Fiskur Allir bátar verða í höfn um jólin og því verður ekki ferskan fisk að sjá við Reykjavíkurhöfn.
Fiskur Allir bátar verða í höfn um jólin og því verður ekki ferskan fisk að sjá við Reykjavíkurhöfn. — Morgunblaðið/Ernir
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Um árabil hafa nokkur skip verið á veiðum um jólin með siglingu á erlenda markaði í ársbyrjun í huga, en svo virðist sem ekkert íslenskt fiskveiðiskip verði á veiðum um jólin að þessu sinni.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Um árabil hafa nokkur skip verið á veiðum um jólin með siglingu á erlenda markaði í ársbyrjun í huga, en svo virðist sem ekkert íslenskt fiskveiðiskip verði á veiðum um jólin að þessu sinni.

„Ég held að það verði enginn á veiðum um jólin og ég held að ég sleppi þessu og verði heima þessi jól, en annars yrðu þetta 21. jólin sem ég væri úti á sjó,“ segir Magni Jóhannsson, skipstjóri og útgerðarmaður Brettings KE. „En svo er aldrei að vita. Mér gæti dottið í hug að fara út annan í jólum.“

Frí samkvæmt samningum

Í kjarasamningum sjómanna er almennt ákvæði þess efnis að skipverjum skuli tryggt hafnarfrí frá klukkan 12 á hádegi á Þorláksmessu til miðnættis 2. í jólum. Jafnframt frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag. Skipverjum í uppsjávarfiskveiðiflotanum skal tryggt frí í heimahöfn frá og með 20. desember til 2. janúar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru tvö íslensk skip á sjó í gær. Póseidon var við rannsóknarstörf við Grænland og Þórunn Sveinsdóttir VE á heimleið frá Danmörku en skipið er væntanlegt til Vestmannaeyja í dag.

Góð stemning
» Fyrir þremur árum var Magni Jóhannsson skipstjóri á Sunnu KE í góðu yfirlæti úti á sjó um jólin. „Það var hamborgarhryggur og svínahnakki, þetta voru hefðbundin jól eins og þau eru úti á sjó, góður matur og góð stemning,“ sagði hann þá við Morgunblaðið, en jólin 2007 var Sunna eini íslenski togarinn á veiðum yfir hátíðarnar.
» Árið 2001 voru þrjú íslensk skip að veiðum um jól og áramót.