Íslendingaliðið AZ Alkmaar er úr leik í hollensku bikarkeppninni í knattspyrnu. Ajax lagði AZ að velli, 1:0, á Amsterdam ArenA í 16-liða úrslitum keppninnar í gærkvöld.

Íslendingaliðið AZ Alkmaar er úr leik í hollensku bikarkeppninni í knattspyrnu. Ajax lagði AZ að velli, 1:0, á Amsterdam ArenA í 16-liða úrslitum keppninnar í gærkvöld. Jóhann Berg Guðmundsson hjá AZ var í leikbanni og Kolbeinn Sigþórsson hóf leikinn á varamannabekknum. Sulejmani kom Ajax yfir undir lok fyrri hálfleiks og á 72. mínútu fékk Pontus Wernbloom hjá AZ rauða spjaldið. Kolbeinn kom inn á hjá AZ á 75. mínútu en tíu leikmenn liðsins náðu ekki að jafna metin. Kolbeinn fékk gula spjaldið í uppbótartíma leiksins.

Boston Celtics vann í fyrrinótt sinn fjórtánda sigur í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið sigraði Philadelphia 76ers á heimavelli, 84:80. Boston innbyrti sigurinn þrátt fyrir lökustu skotnýtingu sína utan af velli á tímabilinu en hún var 38,8 prósent. Ray Allen skoraði 22 stig fyrir Boston en Elton Brand gerði 16 stig fyrir Philadelphia. Boston trónir á toppi austurdeildar NBA.

Úrvalsdeildarlið Keflvíkinga í körfuknattleik karla hefur samið við Bandaríkjamanninn Thomas Sanders um að leika með liðinu og fylla þar með í skarð Valentinos Maxwells sem leystur var frá störfum á dögunum. Sanders er 25 ára gamall skotbakvörður og leikstjórnandi sem lék síðast með spænska liðinu Illescas.

Knattspyrnumaðurinn Ibrahim Afellay , sem lék 3 leiki fyrir silfurlið Hollands á HM í Suður-Afríku, er kominn til Barcelona þar sem hann mun að öllu óbreyttu verða kynntur sem nýjasti leikmaður Spánarmeistaranna í dag. Afellay er 24 ára gamall miðjumaður og hefur leikið með PSV Eindhoven allan sinn feril. Hann á að baki 29 A-landsleiki fyrir Holland.