Jólin hafa orðið skáldum yrkisefni síðan land byggðist og er sá skáldskapur af öllum toga og ber aldarhættinum vitni.

Jólin hafa orðið skáldum yrkisefni síðan land byggðist og er sá skáldskapur af öllum toga og ber aldarhættinum vitni. Ingunn Jónsdóttir í Kornsá segir í Gömlum kynnum að engar sögur hafi jafnmikil áhrif á börnin og einfaldar og fagrar frásögur um jólaboðskapinn í Betlehem, þegar góð móðir segir frá. Og bætir síðan við: Það munu fleiri hafa orðið fyrir líkum áhrifum frá mæðrum sínum og Matthías lýsir svo snilldarlega:

Síðan hóf hún heilög sagnamál.

Himnesk birta skein í okkar sál.

Aldrei skyn né skilningskraftur minn

skildi betur jólaboðskapinn.

Um Þorgrím Pétursson Nesi veit ég ekkert nema það, að hann orti þessa stöku:

Jafnánægður étið get

ég í nautnaskóla

harðan fisk sem hangiket

á hátíðinni jóla.

Á jólamorgni orti Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli:

Kastið drunga, kætist þið,

hvergi er þungur hagur,

fjallabungum blasir við

bjartur ungur dagur.

Jón Jónsson alþingismaður frá Sleðbrjót kom víða við, var síðast veitingamaður í Vopnafirði áður en hann fluttist vestur um haf 1903, síðast í Siglunesbyggð við Manitobavatn til æviloka 1923. Til hans orti Stephan G. Stephansson:

Jólaeldur innri þinn

út yfir kveld þitt logi!

Skuggaveldin aldrei inn

að þér heldur vogi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is