Snæfjallaströnd í allri sinni dýrð.
Snæfjallaströnd í allri sinni dýrð. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru 90 ár liðin síðan landsmenn lásu fréttagreinar í dagblöðum um hörmuleg slys við Bjarnarnúpinn (Vébjarnarnúpinn) þar sem fjórir af bestu sonum strjálbýllar sveitar létu lífið. Jón Kristján Þorvarðarson

Alþýðublaðið reið á vaðið með forsíðufrétt af slysinu sem bar titilinn Fáheyrt og hræðilegt slys! Eins og nærri má geta vöktu þessi slys mikinn óhug meðal fólks enda afhjúpuðu þau enn eina ferðina hvað landið okkar – sem sumir segja að sé á mörkum hins byggilega heims – er hrjóstrugt og harðbýlt. Sársaukinn var skerandi á norðanverðum Vestfjörðum, óblíð náttúran hafði gripið í taumana með óþyrmilegum hætti og breytt gangi lífsins hjá fámennu byggðarlagi. Höggið var þungt og skarðið var stórt. Engar rannsóknarnefndir voru sendar á vettvang í þá daga, hörð lífsbaráttan hélt einfaldlega áfram í faðmi miskunnarlausra náttúruafla.

Nokkrir ritfærir menn hafa skrifað um slysin við Bjarnarnúp í desember 1920 en hér á eftir höfum við söguna frá fyrstu hendi, nefnilega afa mínum Jóni Kristjánssyni sem var samfylgdarmaður Sumarliða pósts Brandssonar á hans hinstu göngu. Frásögnin af háskaför þeirra yfir erfiðan fjallveg og þeim skelfilegu atburðum sem fylgdu í kjölfarið er ein harmasaga. Þessa sögu ber að varðveita því í raun má segja hún sé saga okkar lands frá upphafi vega – er lýsandi táknmynd harðvítugra átaka forfeðra okkar við grimm máttarvöldin. Sú saga sem hér verður sögð styðst í öllum meginatriðum við æviágrip afa míns, en við þessa samantekt naut ég aðstoðar föður míns, Þorvarðs Jónssonar, og systur minnar, Sigrúnar Þorvarðardóttur.

Afi minn fæddist í Neðri-Miðvík í Aðalvík árið 1890 og andaðist í Reykjavík árið 1972. Vegna veikinda móður sinnar var hann á unga aldri settur í fóstur til móðursystur sinnar sem bjó í Þverdal í Aðalvík. Þar sleit hann barnsskónum uns hann settist að á Ísafirði til að nema trésmíði. Hann bjó þannig um hnútana á námsárunum að á hverju sumri og um hver jól hefði hann nægilegt svigrúm til að heimsækja heimahagana í Aðalvík með vistir handa fósturforeldrum og foreldrum og til að aðstoða þau við búskapinn.

Heimahagarnir heimsóttir

Nokkru fyrir jólin 1920 fór ég norður til Aðalvíkur í þeim erindagjörðum að heilsa upp á fósturforeldra mína og foreldra og færa þeim ýmsar nauðsynjar fyrir veturinn. Þegar vika var til jóla greip mig óvænt löngun til að dvelja á Ísafirði yfir jólahelgina, en hingað til hafði ég haldið fast í þá venju að eyða jólunum með ættingjum mínum í Aðalvík. Nú vildi ég breyta til því ég taldi að meiri tilbreytingar væri að vænta í fjölmenninu á Ísafirði. Það var hins vegar óhægt um vik að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd því ekki var um neinar ferðir að ræða vestur til Ísafjarðar fyrir jól. Við kringumstæður sem þessar var oft og iðulega gripið til þess ráðs að fylgjast með ferðum landpóstsins og freista þess að slást í för með honum. Þessi skipan ferðamála var hreint ekki óalgeng í þá daga því landpóstar rötuðu manna best eftir erfiðum vegslóðum. Sá er hafði með höndum póstflutninga til Aðalvíkur á þessum tíma hét Sumarliði Brandsson en hann var búsettur á Snæfjallaströndinni. Hann var hinn myndarlegasti maður á velli, hávaxinn, sterklegur og stæðilegur. Sumarliði var maður einhleypur og átti enga afkomendur, en á besta aldri eða 37 ára gamall. Hann hafði gegnt stöðu landpósts í tæp tvö ár og þekkti nánast hvern stein og hverja þúfu á póstleiðinni.

Póstferðum var þannig fyrirkomið að þegar póstflutningur barst til Ísafjarðar að sunnan fór Sumarliði á bát sínum til Ísafjarðar að sækja þann póst sem skyldi áframsendast til Snæfjallastrandar og til Grunnavíkur- og Sléttuhrepps. Heimili Sumarliða var gegnt Ísafjarðabæ eða því sem næst svo að eigi var um langa sjóleið að ræða þvert yfir Djúpið. Frá Snæfjallaströndinni fór hann landleiðina yfir Snæfjallaheiðina til Grunnavíkur. Heiðin er víðast hvar um eða yfir 500 m há og umgirt snarbröttum hamraveggjum Bjarnarnúpsins (Vébjarnarnúpsins) og Súrnadalsins. Leiðin yfir Snæfjallaheiðina þykir býsna löng eða um 10 km eftir endilangri heiðinni. Auk þess getur hún verið mjög ill yfirferðar vegna snjóþyngsla og veðurofsa og er óhætt að fullyrða að hér sé um einhvern hrikalegasta fjallveg landsins að ræða. Til að létta sér gönguna yfir heiðina og þá sér í lagi póstburðinn hafði Sumarliði jafnan hest sinn með sér í för. Hestur þessi þótti hinn mesti stólpagripur, harðgerður og rötugur. Í Grunnavík var klárinn tekinn á hús og gefið hey. Þar beið póstsins vís bátur og fylgdarmaður sem sigldi honum norður yfir Jökulfirði til Hesteyrar. Frá Hesteyri voru sendir tveir póstar, annar til Sæbóls í Aðalvík en hinn til Látra, norðan megin í víkinni. Þaðan var hirtur póstur og sendur samdægurs til Hesteyrar. Póstflutningar þessir tóku venjulega um heilan dag svo fremi að veðráttan setti ekki strik í reikninginn. Á meðan beið farmaðurinn átekta á Hesteyri, reiðubúinn að ferja Sumarliða aftur til Grunnavíkur snemma næsta morgun. Sumarliði fór síðan sömu leið til baka og og skilaði póstflutningi til Ísafjarðar. Póstferðatilhögun þessi átti eftir að hafa illar og hroðalegar afleiðingar eins og nú verður nánar lýst.

Eftir að hafa gert upp hug minn varðandi jólahald á Ísafirði ákvað ég að verða samferða Sumarliða pósti á bakaleiðinni til Snæfjallastrandar og svo þaðan á bát hans vestur til Ísafjarðar. Ég bað prestshjónin á Stað (í Aðalvík) að senda boð til mín yfir í Þverdal meðan pósturinn færi niður að Sæbóli. Þegar boðin bárust var ég ferðbúinn, kvaddi fósturforeldrana og fór með sendimanni prestsins yfir á Stað. Skömmu síðar kom pósturinn frá Sæbóli og séra Magnús Jónsson bætti við pósti frá sér. Að því loknu héldum við af stað til Hesteyrar og komum þangað um áttaleytið að kvöldi. Póstsendingin frá Látrum hafði þegar borist og var Jón Þorvaldsson læknir búinn að afgreiða Hesteyrarpóstinn, en hann var jafnframt bréfhirðingarmaður staðarins. Sumarliði póstur hafði næturgistingu hjá Ketilríði Veturliðadóttur, sem er ættuð úr Grunnavík, og eiginmanni hennar Guðmundi Þeófílussyni. Ég bað þau einnig um gistingu því ég vildi ekki hætta á að vera annars staðar en Sumarliði til að verða ekki viðskila við hann.

Lagt á Bjarnarnúpinn

Næsta dag, föstudaginn 17. desember, var farið eldsnemma á fætur og hellt upp á kaffi. Um sjöleytið að morgni lögðum við af stað með bátnum yfir Jökulfirðina áleiðis til Grunnavíkur. Það viðraði ágætlega til sjóferðar, byr var góður og náðum við áfangastað um tveimur klukkustundum síðar. Eftir að hafa tekið land hjá Sætúni fórum við rakleiðis að vitja um póstinn hjá póstafgreiðslumanni staðarins sem var hinn þekkti prestur séra Jónmundur Halldórsson, annálaður fyrir leiftrandi málsnilld. Prestssetrið á Stað í Grunnavík er í töluverðu göngufæri frá sjó og Sumarliði vildi hraða ferðalagi sínu sem mest hann mátti meðan dagsbirtu nyti við og þar á ofan voru veðurhorfur slíkar að brugðið gat til beggja vona. Þegar á Stað var komið gerðist hið óvænta og ófyrirséða, séra Jónmundur hafði ekki lokið við að afgreiða póstinn og átti auk þess eftir að skrifa allmörg einkabréf. Töfin varð meiri en góðu hófi gegnir eða um sex klukkustundir og það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Gestrisnin var ekki meiri en svo að við fengum aðeins kaffi og örfáar brauðsneiðar meðan við biðum. Það má heita að ekki nokkur maður hafi verið á ferli meðan við dvöldum á prestssetrinu. Þegar klukkan nálgaðist fjögur fór Sumarliði að ókyrrast og knúði dyra á skrifstofu séra Jónmundar og sagðist ekki geta beðið lengur eftir póstinum því ferðalagið þyldi ekki frekari tafir. Séra Jónmundur brást skjótt við orðum Sumarliða og vafðist ekki tunga um tönn. Sagðist vera nýbúinn að leggja lokahönd á póstafgreiðsluna og innsigla póstpokann. Hann fylgdi okkur út á tröppur, leit til veðurs, og sagði án þess að depla auga að það væri að rofa til. Á þessu andartaki hafði aðeins greiðst úr skýjaþykkninu svo að stjörnurnar sáust nokkuð greinilega. En sannast sagna þá gekk á með norðvestan kafaldshryðjum, hvassviðri og skafrenningi í þessum töluðu orðum prestsins. Ekki var annað sýnna en að Sumarliða blöskraði að séra Jónmundur skyldi ekki bjóða okkur gistingu eftir að hafa verið valdur að þessari óhemjuseinkun því öllum var ljóst hvernig viðraði. Og þar á ofan var myrkrið skollið á. Við héldum nú með hraði niður að Sætúni til að sækja hest Sumarliða. Þar á bæ bjuggu eldri hjón sem lögðu fast að okkur að leggja ekki upp á fjallið með hest í eftirdragi enda voru veðurhorfur ískyggilegar. Þau buðu okkur næturgistingu og ráðlögðu okkar að leggja upp næsta dag þegar birtan færi í hönd. Sumarliði lét þessar athugasemdir sem vind um eyru þjóta og léði ekki máls á gistingu – sagðist undir það búinn að takast á við fjallið enda hefði hann gengið þar yfir í misjöfnum veðrum og aldrei hefði nokkuð borið út af á þeirri leið. Hann leiddi út klárinn í miklu snarhasti og lagði á hann hnakkinn. Pósttaskan var bundin í hnakkinn og síðan var lagt af stað með hestinn í taumi.

Það var laust fyrir kl. 5 síðdegis sem við lögðum af stað frá Sætúni í áttina að hlíðum Bjarnarnúpsins. Færðin var vond og gekk mjög þunglega að koma hestinum áleiðis enda hafði skafið í skafla og djúpfenni var víða. Þar sem leiðin upp brattann reyndist okkur býsna harðsótt greip Sumarliði til þess ráðs að færa mér svipuna sína til að kasta á hestinn í dýpstu og erfiðustu sköflunum. Ég gekk því lítið eitt aftar en Sumarliði og hesturinn, en þó fast á hælum þeirra. Hesturinn reif sig áfram af miklum röskleika og okkur þokaði hægt og bítandi upp hlíðar fjallsins. Þegar við höfðum loksins náð upp á eggjar Núpsins urðum við að hvíla hestinn eftir allt stritið. Uppi á fjallinu var iðulaus stórhríð og dimmt svo mjög að ég sá tæpast handa minna skil. Mér sýndist sem horfurnar á frekari framsókn yfir heiðina væru ekki góðar og spurði því Sumarliða hvort hann rataði örugglega yfir Núpinn í þessu illviðri. Hann taldi engin vandkvæði á því enda hafði hann farið yfir Núpinn alls 19 sinnum og því þaulkunnugur þar um slóðir – taldi okkur miða vel áfram. Ekki var þetta fært í tal aftur enda gerði veðurgnýrinn það að verkum að það var nánast útilokað að eiga orðaskipti eftir að á fjallið var komið. Ferðin gekk greiðlega eftir sléttlendinu uppi á fjalli enda frekar snjólétt víðast hvar. Snjókoman var að vísu mjög mikil en vegna veðurhæðarinnar náði hún lítilli sem engri festu. Einstaka snjóskaflar urðu á vegi okkar en þeir voru þétt barðir saman af veðurhamnum, glerharðir og sporheldir. Mjög fljótlega urðum við varir við eina vörðu sem var góðs viti því útlitið framundan var dökkt mjög. Klárnum greiddist ferðin vel og við ákváðum að ganga hlémegin við hann sem gerði það að verkum að okkur sló undan veðri og hröktumst þar af leiðandi af réttri leið enda afar villugjarnt þarna uppi í svartnættinu. Fleiri vörður urðu ekki á vegi okkar enda hrökkluðumst við óafvitandi í átt að flughömrum Núpsins. Og þar sem vegvísar voru engir á þessari villuslóð var ekki um neitt annað að ræða en að treysta á kunnugleika og ratvísi Sumarliða. Eftir að við höfðum þreytt gönguna eftir fjallstindinum á þriðju klukkustund tók dálítið að halla undan fæti. Ég þokaði mér þá nær Sumarliða og kallaði til hans og spurði hvort við værum á niðurleið af fjallinu og hann taldi svo vera. Þetta voru síðustu orðaskipti okkar því nokkrum andartökum síðar hvarf Sumarliði ásamt hestinum úr minni augsýn – höfðu fallið niður um gat á snjóhengju og gerðist þetta svo snögglega sem hendi væri veifað. Í rauninni munaði aðeins örfáum fetum að ég færi þar niður líka. Eftir að hafa ráðið í aðstæður taldi ég sennilegast að um hengju í aflíðandi brekku væri að ræða og lagðist því niður á brúnina sem var svellrennd. Þaðan skreið ég á maganum fram á gatið og kallaði hvort ég ætti að fylgja á eftir. Nokkurn veginn samtímis var sem ský drægi frá tungli og sá ég þá móta fyrir tunglsglampa á sjó langt niðri. Á því augnabliki gerði ég mér grein fyrir hvernig öllu var háttað: Ég var staddur á snjóhengju fyrir utan hamrakletta Núpsins og stórgrýtt fjaran beint fyrir neðan! Ég varð felmtri sleginn og reyndi með öllum tiltækum ráðum að forða mér frá þessari hroðalegu dauðagildru. Ef ég hefði ekki haft svipuna við höndina til þess að höggva mér spor og ýta mér til baka efast ég stórlega um að ég hefði komist upp frá gínandi gapinu. Ég tel það vera guðlega ráðstöfun að ég fór ekki fram af líka því það var skuggsýnt mjög og þreifandi bylur.

Eftir að hafa skriðið upp úr hengjugatinu og náð öruggri fótfestu að nýju greindi ég þrjá misstóra steina rétt fyrir ofan fjallsbrúnina og settist til hlés við þann stærsta til þess að ná úr mér versta skrekknum. Jafna mig eftir ófarirnar og hugsa mitt ráð. Mér var orðið svo kalt, þótt ég væri vel búinn, að ég neyddist til að standa upp og halda förinni áfram enda útilokað að hafast við á bersvæði í þvílíkum kuldastormi ef ekki átti illa að fara. Ég einsetti mér að stefna beint upp í vindinn frá fjallsbrúninni og leita uppi vörður. Er ég hafði gengið í nokkurn tíma, eftir því sem þrek og kraftar leyfðu, rakst ég loksins á vörðu sem var mikill léttir. Ég veitti því athygli að á henni var vegvísir sem ég fylgdi eftir í þeirri von að finna næstu vörðu. Af mikilli nærfærni og aðgæslu tókst mér að finna hana sem kveikti þá von í brjósti að leiðin til bæja á Snæfjallaströndinni væri rétt innan seilingar. En það reyndust tálvonir einar því eftir að hafa fylgt vörðunum um nokkra hríð kom ég að vörðu sem var að hruni komin. Hún var staðsett á brekkubrún svo að ég taldi víst að þar væri niðurgangur af fjallinu. Brattinn var hins vegar svo mikill að það gat tæpast staðist og í rauninni óðs manns æði að reyna að klöngrast þar niður. Ég sá því ekki annað vænna en að forða mér frá þessari snarbröttu fjallshlíð og freista þess enn og aftur að finna réttu vegslóðina. Hófst nú spordrjúgur gangur upp eftir fjallinu með storminn í fangið. Það reyndist skynsamleg og heilladrjúg ákvörðun því mér reiddi svo vel af að ég fann einar 5 vörður og í framhaldi af þeim smáhjalla niður af myrku fjallinu. Þegar ég hugsa til baka þá liggur það alveg fyrir að ef ég hefði reynt niðurgöngu hjá vörðubrotinu við fjallsbrúnina hefði ég að öllum líkindum fallið fram af hamrabjörgum Súrnadalsins, en að sögn fróðra manna hafa ófáir farist við að hrapa þar niður.

Hrammur Núpsins

Ég hafði verið uppi á fjalli í hart nær 8 klukkustundir í linnulausum hríðarbyl og ógnarkulda þegar ég fann loksins leiðina niður hlíðar fjallsins. Ég má þakka fyrir að hafa haldið bæði lífi og limum í þessu foráttuveðri uppi á beru fjalli. Það sem fleytti mér á leiðarenda voru góð hlífðarföt – háir snjósokkar, góðir ullarvettlingar og þykkur stormjakkinn unnu bug á kuldanum.

Mjög fljótlega sá ég glitta í ljóstíru í glugga. Ég hraðaði mér sem mest ég mátti að bóndabænum og barði þar að dyrum, en þá hefur klukkan verið um 2 eftir miðnætti. Eftir nokkra bið kom bóndinn til dyra og ég greindi honum þegar í stað frá sviplegum afdrifum Sumarliða pósts og hrakningum mínum í framhaldinu. Að því loknu bað ég um næturgistingu enda grátt leikinn og að þrotum kominn. Hann tjáði mér að Sumarliði póstur væri frá næsta bæ og beindi för minni þangað! Að sögn bóndans var það auðrataður vegarspotti. Þótt ég væri mjög þrekaður og í klakabrynju, þannig að ekkert var bert nema augu og nefbroddur, fór ég að leita bæjarins sem bóndinn hafði vísað mér á. Eftir að hafa gengið í nokkurn tíma hrapaði ég fram af háum snjóskafli (hvestu) niðri við sjó. Þar var stórt timburhús reist á stólpum, umgirt snarbrattri og þröngri snjóhengju. Í þessu húsi var ekki nokkur lifandi sála. Með mjög miklum erfiðismunum tókst mér að komast upp úr snjógjánni og öðru sinni varð svipan bjargvættur minn því með henni tókst mér að höggva spor í harðfennið og mjaka mér upp. Ég var sárþjáður af þreytu og hungrið farið að sverfa að enda hafði ég ekki fengið almennilega næringu í nærfellt tvo sólarhringa. Eftir langa mæðu tókst mér að komast að sama bóndabænum og áður og knúði þar dyra öðru sinni. Þegar bóndinn kom til dyra tjáði ég honum mjög ákveðið – enda vakti tómlæti bóndans reiði innra með mér – að mér þætti ansi hart að fá ekki húsaskjól eftir allar þær hremmingar sem yfir mig hefðu gengið. Hann skeytti athugasemdum mínum litlu en ég fékk þó að vera innandyra meðan hann klæddist hlífðarfötum til að fylgja mér að heimili Sumarliða.

Þegar ég hóf frásögn mína af slysförum Sumarliða urðu þeir sem á hlýddu skelfingu lostnir og allt fullorðið fólk reis strax úr rekkju. Eins og nærri má geta varð uppi fótur og fit á heimilinu og allir mjög tvístígandi. Ég þurfti á aðstoð að halda til að losa mig við klakabrynjuna sem og ytri fötin því allt var gaddfreðið. Leifar frá kvöldinu áður voru reiddar fram á disk og og mér gefið að borða. Á meðan lögðu menn á ráðin um hvernig bregðast skyldi við ótíðindum næturinnar. Ég var spurður nánar út úr varðandi slysið, en átti í erfiðleikum með að greina frá hvar slysið hefði nákvæmlega átt sér stað því þessi fjallvegur var mér framandi enda hafði ég aldrei gengið hann áður. En þegar ég minntist á steinana þrjá á fjallsbrúninni þóttist einn maður, Guðmundur Jósefsson að nafni, átta sig á staðháttum og taldi sig þar af leiðandi vita hvar slysið hafði borið að höndum. Ákveðið var að leita eftir aðstoð hreppstjórans á Sandeyri og voru send skilaboð til hans með hraði. Að því loknu gengu allir til náða og ég var látinn sofa til fóta hjá áðurnefndum Guðmundi. Þegar ég var við það að festa svefn hrökk ég upp með miklum andfælum því það var engu líkara en ég væri að hverfa fram af hengjubrúnum Núpsins og þannig var líðan mín langt fram eftir nóttu. Hvíldin þessa nótt var nánast að engu hafandi og ég var bæði þjakaður og úrvinda af þreytu í morgunsárið.

Snemma næsta morgun streymdi fólk að bænum. Þar fór fremstur í flokki Tómas Sigurðsson hreppstjóri en hann hafði safnað liði til þess að leita að Sumarliða pósti. Til frekari glöggvunar fyrir leitarflokkinn endurtók ég hrakningasögu mína enn eina ferðina. Fötin mín höfðu náð að þorna yfir nóttina og var lagt hart að mér að aðstoða við leitina því menn töldu að ég byggi yfir gagnlegum upplýsingum varðandi staðsetningu slyssins. Þótt þrekið væri lítið sem ekkert féllst ég á að slást í för með leitarflokknum enda mikið í húfi. Alls tóku 18 manns þátt í leitinni. Fimm þeirra gengu út með Núpnum, en þeirra á meðal var Guðmundur Jósefsson sem taldi sig vita hvar slysið hefði átt sér stað. Fimmmenningar þessir lögðu sig í mikinn háska enda slúttu snjóhengjur fram af hamraklettum Núpsins. Ég var svo í hópi þeirra þrettán sem leituðu í Súrnadal.

Áður en leitarhópnum var skipt var ákveðið að þeir sem yrðu fyrri til að finna lík Sumarliða skyldu senda mann til að gera hinum viðvart. Boðin skyldu berast á milli með háværu hói. Nokkru eftir að við höfðum dreift okkur um Súrnadal heyrðum við hóað og síðan birtist maður að utan. Hann greindi okkur frá því að lík Sumarliða hefði fundist í fjöruborðinu undir Stofuhlíð sem er skammt handan við Súrnadal. Hesturinn lá sprunginn við hlið hans og var af honum hnakkurinn. Lítið sem ekkert sá á líki Sumarliða þrátt fyrir að fallhæðin frá bjargbrúninni sé meiri en 400 m. Nú var þeim hóað saman sem eftir voru við leitirnar í Súrnadal og flestir þeirra héldu heim á leið, þar á meðal ég enda ekki búinn að ná mér eftir ófarirnar og svefnleysið.

Nokkrir menn fóru út með Núpnum til frekari aðstoðar. Þegar þeir komu út fyrir var allt horfið, bæði leitarmenn og lík Sumarliða. Og ástæðan blasti við sjónum þeirra: Stóreflis snjóskriða hafði fallið og rifið allt með sér sem fyrir varð út á sjó. Það eru mestar ástæður til að halda að hengjuskaflinn við fjallsbrúnina, sem var engin smásmíði, hafi sprungið frá fjallinu við hóin og köllin. Meira hefur ekki þurft til því skafrenningur hafði verið viðvarandi, hríðarveður og mikil ofankoma. Tröllslegar snjóhengjur Núpsins höfðu látið undan síga við minnsta bergmál og steypst niður þverhnípta hamraveggina. Einn maður barðist enn fyrir lífi sínu í snjókrapinu í sjónum, en af miklu harðfylgi tókst honum að komast á þurrt land. Rétt í þann mund er hann skreið upp í fjöruna komu leitarmenn úr Súrnadal honum til aðstoðar. Sá er þannig var heimtur úr helju hét Halldór Ólafsson frá Berjadalsá, en hann var yngstur og þróttmestur þeirra manna sem snjóflóðið hreif með sér, tæplega tvítugur að aldri. Halldór var orðinn svo kaldur og þjakaður að leitarmennirnir urðu – í kapphlaupi við tímann – að bera hann til næsta bæjar. Fötin voru harðfrosin utan um Halldór og varð með mestu varkárni að rista klæðin utan af honum. Mönnum fannst það kraftaverki líkast að ekki skyldi fara verr, en það hefur viljað honum til happs að hann fékk lífsnauðsynlega aðhlynningu eins fljótt og auðið var og mátti ekki tæpara standa. Eftir þessa erfiðu lífsraun átti Halldór við einhvern lasleika að stríða í nokkurn tíma en náði að lokum fullri heilsu.

Þar sem mönnum stafaði hætta af frekari snjóflóðum í fjöruborðinu undir Núpnum var brugðið á það ráð að manna bát og freista þess að komast sjóleiðina fyrir slysasvæðið og reyna þannig að finna þá sem fórust. Hér var í rauninni teflt á tæpasta vað því sjógangur var mikill og hvassviðri. Bátsverjar sigldu krappan sjó og lögðu hart að sér. Ekki höfðu þeir erindi sem erfiði og var nauðugur sá kostur að hverfa aftur í land enda gaf allhressilega á bátinn. Þá var horfið til þess þrautaráðs að senda út leitarflokk til að ganga fjörur meðfram Núpnum. Fundust þá sjórekin lík tveggja manna sem fórust í snjóflóðinu. Annar þeirra var áðurnefndur Guðmundur Jósefsson. Löngu síðar skilaði brimaldan líki þess þriðja á þurrt land en lík Sumarliða hefur aldrei komið í leitirnar.

Sent var skeyti til póststjórnarinnar á Ísafirði með þeim boðum að senda bát norður með líkkistur. Ásgeirsverslun var falið það verkefni að útvega bát en veðurofsinn var slíkur ekki gaf á sjó næstu 3 dagana. Þegar ég fékk far með bátnum vestur til Ísafjarðar sá ég Bjarnarnúpinn í allri sinni dýrð, ægilegri ásýndum en nokkru sinni fyrr. Tignarlegur þrátt fyrir grimmdina. Ég var örmagna af þreytu þegar ég loksins komst heim og gekk því snemma til náða. Um kvöldið kom Finnur Jónsson póstmeistari í heimsókn í þeim erindum einum að fá fregnir af slysunum og gekk fast eftir því að ég skyldi vakinn svo að hann gæti hlýtt á frásögn mína án frekari tafa.

Engin glaðværð hvíldi yfir jólahaldinu að þessu sinni enda gat ég vart á heilum mér tekið og það þrengdi mjög að næmustu strengjum sálarlífsins. Þannig var líðan mín um allnokkurt skeið.

Eftirleikur slysanna

Hörmungar slysanna voru skelfilegar en ekki voru öll kurl komin til grafar. Nokkru eftir að óveðrinu slotaði lagði séra Jónmundur af stað frá Grunnavík í þeim erindagjörðum að jarðsetja þá tvo sem aldan hafði skolað á land og til að halda minningarguðþjónustu um hina tvo sem ekki höfðu komið í leitirnar. Fór hann ásamt vinnumanni sínum í klofsnjó yfir Snæfjallaheiði og síðan áfram veginn yfir í Unaðsdal þar sem greftrun mannanna fór fram. Á meðan hann var fjarverandi gerðist sá hörmulegi atburður að næturþeli að prestssetrið á Stað brann til kaldra kola. Svo bráður var eldurinn að minnstu munaði að manntjón yrði. Allt innbú sem og kirkjubækur prestakallsins urðu eldinum að bráð. Prestsfrúin, Guðrún Jónsdóttir, slapp naumlega undan eldhafinu á nærklæðum einum fata en úti var norðan stórhríð með hörkufrosti. Hana kól svo illa á fótum að hún beið þess aldrei bætur. Var þetta í annað skipti sem prestur stóð yfir brunarústum eigna sinna og heimilis, því þegar hann bjó á Barði í Fljótum missti hann allar eigur sínar í miklum eldsvoða.

Hafliði Gunnarsson frá Berurjóðri við Gullhúsá á Snæfjöllum var þrautreyndur fjallaklifurmaður og hafði oftsinnis klifið flughamra Bjarnarnúps upp og niður, en aldrei þar sem Sumarliði hrapaði enda voru þær klettasyllur taldar ókleifar. Eins og áður hefur verið greint frá var hestur Sumarliða hnakklaus þegar hann fannst og engar spurnir höfðu menn haft um afdrif póstsins. Hafliði taldi ekki ósennilegt að klettasyllur Núpsins hefðu rifið hnakkinn til sín í fallinu og það væri vel þess virði að kanna það til hlítar. Einn góðviðrisdaginn, eftir að snjóa leysti, fór Hafliði aleinn af stað og kleif hamravegg þann sem Sumarliði hrapaði fram af. Tókst þetta klifur með svo miklum ágætum að hann fann pósttöskuna áfasta á klettasnaga einum og sömuleiðis hnakk Sumarliða. Af miklum röskleika sem og fimleika tókst honum að bjarga hvorutveggja og bar til síns heima. Í pósttöskunni, sem var óskemmd, var allmikill peningapóstur á þeirra tíma mælikvarða eða um 1.500 kr*. Bréfin voru að vísu blaut en lítið skemmd að öðru leyti og utanáskriftir flestar læsilegar. Peningaseðlarnir endurheimtu svo verðgildi sitt eftir að Hafliði hafði þerrað þá. Hann skilaði síðan töskunni til póstmeistarans á Ísafirði ásamt öllu því sem henni tilheyrði. Að launum fyrir þessa ósérhlífni, djörfung og skilvísi fékk hann 150 kr. í fundarlaun. Póstferðir yfir Snæfjallaheiði voru aflagðar eftir slysið og var póstur ætíð síðan fluttur sjóleiðina til Grunnavíkur- og Sléttuhrepps eða þar til þær sveitir lögðust í eyði.