4. maí 1994 | Úr verinu | 698 orð

Guðlax - lítt kunnur en afar eftirsóttur fiskur

Guðlax - lítt kunnur en afar eftirsóttur fiskur GUÐLAX þykir mikill herramannsmatur en óstöðugt framboð af honum veldur því að verðin eru mjög ótrygg.

Guðlax - lítt kunnur en afar eftirsóttur fiskur

GUÐLAX þykir mikill herramannsmatur en óstöðugt framboð af honum veldur því að verðin eru mjög ótrygg. Hann er mikill einfari og veiðist einkum sem aukaafli og ræðst framboð af honum einkum af veiði á túnfiski og sverðfiski. Heimkynni hans eru tempruð höf en hann hefur þó flækst til Íslandsmiða. Guðlax er mjög hávaxinn fiskur, hæstur um miðjuna og þykkvaxinn. Þetta er mjög feitur fiskur með mildu bragði og er oft líkt við lax. Kjötið í guðlaxinum er af fernum toga, allt frá ljósrauðu kjöti frá sporði að kviðnum sem er bleikur á lit. Kinnarnar eru dökkrauðar. Undir kjaftinum er svo lítill vöðvi sem er rauðbrúnleitur eins og lifur og þegar hann er soðinn bragðast hann einna líkast kálfakjöti.

Guðlax verður 185 sm stór og hefur hann fundist á svæðinu frá Berufirði, vestur með landi og norður allt til Eyjafjarðar, ýmist rekinn eða í veiðarfæri, að því er segir í Íslenskir fiskar. Hann er eins og nafnið gefur til kynna af guðlaxaætt en á sér enga þekkta ættingja. Hann þykir líkjast tunglfiski sem þó er mun stærri. Guðlax er mjög litfagur, með bláan lit á baki, ljósrauðan á kviði og rauða ugga. Stór augun benda til þess að hann hafi aðlagast miklu dýpi og raufaruggarnir, sem hann hreyfir upp og niður en ekki fram og aftur, þykja líkast mest vængjum, og benda til þess að hann sé víðförull. Hann kemur enda í net sjómanna allt frá Alaska til Japan.

Áhrif hafstrauma

Mest allur guðlax á Bandaríkjamarkaði er veiddur á miðum út af Hawaii og Kaliforníu en auk þess flytja Bandaríkjamenn hann inn frá Mexíkó og Fiji-eyjum. Á betri veitingahúsum í Bandaríkjunum keppast menn við að bjóða guðlax sem lúxusrétt. Á Hawaii er guðlaxinn aukaafli túnfiskveiðimanna og árið 1992 nam aflinn 175 tonnum. Megnið veiðist á tímabilinu apríl til ágúst. Í Kaliforníu er guðlax aukafli með sverðfiski og hákarli en skyndilega upp úr 1980 jókst aflinn þar úr tonni á ári í 250 tonn á ári og telja menn að ástæðan sé vegna áhrifa frá El Ninos hafstrauminum sem færir hlýjan sjó norður á bóginn. Nú er árlegur afli í Kaliforníu hins vegar á milli 40-50 tonn, megnið veitt á tímabilinu ágúst til desember.

Kaupendur gerðu góð kaup í fyrra

Lítið er vitað um lífshætti guðlax en hann er talinn vera miðsævis- og úthafsfiskur og hefur veiðst á allt að 366 m dýpi. Hann er utan kvóta og veiðist sem fyrr segir sem aukaafli og getur markaðurinn því lítt reitt sig á stöðugt framboð af honum. Guðlax er seldur ferskur og er fáanlegur í Bandaríkjunum síðari hluta árs. Á síðasta ári gátu kaupendur gert góð kaup í guðlaxi því framboðið var mikið bæði á Hawaii og Kaliforníu. Á uppboði í Honolulu seldist heill fiskur á 1-1.10 dollarar pundið og fiskkaupendur fengu 4 dollara fyrir pundið. Í Kaliforníu fór verð fyrir heilan fisk niður í 70 cent á pundið en roðflett flök fóru á 4-6 dollara pundið. Þess er ekki vænst að miklar verðbreytingar verði á guðlaxi á næstu árum. Svo lengi sem hafstraumar hafa áhrif út af ströndum Kaliforníu og enginn finnur aðferð til að auka veiðar á fiskinum er búist við nokkuð stöðugu en fremur litlu framboði af guðlaxi.

Bestu flökin af fisknum ofanverðum

Töluverður munur er flökum af guðlaxi eftir því hvaðan af fiskinum þau koma. Flök af kviðnum eru eins og stór þríhyrningur í laginu og eru ljósbleik á lit. Þau eru mun fituríkari en flök af fiskinum ofanverðum frá haus að sporði sem eru dekkri á litinn. Matreiðslumenn taka þau framyfir aðra hluta guðlaxins en þau eru aðeins 25% af fiskinum. Þau eru fallega bleik þegar þau eru hrá en við suðu verða þau hvít. Kviðarflökin eru þynnri og ekki eins mjúk. Þau verða einnig hvít við suðu og segja sumir matreiðslumenn að engann greinarmun sé hægt að gera á flökum af fiskinum ofan- og neðanverðum.

Guðlax má matreiða á ýmsa vegu og algengt er að steikja hann eða ofnbaka en ekki er mælt með því gufusuðu. Hann er fljótur að eldast og er því vandmeðfarinn. Margir eru þó þeirrar skoðunar að guðlax sé bestur grillaður og borinn fram með rauðvínssósu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.