Varnarlið verkalýðsins, vopnað bareflum, fer fyrir 1. maí-göngu í Lækjargötu 1936.
Varnarlið verkalýðsins, vopnað bareflum, fer fyrir 1. maí-göngu í Lækjargötu 1936.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þór Whitehead Bókafélagið Ugla 2010. 480 bls.

Sagnfræðingar eru líklega búnir að skrifa meira um Kommúnistaflokk Íslands en nokkurn annan stjórnmálaflokk á Íslandi. Það er skiljanlegt enda er saga flokksins saga átaka og flokkurinn var með sterk tengsl við erlenda systurflokka og þá sérstaklega sovéska kommúnistaflokkinn. Því fer hins vegar fjarri að sagnfræðingar séu að öllu leyti sammála um hvernig eigi að skrifa sögu þessa umdeilda flokks.

Þór Whitehead hefur skýra sýn á starf kommúnista á Íslandi. Í bók sinni, Sovét Ísland óskalandið – aðdragandi byltingar sem aldrei varð , fjallar hann um markmið kommúnista, að koma á byltingu á Íslandi og þá einkum um hversu langt þeir voru tilbúnir til að ganga í að beita ofbeldi til að ná þessu markmiði sínu. Þór velkist ekki í neinum vafa um að ofbeldi var hluti af stjórnmálastarfi íslenskra kommúnista líkt og í öðrum löndum. Hann vitnar til orða kommúnista sjálfra máli sínu til stuðnings og fjallar um starf Varnarliðs verkalýðsins, en það var sveit kommúnista sem æfði sig í átökum og beitti sér oftar en einu sinni þegar barist var í Reykjavík.

Markmið Þórs með bók sinni er þríþætt; að segja heildstæða sögu kommúnista fram yfir seinni stríð, að benda á hversu ofbeldi var ríkur þáttur í stjórnmálastarfi kommúnista og mótmæla ýmsu því sem fram hefur komið í skrifum Jóns Ólafssonar prófessors og Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sem túlka sögu íslenskra kommúnista með öðrum hætti í nokkrum atriðum en Þór. Þór segir í eftirmála bókarinnar að athugasemdir um skrif Jóns og Guðna séu framlag hans til fræðilegrar umræðu um sögu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi. Mest af þessari umræðu fer fram í neðanmálsgreinum og því geta almennir lesendur sem hafa takmarkaðan áhuga á þrætum sagnfræðinga auðveldlega leitt hana hjá sér.

Þór fjallar mikið um stöðu ríkisvaldsins og lögreglu að fást við ofbeldi kommúnista. Lögreglan var á þessum árum fámenn og því var oftar en einu sinni gripið til þess ráðs að kveða varalið lögreglunni til aðstoðar. Einn af áhrifamestu köflum bókarinnar er lýsing á ofbeldi sem lögreglumenn máttu þola, en sumir náðu sér aldrei eftir barsmíðarnar. Þetta hafði mikil áhrif á mennina og fjölskyldur þeirra. Um þetta ofbeldi hefur lítið verið skrifað.

Íslenskir kommúnistar stefndu leynt og ljóst að því að gera byltingu á Íslandi, en voru þeir nálægt því að ná markmiði sínu? Þór svarar því ekki með skýrum hætti í bókinni. Sú spurning er áleitin hvers vegna kommúnistar gerðu ekki tilraun til að taka völdin í landinu eftir að þeir og aðrir vinstrimenn höfðu lagt lögreglulið Reykjavíkur að velli 9. nóvember 1932 í Gúttóslagnum mikla. Lögreglumenn lágu beinbrotnir og sárir eftir átökin sem greinilega voru að hluta til skipulögð af Varnarliði verkalýðsins. Þá er eins og kommúnistar hafi ekki vitað hvernig þeir ættu að vinna úr sigrinum, en eins voru þeir alltaf að reyna að lesa í fræði Karls Marx um sögulega framvindu og samkvæmt þeim benti flest til þess að Ísland væri tilbúið undir byltingu. Flokksstarf kommúnista gekk því að hluta til út á að þeir væru tilbúnir þegar byltingin kæmi.

Þór birtir í bók sinni lista yfir 25 Íslendinga sem á árunum 1930-1938 dvöldu í Lenínskólanum og Vesturháskólanum í Moskvu þar sem kommúnistar voru m.a. þjálfaðir í hernaði. Þór og Jón Ólafsson hafa deilt um hvort Íslendingarnir hafi verið þjálfaðir í hernaði. Það verður ekki séð að Þór hafi komist í neinar nýjar heimildir um þetta efni og vitnar aðallega í aðra fræðimenn þegar hann færir rök fyrir því að Íslendingar hafi notið herþjálfunar. Hann bendir síðan á að íslensk stjórnvöld hefðu þurft að efla viðbúnað til að fást við menn sem komnir voru til landsins eftir að hafa lokið herþjálfun hjá Stalín. Íslensk stjórnvöld á þeim tíma gátu hins vegar vegar tæplega vitað hvers konar þjálfun kommúnistarnir höfðu fengið, þótt þau hafi vissulega fengið að kynnast meðölum þeirra á kreppuárunum.

Þór er vandvirkur og nákvæmur sagnfræðingur. Bók hans er fagnaðarefni fyrir alla áhugamenn um sögu og er líkleg til að kalla á umræður í jólaboðum og á hinum fræðilega vettvangi.

Egill Ólafsson