[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ritstjóri Guðmundur Guðjónsson. Litróf, 2010. 210 bls.

Árbókin Vötn & veiði: Stangveiði á Íslandi ætti að vera flestum stangveiðimönnum að góðu kunn. Rétt eins og fyrri bækur í ritröðinni er sú síðasta prýðileg sending í hendur allra veiðimanna og til þess fallin að vekja bakteríuna upp af vetrardvalanum.

Bókin er þannig uppbyggð að í fyrsta hlutanum er stiklað á fréttum ársins sem er að líða. Eftir það taka við kaflaskiptar frásagnir um þá veiðistaði sem eru til umfjöllunar. Auk þess prýðir bókina fjöldi mynda og að öðru efni ólöstuðu þá fer ekki minni tími í að horfa á þær en að lesa textann. Þetta með myndirnar og orðin þúsund á sjaldnast betur við en þegar kemur að stangveiði.

Eins og gefur að skilja er fréttakaflinn í bókinni misáhugaverður en það sama verður ekki sagt um það sem eftir fylgir. Umfjöllunin um árnar og veiðistaðina er prýðileg og ætti að höfða til allra veiðimanna hvort sem þeir þekkja umrædda staði eða ekki. Að minnsta kosti fékk sá sem þetta skrifar brennandi áhuga á að veiða í ám á borð við Jöklu og Svartá í Skagafirði, svo einhver dæmi séu tekin, eftir lesturinn.

Vissulega má finna eitt og annað að bókinni, eins og meðferð skammstafana og einstaka ambögur. En þetta breytir ekki heildarmyndinni: Veiði & vötn er skemmtilegur annáll þessa mikla veiðusumars og ágæt til uppflettingar um helstu aflatölur. Hins vegar er rétt að hvetja ritstjóra bókarinnar til þess að íhuga alvarlega að birta aftast lista yfir þau nöfn sem koma fram í bókinni.

Örn Arnarson