Þórhallur Magnússon fæddist að Pulu í Holtahreppi, Rangárvallasýslu, 11. september 1941. Hann lést 12. desember 2010.

Útför Þórhalls fór fram frá Vídahlínskirkju í Garðabæ 21. desember 2010.

Kær vinur og mágur er látinn. Það er skrítið til þess að hugsa að Þórhallur, þessi hressi heilbrigði og lífsglaði maður, sé kvaddur svona fljótt burt frá ástvinum sínum.

Þórhallur var einstaklega góður og vel gerður maður, hógvær, hljóðlátur, nákvæmur og áhugasamur. Hann var glettinn og hlýr og hafði gaman af því að ræða líðandi stund.

Þegar Hafdís stóra systir okkar kynnti Þórhall í fjölskyldunni breyttist ýmislegt. Við litlu stelpurnar vorum strax hrifnar af honum. Þórhallur var sérstakur persónuleiki, einstaklega fróður og áhugasamur um bókstaflega alla hluti enda lærðum við systur að meta hann alltaf betur og betur.

Þegar Hafdís og Þórhallur eignuðust frumburð sinn hann Guðberg sem varð auðvitað gullmolinn okkar systra fengum við það hlutverk að vera aðal-pössunarpíurnar og það þótti okkur ekki leiðinlegt. Sautján árum síðar eignuðust þau annan gullmola, hana Huldu, sem varð augasteinn þeirra.

Þórhallur starfaði alla ævi sem flugmaður, lengst af starfaði hann hjá flugskóla Helga Jónssonar sem flugkennari, í sjúkraflugi og Grænlandsflugi. Hann er einn okkar reyndasti flugmaður, sérstaklega við íslenskar aðstæður og hefur flogið flestum flugvélum sem komið hafa við í íslenskri flugsögu síðustu 40 ár. Þórhallur var alla tíð afar farsæll í starfi, en síðustu árin starfaði hann sem flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Ljósmyndun var honum ríkt áhugamál, hann tók meðal annars myndir fyrir tímarit eins og Iceland Review. Honum var einstaklega auðvelt að fanga augnablikið og kom þessi hægláti maður alltaf á óvart á sinn hógværa hátt, hvað hann var mikill snillingur.

Fyrir nokkrum árum byggðu þau hjónin sér einstaklega fallegan sumarbústað við Norðurá í Borgarfirði. Þar naut Þórhallur sín bæði við smíðar og ræktun, sem var mikið áhugamál hjá honum alla tíð og endurspeglaðist þar vandvirkni hans og natni.

Þórhallur var góður og tryggur fjölskyldumaður og naut þess að vera með fjölskyldunni öllum stundum gleðin var því mikil þegar fjölskyldan stækkaði og við bættust þrjú ný börn á þessu ári. En sorgin var ekki langt undan því aðeins átta daga gömul lést Álfrún Emma, langafabarn Þórhalls.

Árin hafa liðið hratt og hefur stórfjölskyldan okkar átt góðar stundir saman. Nú er komið að kveðjustund í bili og erum við þakklátar fyrir árin sem við áttu með Þórhalli.

Elsku Hafdís, Guðberg, Sigrún, Hulda, Jói og börnin ykkar, megi góður guð styrkja ykkur á þessum erfiða tíma og við biðjum góðan Guð að taka vel á móti Þórhalli.

Stefanía og Sigríður

Guðbergsdætur.

Elsku afi.

Ég er ákaflega stolt af því að vera barnabarnið þitt. Þú varst einstakur maður, fórst þínar leiðir og lést engan segja þér fyrir verkum á fyndinn og á þinn einstaka hátt. Þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta mínu.

Þú kenndir mér svo ótal margt, eins og nöfnin á fjöllunum í sveitinni, helstu örnefni og staðhætti. Þegar ég var lítil hjálpaðir þú mér að byggja fuglahús uppi í sveit eftir mínu eigin höfði. Húsið var hengt upp við mikla gleði fuglanna og þó að í dag sjái ég að það er kannski ekki heimsins fegursta fuglahús þá fær það enn að hanga uppi mér til sællar minningar.

Þér þótti gaman að fljúga sem var þitt yndi, enda flugmaður. Ég minnist þess sérstaklega þegar þú bauðst mér með þér til Grænlands. Þar skoðuðum við mannlífið og þú virtist vita allt um landið og fólkið. Þetta var einstök ferð sem ég mun ekki gleyma heldur geyma í minningu minni um þig.

Nú hefur það því miður gerst

að vond frétt til manns berst

Kær vinur er horfinn okkur frá

því lífsklukkan hans hætti að slá

Rita vil ég niður hvað hann var mér kær

afi minn góði sem guð nú fær

Hann gerði svo mikið, hann gerði svo margt

og því miður get ég ekki nefnt það allt

Að tala við hann var svo gaman

á þeim stundum sem við eyddum saman

Hann var svo góður, hann var svo klár

æ, hvað þessi söknuður er svo sár

En eitt er þó víst

og það á við mig ekki síst

að ég sakna hans svo mikið, ég sakna hans svo sárt

hann var mér góður afi, það er klárt

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann

í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er mín trú

Því þar getur hann vakið yfir okkur dag og nótt

svo við getum sofið vært og rótt

hann mun ávallt okkur vernda

vináttu og hlýju mun hann okkur senda

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

(Katrín Ruth)

Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Þín

Urður Rún.

Mikill harmur er í stúku okkar. Ekki eru nema fjórir dagar á milli þess að við kvöddum kæran bróður Bjarna Ragnarsson þegar skyndilega annar bróðir er burt kvaddur. Engin orð fá lýst söknuði okkar bræðra er við í dag kveðjum Þórhall Magnússon góðan félaga og Oddfellowbróður.

Ég kynntist Þórhalli fyrst árið 1981 er hann starfaði hjá Velti og sá um að undirbúa nýjar bifreiðar til afhendingar til viðskiptavina. Oft var mikið álag á Þórhalli og unnið „langt frameftir“. Þau störf leysti hann af hendi með mikilli samviskusemi eins og allt sem honum var falið og allt stóðst eins og um var talað.

Þórhallur fluttist síðan til Akureyrar og hóf störf hjá Flugfélagi Norðurlands síðar hjá Flugfélagi Íslands þar sem hann starfaði sem flugstjóri allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Á Akureyri gekk hann í Oddfellowregluna St.nr.15. Freyju. Þegar flutt var aftur til Reykjavíkur vorum við svo lánsamir að hann sótti um inngöngu í stúku vora. Það var mikill fengur að fá Þórhall í okkar raðir. Fljótlega var honum trúað fyrir mikilvægum störfum í stúkunni, síðar var hann í stjórn hennar og leysti það starf einstaklega vel af hendi.

Þórhallur tók einnig mikinn þátt í stofnun Ob.Nr.5. Freyr á síðasta ári og var hann strax skipaður í ábyrgðarstöðu við stofnun. Hann sinnti öllum sínum störfum í þágu Oddfellowreglunnar af mikilli gleði og vann þau með umhyggju öllum til heilla. Við félagarnir sem ókum saman á fundi í Frey eigum eftir að sakna Þórhalls mikið. Um margt var spjallað á leiðinni. Þórhallur lagði þar sitt af mörkum.

Fyrir hönd fjölskyldu minnar og bræðra í Oddfellowstúkunni Gissuri hvíta og Patr. í Ob.nr.5. Frey vil ég þakka samfylgdina.

Elsku Hafdís og fjölskylda. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð á sorgarstundu. Megi góður Guð gefa hinum látna ró og þeim líkn sem lifa.

Far þú í friði, kæri bróðir, og friður veri með sálu þinni.

Lát minninganna mildu blóm

mýkja' og græða sárin

en ljúfa tóna enduróm

ylja´og þerra tárin.

(Ágúst Böðvarsson.)

Haraldur Hjartarson.