Hermann Stefánsson fæddist í Ásgarði á Svalbarðsströnd 30. október 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. nóvember síðastliðinn.

Útför Hermanns fór fram frá Akureyrarkirkju 10. desember 2010.

Mig langar að skrifa nokkur orð sem að einhverju leyti gætu lýst honum karli föður mínum og lífshlaupi hans, en síðustu daga hefur eðlilega margt farið í gegnum hugann.

Sem gutti man ég pabba minn sem flutningabílstjórann sem gat verið að heiman dögum saman. Því í þá daga var ekki óalgengt að heil vika færi í hverja ferð. Þetta gat verið sérlega hvimleitt á veturna þegar leiðinni á milli Akureyrar og Reykjavíkur var aðeins haldið opinni tvisvar í viku, ef veður leyfði. Því man ég vel dimm kvöld í norðanstórhríð, Laxárvirkjun e.t.v. dottin út og pabbi ekki enn kominn. Þá gat síminn hringt og hann sagst vera veðurtepptur í Fornahvammi eða á Blönduósi. Þetta var á sjötta og sjöunda áratugnum eða fyrir daga vökvastýrisins og þegar varla varð hjá því komist að fá a.m.k. eina punkteringu í hverri ferð. Þannig man ég fyrstu ferðina mína með honum, þegar brýr voru jafn breiðar bílunum og ekið var í gegnum hlaðið á nokkrum bæjum í Langadalnum. Fyrstu suðurferð pabba mundi hann hins vegar fyrir þá sök að hafa fest bílinn í aurpytti sem var á veginum.

Fyrir utan veðrið og færðina á veturna gat aðeins hans helsta áhugamál raskað áætluninni. En það var söngurinn og að komast á söngæfingu hjá Karlakór Akureyrar og hitta félagana. Stundum stóð svo tæpt að hann rétt náði að skipta um föt áður en hann var þotinn á æfingu. Við krakkarnir vorum ekki alltaf dús við þetta framferði eftir að hafa e.t.v. beðið hans í marga daga. Því gleymist ekki að um það leyti er hann var fertugur gaf hann okkur eins konar vilyrði fyrir því að vera í mesta lagi tvö til þrjú ár til viðbótar í kórnum og hætta svo. En þegar kórinn var lagður niður nokkrum áratugum seinna, söðlaði hann um og fór yfir í Rúnakór frímúrara og söng með þeim á meðan heilsan leyfði. Söngæfingarnar gáfu pabba líka annað og miklu meira en bara sönginn, því þar hitti hann einnig vinina og alla kunningjana sem hann eignaðist í gegnum þetta stóra áhugamál sitt.

Það væri ekki sanngjarnt að segja að pabbi hafi átt erfitt með að kynnast fólki. Nær væri að segja að fólk hafi ekki komist hjá því er hann var nálægur. Það stafaði af almennum áhuga hans á fólki og öllum högum þess. Því var oftar en ekki viðkvæðið að segja manni frá einhverjum sem hann hafði nýlega rekið garnirnar úr, og hvort ég myndi nú ekki eftir honum.

Þegar þessi áhugi hans á „hverra manna ertu“ blandaðist síðan því hversu sérstakur hann gat verið í tilsvörum gátu komið upp einkennilegar aðstæður – hjá óvönum. Það stafaði af góðlátri glettni sem hann átti til að blanda ríkri þörf á að setja hluti í annað ljós en viðkomandi gat búist við. Fólk átti þá til að stara tómum augum og vita ekki hvort um grín eða alvöru var að ræða. Það skal tekið fram að betri helmingurinn hafði ekki mikinn skilning á þessu uppátæki hans. Sérstaklega ekki ef hún var með honum innan um prúðbúið fólk... þá þurfti hún stundum að minna hann á að vera nú ekki með neina bölvaða vitleysu eins og hún kallaði það. Ég kveð minn kæra föður með miklum söknuði.

Atli.