósadýrð hér í bæ virðist vera sterk hefð og sífellt fleiri láta ljósin loga lengur, sem mér finnst af hinu góða,“ segir Ásdís Erla sem meðal annars fæst við að hanna bútasaumssnið á vinnustofu sinni sem seld eru undir merkjum www.fondur.is hér innanlands en aðalmarkaðurinn er þó í Bandaríkjunum undir merkjum www.disadesigns.com.

„Að skreyta húsið sitt fallega fyrir jólin og fást við bútasaum er ekki svo ólíkt. Þetta þarf að vera fallega gert en mest um vert er að leggja sig 100% fram,“ segir Ásdís Erla sem er grunnskólakennari að mennt og starfaði lengi sem slík. Suður með sjó hefur hún einkum og helst sinnt búi, börnum og vinnustofunni auk þess að vera í hálfu starfi hjá Varnarmálastofnun. Er í fæðingarorlofi sem sakir standa en þau Sölvi eiga fjögur börn sem eru átján, tólf og átta ára og það yngsta fimm mánaða.

Þau Ásdís og Sölvi fluttu í Reykjanesbæ fyrir um fjórum árum þegar atvinna og aðrar þeirra aðstæður breyttust. „Við fluttum hingað með opnum huga. Vorum tilbúin að gefa þessu tækifæri og höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Áður en við fluttum hingað höfðum við heyrt að bærinn væri fjölskylduvænn eins og gjarnan er sagt, enda eru hér góðir skólar, fín íþróttaaðstaða, ókeypis fyrir börnin í sund og strætó og fleira. Þá er þetta afskaplega snyrtilegur bær – og þeir sem hafa búið hér lengur en ég segja að í þeim efnum hafi orðið stakkaskipti á undanförnum árum.“

sbs@mbl.is

Uppáhaldsstaðir

1. Meðfram ströndinni frá Gróf að Stapa hér í Reykjanesbæ liggur skemmtilegur stígur. Þessi framkvæmd býður upp á einstaka möguleika til útivistar. Sjálfri finnst mér til dæmis afar ljúft að hlaupa þessa leið. Þræða ströndina. Á dimmum vetrardögum, núna þegar jólaljósin eru orðin yfir og allt um kring, er sérstaklega gaman að fara þarna um. Hughrifin jafnast stundum á við góðan jógatíma.

2. Nú á aðventunni hefur mér fundist gaman að þræða göturnar hér í bænum og sjá hve ótrúlega fallega sum húsin hér eru skreytt. Göturnar í Vallahverfinu finnst mér mjög fallega skreyttar og lengi hefur húsið á Týsvöllum 1 vakið athygli fyrir ljósadýrð. Stundum virðist sem íbúar í þessu hverfi séu í keppni sín á milli en ég held að svo sé nú ekki, þótt áhuginn smiti e.t.v. út frá sér. Fyrst og fremst er þetta brennandi áhugi fólks fyrir því að búa sér fallegt umhverfi.